Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Repjuolía hefur ekki endilega verið hátt skrifuð á Íslandi sem matarolía. Eymundur Magnússon í Vallanesi framleiðir kaldpressaða, lífræna repjuolíu og segir hana afbragð til matargerðar.
Repjuolía hefur ekki endilega verið hátt skrifuð á Íslandi sem matarolía. Eymundur Magnússon í Vallanesi framleiðir kaldpressaða, lífræna repjuolíu og segir hana afbragð til matargerðar.
Mynd / sá
Fréttir 3. september 2025

Repjuolía njóti sannmælis

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Repjuolía hefur stundum verið kölluð ólífuolía norðursins og er m.a. framleidd á Norðurlöndunum og í Bretlandi. Hún hefur þó ekki notið sannmælis sem olía í matargerð nema að litlu leyti.

„Þegar ég fór að spyrja menn um repjuolíu og repjuolíuframleiðslu fyrir mörgum árum var svarið að aldrei yrði hægt að rækta olíufræ á Íslandi. En við erum að framleiða helling af repjuolíu og þetta er bara mjög fín og stöðug ræktun,“ segir Eymundur Magnússon, Vallanesbóndi á Fljótsdalshéraði. Þar hefur alllengi verið ræktuð bæði vetrar- og sumarrepja og unnin úr henni lífræn og kaldpressuð matarolía.

Repjuolíuvinnslan í Vallanesi. Hér er olían sett á flöskurnar með handdælu.

„Það er ákveðin neikvæðni í gangi gagnvart repjuolíu,“ heldur Eymundur áfram. „Að hún sé bara iðnaðarolía og ætluð til að setja á traktorinn. En lífrænt ræktuð, kaldpressuð olía er bara hágæðaolía og á ekkert skylt við þessar iðnaðarolíur sem við erum að flytja inn. Fólk verður stundum alveg brjálað þegar það sér repjuolíu í innihaldslýsingum og hrópar upp yfir sig hvaða árans drasl þetta sé! En repjuolía og repjuolía eru bara ekki sami hluturinn, það fer allt eftir vinnslunni og ræktunaraðferðinni,“ segir hann.

Ekki sækja vatnið yfir lækinn

Hann telur að að finna þurfi einhverja leið til að vinna á þessum fordómum. „Bretar til dæmis rækta ekki ólífur þannig að repjuolía er olían þeirra og miklu jákvæðara viðhorf þar gagnvart henni. Repjuolía á bara að vera olían okkar hér á Íslandi, þetta er eina olíujurtin sem við getum ræktað eins og er til vinnslu. Það er u.þ.b. 30–35% olía í fræinu.

Ég rek mig oft á að okkur Íslendingum finnst allt best og stærst á Íslandi, en svo bara förum við út í búð og kaupum fjöldaframleiddar vörur frá útlöndum. Við erum ekki alveg að standa með okkur sjálfum sem þjóð. Það þarf að standa með hlutunum, og ekki bara á jólunum,“ segir Eymundur jafnframt.

Hann segir að við gerð iðnaðarolíu séu fræin hituð til að ná út úr þeim sem mestu. Repjuolían sem Móðir Jörð framleiðir sé hins vegar lífræn og kaldpressuð og fari í gegnum fjögur stig í framleiðslu. Henni er pakkað með handdælu og Eymundur segist fara um hana mjúkum höndum. „Vinnsla og pökkun hefur mikil áhrif því ef þú ert með kraftmiklar dælur þá dælirðu lofti inn í olíuna sem gerir að verkum að hún þránar fyrr, það er lykilatriði sem er gott að vita,“ útskýrir hann.

Kokkar hrifnir

„Það er gaman að sjá kokka smakka hana því það eru ofboðslega mikil bragðgæði í henni. Þar fyrir utan þá er þetta ein hitaþolnasta olían. Hún brennur ekki fyrr en við 200 gráður, svo þetta er olían sem þú átt að nota til að steikja upp úr en ekki ólífuolíu sem brennur við 100 gráður eða minna,“ bætir hann við.

Bragð repjuolíu er mismunandi eftir því hvar repjan er ræktuð. Nokkrir fóru af stað með olíuframleiðslu og hún er ólík eftir því hvaðan hún kemur. Repjuolían frá Móður Jörð ber til dæmis merki þess að hún er ekki ræktuð í eldfjallajarðvegi og hefur þannig sína sérstöðu, meðan repjuolía af Suðurlandi hefur öðruvísi bragð sem helgast af öðrum jarðvegi. Þetta þekkja vínbændur öðrum betur; hvað jarðvegurinn hefur mikið að segja.

Skylt efni: repjuolía

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...