Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi
Eftir þungan rekstur síðasta vetur glímir ullarvinnslufyrirtækið Ístex við fjárhagsvanda og gat því ekki staðið í skilum við sauðfjárbændur núna í júní með fyrri greiðslu ársins vegna ullarinnleggs.
Í bréfi sem Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístex, sendi bændum nýverið kemur fram að ástæðan sé sölufall frá byrjun september á síðasta ári. Þá hafi apríl og maí á þessu ári verið mjög erfiðir sem hafi leitt til lausafjárvanda.
Í ársreikningi Ístex má sjá að afkoma síðasta árs var neikvæð um rúmar 105 milljónir króna, en tæplega 153 milljóna króna hagnaður var árið á undan. Þar sést að mikill samdráttur er einkum í útflutningi á milli áranna.
„Þetta er búinn að vera erfiður vetur hjá okkur,“ segir Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístex. „Við höfum þurft að semja við birgja og lánastofnanir til að ýta rekstri Ístex áfram. Einn hluti af því er að við verðum að ýta greiðslum til bænda aftur. Leitað er allra leiða til að fjármagna greiðslurnar, en við getum ekki sagt til um það núna hvenær það verður.“
Rúmar 140 milljónir vantar
Sigurður segir upphæðina sem um ræðir vera rúmlega 140 milljónir króna og viðræður séu í gangi við lánastofnanir um lánveitingar til að geta staðið straum af þessum skuldbindingum. Einnig sé horft til þess að selja eiginhluta Ístex og hugsanlega að auka hlutafé í félaginu. Ístex er í meirihlutaeigu sauðfjárbænda.
Ístex kaupir ull beint frá bændum en félagið þvær og meðhöndlar á bilinu 98–99 prósent af allri íslenskri ull.
Vandi minni handprjónaverslana
Sigurður segir ástæðu samdráttar í útflutningi og vörusölu vera að finna í ákveðinni keðjuverkun sem hafi átt sér stað í viðskiptalöndum Ístex. „Þýskaland er mikilvægt markaðssvæði til að mynda og þar vitum við að minni handprjónaverslanir hafa átt undir högg að sækja – sem eru helstu viðskiptavinir Lopa. Þeim hefur fækkað og það hefur orðið samþjöppun á þeim markaði. Við seljum í gegnum dreifingaraðila og margir þeirra eru að bæta við öðrum vörum frá öðrum framleiðendum, en á sama tíma minnka lagerinn og taka smærri pantanir. Þetta hefur bitnað á okkur, sem og tollastríð margs konar sem eru í gangi víða í okkar viðskiptalöndum – og Bandaríkin og Þýskaland eru þar hvað mikilvægust. Vegna óvissunnar í þessum tollamálum hafa þessir dreifingaraðilar frestað innkaupum, pantað svo inn minna en venjulega og jafnvel frestað aftur. Það skýrist líka að einhverju leyti af því að búðareigendur erlendis hafa breytt starfsvenjum sínum, safnað síður upp lager af bandi heldur sinnir pöntunum jafnóðum.
Júní var hins vegar góður mánuður, nýir dreifingaraðilar hafa bæst við og nýjar pantanir fyrir haustið borist.“
Síðustu fjögur ár hafa hins vegar verið mjög hagstæð í rekstri Ístex, en ráðist hefur verið í talsverðar fjárfestingar samhliða þeim uppgangi – húsnæði lagfært og nýjar vélar keyptar inn í vinnslulínuna.
