Byggðastofnun stóð fyrir ráðstefnu í Mývatnssveit um fjölbreytileika samfélaga, jafnvægi, áskoranir og vannýtt sóknarfæri. Horft yfir til Skútustaða.
Byggðastofnun stóð fyrir ráðstefnu í Mývatnssveit um fjölbreytileika samfélaga, jafnvægi, áskoranir og vannýtt sóknarfæri. Horft yfir til Skútustaða.
Mynd / sá
Fréttir 27. nóvember 2025

Rýnt í fjölbreytileika samfélaga

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Á Byggðaráðstefnu 2025 kom m.a. fram að konur á landsbyggðinni telja að karlar hafi mun sterkari stöðu en þær. Þá sé öldrun helsta áskorun íslenskra byggða.

Byggðastofnun stóð fyrir ráðstefnu um fjölbreytileika samfélaga, jafnvægi, áskoranir og vannýtt sóknarfæri í Skjólbrekku í Mývatnssveit fyrr í mánuðinum.

Meðal þess sem fjallað var um á byggðaráðstefnunni er kynjuð upplifun jafnréttis í íslenskum byggðarlögum. Dr. Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknasetri í byggða- og sveitarstjórnarmálum við Háskólann á Bifröst, sagði upplifun fólks á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi vera mismunandi og viðhorf til jafnréttismála sömuleiðis.

Rannsóknasetur í byggða- og sveitarstjórnarmálum spurði í mars 2025 tilviljanakenndan úrtakshóp um allt land um viðhorf þeirra til stöðu karla og kvenna í sínu samfélagi, um þátttöku í sjálfboðaliðastarfi og einnig hver sinnti þriðju vaktinni á heimilinu. Fram kemur í samantekt ráðstefnunnar að fyrstu niðurstöður bendi til að nokkur kynjamunur sé á upplifun af stöðu karla og kvenna, þar sem konur telji karla hafa mun sterkari stöðu á meðan karlar hallist frekar að því að staðan sé jöfn. Sama megi segja um upplifun af verkaskiptingu þriðju vaktarinnar, þar sem konur segist frekar sinna þessu meira á heimilinu en karlar hallist frekar að því að þessu sé jafnt skipt.

Öldrun samfélaga

Þorkell Stefánsson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun, sagði í erindi sínu, Lýðfræði – íbúaþróun, að Ísland stæði frammi fyrir miklum lýðfræðilegum breytingum sem væru nú þegar farnar að hafa áhrif á byggðaþróun.

Hann benti á að öldrun samfélaga væri ein helsta áskorun íslenskra byggða og að breytingar væru þegar farnar að koma fram, sérstaklega í landsbyggðunum. Fæðingartíðni hafi verið undir viðhaldsmörkum í yfir tvo áratugi og sé nú komin niður í 1,6 börn á konu. Hlutfall eldra fólks vaxi því hratt á meðan ungu kynslóðirnar eru fámennari.

Áhrifin séu víðtæk: færra vinnandi fólk þurfi að standa undir vaxandi fjölda eftirlaunaþega, sem setji aukinn þrýsting á vinnumarkað, velferðarkerfi og heilbrigðisþjónustu. Þróunin sé þó misjöfn eftir landshlutum – öldrunin gangi hraðast í dreifðum byggðum, þar sem Vestfirðir eru elsti landshlutinn. Þar hafi íbúum með íslenskt ríkisfang fækkað um nær fjórðung frá aldamótum, en innflytjendur hafi dregið úr áhrifum fækkunar og stuðlað að betra jafnvægi í aldurssamsetningu og atvinnuþátttöku.

Hann sagði að um allt land væru nú um 70 þúsund manns með erlent ríkisfang, sem jafngilti 18% íbúa, og meginhluti fólksfjölgunar síðasta áratugar – eða 71% – megi rekja til komu nýrra íbúa til landsins. Þessi þróun hafi orðið veigamikill þáttur í efnahagslegum vexti á undanförnum árum.

Festa þurfi nýja íbúa í sessi

Þorkell benti þó á að áhrif innflytjenda á aldurssamsetningu væru tímabundin, þar sem margir flytji aftur úr landi þegar starfsferli ljúki. Til að tryggja sjálfbærni til framtíðar þurfi samfélagið að ná betur að festa nýja íbúa í sessi og nýta hæfni þeirra til fulls.

Í samantekt um ráðstefnuna kemur fram að erindi Þorkels hafi minnt á að lýðfræði sé ekki aðeins tölfræði heldur grundvöllur ákvarðanatöku um framtíð byggðanna. Með markvissum aðgerðum, aukinni inngildingu og nýtingu fjölbreyttrar hæfni geti íslensk samfélög mætt öldrun og fólksfækkun með nýjum tækifærum til vaxtar og nýsköpunar.

Meðal annarra umfjöllunarefna á byggðaráðstefnunni má nefna rannsóknir á viðhorfum innflytjenda til líðanar sinnar háð búsetu og stöðu á vinnumarkaði, hlutverk menningarstofnana í inngildingu innflytjenda, aðkomu þeirra að ferðaþjónustu, gervigreind, háskólastarf, samvinnu í heilbrigðisþjónustu, hvernig fá megi fjölbreyttari sjónarmið í sveitarstjórnir á Íslandi og nauðsyn á rannsóknastofnun í innflytjendamálum.

Byggðaráðstefnur, sem haldnar eru annað hvert ár, sameina fræðilega og hagnýta þekkingu til að efla sjálfbæra þróun byggða um land allt.

Skylt efni: Byggðaráðstefna

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

Þýskar heimsbókmenntir
3. desember 2025

Þýskar heimsbókmenntir

Laufey
3. desember 2025

Laufey

Gjörunnin matvæli ógn við lýðheilsu
4. desember 2025

Gjörunnin matvæli ógn við lýðheilsu

Þúsund ár og þúsund enn
4. desember 2025

Þúsund ár og þúsund enn

Góður árangur náðst
4. desember 2025

Góður árangur náðst

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f