Risavaxinn fríverslunarsamningur við S-Ameríku
EFTA-ríkin hyggjast staðfesta fríverslunarsamning við fjögur Suður-Ameríkuríki síðar í september. Hann mun ná til 97% af öllum útflutningsvörum ríkjanna. ESB er jafnframt með slíkan samning í samþykktarferli.
Evrópusambandið hefur, eftir rúmlega tveggja áratuga viðræður, lagt fram svonefndan Mercosur-samning (Mercado Común del Sur), risavaxinn fríverslunarsamning um viðskipti við Mercosur-ríkin Argentínu, Brasilíu, Paragvæ og Úrúgvæ.
Þegar er samkomulag um slíkan fríverslunarsamning af hálfu EFTAríkjanna Íslands, Noregs, Lichtenstein og Sviss við Mercosur-ríkin og reiknað með að hann verði staðfestur á næstu vikum. Fríverslunarsamningurinn mun ná til um 97% af öllum útflutningsvörum EFTA-ríkjanna og þar með talið landbúnaðarvara.
Samningurinn er talinn koma til með að bæta aðgengi íslenskra fyrirtækja að stóru markaðssvæði, með yfir 260 milljónum íbúa, styrkja viðskiptatengsl Íslands og Suður-Ameríku og skapa ný tækifæri, sérstaklega hvað varðar markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir.
Sviss og Noregur eru stærstu EFTA-útflytjendur vara til Mercosurríkjanna, fluttu út vörur að andvirði um 5,5 milljarða evra árið 2024, en útflutningur Íslands til ríkjanna nam um 5,5 milljónum evra. EFTA-ríkin hafa nú gert 35 fríverslunarsamninga við 49 ríki eða ríkjasambönd utan Evrópusambandsins.
Sjö hundruð milljónir íbúa
Fyrstu skrefin að samþykkt Mercosursamningsins hjá ESB voru tekin í byrjun mánaðarins þegar framkvæmdastjórn ESB samþykkti tillögur Evrópuráðsins um samninginn. Með honum yrði til stærsta fríverslunarsvæði veraldar, með um sjö hundruð milljónum íbúa.
Skv. fréttatilkynningu Evrópusambandsins voru fluttar út evrópskar vörur til Mercosur-ríkjanna fyrir um 57 milljarða evra í fyrra og vonir bundnar við að þau viðskipti aukist um nærfellt helming eftir að samningurinn gengur í gildi.
Óeining er meðal hinna 27 aðildarríkja ESB um Mercosursamninginn. Til að hann fáist staðfestur þarf samþykki Evrópuþingsins og aukinn meirihluta aðildarríkja ESB.
Sem dæmi um gagnrýnisraddir, einkum frá Frakklandi og Póllandi, má nefna að goldinn er varhugur við gríðarmiklum innflutningi af kjöti og hunangi inn til Evrópuríkjanna og óljóst um gæði þess og hreinleika, enda regluverk lausara í reipum í Mercosur-ríkjunum en í Evrópu. Stjórnvöld og þarlendir bændur líta á samninginn sem töluverða ógn við framleiðslu landbúnaðarafurða og afkomu bænda.
Viðbrögð Bændasamtakanna
Margrét Á. Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands (BÍ), segir að samkvæmt upplýsingum sem BÍ hafi fengið frá utanríkisráðuneytinu þá eigi fríverslunarsamningurinn ekki að hafa veruleg áhrif á landbúnaðinn hér á landi. Samningurinn sé, hvað varðar landbúnaðarafurðir, eins og aðrir fríverslunarsamningar sem Ísland hefur gert á vettvangi EFTA, þ.e. innflutningur kjarna landbúnaðarafurða og meginstoðir þeirra eru undanþegnar efni samningsins.
„Hins vegar hefur í þessu tilliti mikið verið rætt um Mercosurnautakjötið, þ.e. nautakjöt frá Brasilíu, Argentínu, Paragvæ og Úrúgvæ, meðal evrópskra bænda og á meðal Evrópusambandsins. Samkvæmt sambandinu, og EFTA ríkin fylgja eftir hvað þennan samning varðar, þá er viðbótaraðgangur að Mercosur-nautakjöti takmarkaður með samningnum og mun samningurinn því hafa takmörkuð áhrif á nautakjötsmarkað Evrópusambandsins enda er útflutningur til Evrópusambandsríkja aðeins lítill hluti af nautakjötsframleiðslu Mercosur,“ segir Margrét.
Segir hún að samkvæmt þeim upplýsingum sem BÍ hafi aflað muni heildarmagn kjöts í umferð á Íslandi ekki aukast fyrir tilstilli samningsins en möguleiki sé á að gefinn verði afsláttur af gjaldi þess WTO-tollkvóta sem greitt væri fyrir til að flytja inn Mercosurnautakjöt. Að sama skapi muni EFTA-ríkin samkvæmt samningnum fá verulegar tollaívilnanir á þeim landbúnaðarafurðum sem eru þeim mikilvægar í útflutningi.
„Vissulega er erfitt að segja hver áhrif samningsins verða í reynd þegar BÍ hafa ekki séð efni hans og ákvæði. Þá hefur verið bent á að samningurinn muni styrkja tvíhliða og alþjóðlegt samstarf um málefni sem tengjast velferð dýra, baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi o.fl. Í samningnum mun einnig vera að finna sértæk ákvæði um viðskipti, sjálfbæran landbúnað og matvælakerfi, þar sem samningsaðilar eru sammála um að efla sjálfbæran landbúnað og tengd viðskipti og að eiga viðræður til að taka á slíkum tengdum málum. Í samkomulaginu viðurkenna aðilar að það að efla sjálfbæra landbúnaðarhætti feli í sér að nota ekki hormónavaxtarhvata í kjötframleiðslu og að viðhafa viðleitni til að hætta notkun sýklalyfja sem vaxtarhvata fyrir dýr. Hvað þessi atriði varðar er Ísland í algjörri sérstöðu,“ segir Margrét enn fremur.
Vörueftirlíkingar bannaðar
Mercosur-samningurinn mun hafa mikil áhrif á matvælaframleiðslu innan Evrópu og er sagður eiga eftir að draga mjög úr viðskiptahindrunum milli ríkjanna með landbúnaðarvörur og önnur matvæli.
Framkvæmdastjórn ESB lítur á samninginn sem tækifæri m.a. til að auka tvíhliða viðskipti og fjárfestingar og minnka tollaog viðskiptahindranir, einkum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Samningurinn miði að því að milda eða fjarlægja viðskiptahindranir fyrir ákveðnar lykilgreinar. Má í því sambandi nefna framleiðslu víns, sterks áfengis, súkkulaðis og osta. Þá verða tollar á sojabaunum og dýrafitu lækkaðir og tollar á skinnum felldir niður. Vörueftirlíkingar innan Mercosur-ríkjanna verða bannaðar, sem og villandi myndir, fánar eða tákn.
