Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Baskasetur Íslands var á dögunum opnað í tönkum gömlu síldarverksmiðjunnar í Djúpuvík á Ströndum. Þar er m.a. sýning sem fjallar um sögu baskneskra hvalveiðimanna á Íslandi.
Baskasetur Íslands var á dögunum opnað í tönkum gömlu síldarverksmiðjunnar í Djúpuvík á Ströndum. Þar er m.a. sýning sem fjallar um sögu baskneskra hvalveiðimanna á Íslandi.
Mynd / Aðsend
Fréttir 30. september 2025

Saga Baska við Íslandsstrendur varðveitt

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Baskasetur Íslands var opnað í Djúpavík 20. september. Það varðveitir m.a. sögu baskneskra hvalveiðimanna á Íslandi.

Baskasetrið mun halda úti varanlegri sýningu sem miðlar sameiginlegum menningararfi Baska og Íslendinga. Jafnframt  er setrinu ætlað að halda utan um fjölþjóðlega og nýstárlega menningar- og rannsóknartengda starfsemi og verkstæði sem byggja á þessum menningararfi, í þeim tilgangi að minnast sameiginlegrar sögu Íslendinga og hvalveiðimanna frá Baskalandi. Þá er ætlunin að vekja athygli á sjálfbærni tengdri hafinu og litlum afskekktum samfélögum sem byggt hafa afkomu sína á fiskveiðum.

Baskar og bændur 

„Baskasetur Íslands var opnað laugardaginn 20. september, í Djúpavík, að viðstöddum mörgum þeim sem komið hafa að stofnun setursins og gerð sýningarinnar, fulltrúum samstarfsaðilanna, Albaola, Haizebegi, Háskólaseturs Vestfjarða og Baskavinafélagsins, auk sendiherra Frakklands, sendiráðsfulltrúa Spánar og Guðna Th. Jóhannessyni fyrrverandi forseta Íslands, sem opnaði sýninguna,“ segir Ólafur J. Engilbertsson, formaður Baskavinafélagsins á Íslandi.

Baskavinafélagið á Íslandi var stofnað á vormánuðum 2012. Tilgangur félagsins er að rækta samskipti Íslendinga og Baska og efla rannsóknir á tengslum þeirra fyrr og nú.

Bera fór á Böskum við Íslandsstrendur í upphafi 17. aldar og stunduðu þeir einkum hvalveiðar á árunum 1613 til 1615. Segir m.a. í Skarðsannál frá spænskum hvalskutlurum sem lágu allt umhverfis landið á tæpum tveimur tugum skipa. Baskarnir voru frá Gipuzkoa- og Laburdi-héruðunum sem eru beggja megin landamæra Spánar og Frakklands.

Baskar keyptu kindur og nautgripi af bændum, sér til matar, og seldu í staðinn m.a. ýmsa járnvöru, t.d. öngla, potta, hnífa og önnur bitjárn. Gekk á ýmsu í samskiptum Baskanna og heimamanna eins og kunnugt er og kom til mannvíga, svonefndra Spánverjavíga, sumarið 1615.

Margir komu að málum

Baskasetrið er afrakstur Evrópusambandsverkefnis sem hófst árið 2023. Hugmyndin að setrinu er þó eldri, eða frá 2020. Þá kom fram hugmynd í átakinu Áfram Árneshreppur, um Baskasetur í Djúpavík.

Hótel Djúpavík hefur um árabil haft umsjón með gömlu síldarverksmiðjunni frá 1934 og sinnt viðgerðum á verksmiðjunni og tönkunum. Baskavinafélagið fór í samstarf við hótelið og varð niðurstaðan sú að verkefnið hlaut haustið 2022 styrk að upphæð 200.000 evra, eða um 30 milljónir króna frá Evrópusjóðnum Creative Europe í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, Haizebegi í Bayonne, Albaola í Pasaia og fleiri aðila. Í gömlu síldartönkunum í Djúpavík varð svo til sögusýning um samskipti Íslendinga og Baska. Fyrri áfangi sýningarinnar var opnaður í sumarbyrjun í fyrra. Smíðuðu þeir Hafliði Aðalsteinsson og Einar Jóhann Lárusson svokallaðan „txalupa“, léttabát eftir teikningum frá Albaola og var báturinn fluttur norður á sýninguna.

Héðinn Ásbjörnsson er formaður Baskaseturs.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...