Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Í raun eru nú tvær afurðaverðskrár í boði fyrir sauðfjárbændur; frá Sláturfélagi Suðurlands og Kaupfélagi Skagfirðinga.
Í raun eru nú tvær afurðaverðskrár í boði fyrir sauðfjárbændur; frá Sláturfélagi Suðurlands og Kaupfélagi Skagfirðinga.
Mynd / smh
Fréttir 15. ágúst 2024

Reiknað afurðaverð hækkar um 17 prósent

Höfundur: smh

Landsmeðaltal á reiknuðu afurðaverði fyrir kíló dilkakjöts hækkar um 17 prósent á milli ára.

Fyrir komandi sláturtíð standa sauðfjárbændum í raun tvær afurðaverðskrár til boða þegar horft er til hefðbundinna kjötafurðastöðva; frá Sláturfélagi Suðurlands (SS) annars vegar og hins vegar afurðastöðvum í eigu Kaupfélags Skagfirðinga (KS).

Samkvæmt útreikningum Bændasamtaka Íslands á reiknuðu afurðaverði greiðir SS 1.043 krónur á kíló dilkakjöts með öllum álagsgreiðslum en KS – og afurðastöðvar í eigu þess – 1.055 krónur á kíló dilkakjöts. Fjallalamb fylgir verðskrá Norðlenska, sem er nú í eigu KS.

Reiknað afurðaverð hækkar talsvert

Unnsteinn Snorri Snorrason, sem heldur utan um útreikninga Bændasamtaka Íslands, segir að reiknað afurðaverð hækki talsvert á milli ára.

„Fyrir það fyrsta eru afurðastöðvar að hækka grunnverðskrá um átta prósent en einnig er verið að auka vikulegt sláturálag og þá eru svokallaðar álagsgreiðslur hærri í ár en í fyrra.  Eru átta prósent hjá öllum aðilum en voru um fimm prósent í fyrra. Þá hefur flokkun sláturfjár einnig áhrif á hækkun reiknaðs afurðaverðs og hún var mun betri árið 2023 en 2022,“ segir hann.

Fækkun og samþjöppun á eignarhaldi

Kjötafurðastöðvum hefur fækkað á síðustu árum, auk þess sem samþjöppun hefur orðið á eignarhaldi afurðastöðva sem smám saman hefur leitt til fækkunar á afurðaverðskrám.

Kaupfélag Skagfirðinga keypti helmingshluta í Sláturhúsi KVH á Hvammstanga í byrjun árs 2006 og síðan hefur verðskrá KS gilt fyrir bæði sláturhúsin.

Kjarnafæði eignaðist meirihluta í SAH afurðum á Blönduósi á árinu 2015, þar sem sláturhús hefur verið rekið frá 1908. Kjarnafæði og Norðlenska sameinuðust svo árið 2021, en Norðlenska hefur rekið sauðfjársláturhús og kjötvinnslu á Húsavík og stórgripasláturhús og kjötvinnslu á Akureyri. Sameiginleg afurðaverðskrá hefur síðan verið í gildi fyrir Blönduós og Húsavík.

Sláturfélag Vopnfirðinga hætti starfsemi eftir síðustu sláturtíð og frá árinu 2021 breyttist starfsemi Fjallalambs þegar ákveðið var að hætta á íslenskum markaði með lambakjöt. Nú selur fyrirtækið eingöngu svið á innlendum markaði undir eigin vörumerki. Þar er þó áfram slátrað að hausti, en Kjarnafæði Norðlenska hefur keypt allt kjöt. Utan sláturtíðar hefur Fjallalamb sinnt kjötsögun fyrir Kjarnafæði Norðlenska.

KS keypti svo Kjarnafæði Norðlenska í sumar, en kjötafurða- stöðvarnar í eigu þess; Norðlenska, SAH afurðir og Sláturhús KVH halda áfram starfsemi sinni með svipuðu sniði og áður.

Gott skref í leiðréttingu á afurðaverði

Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður deildar sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, segir þær verðskrár sem séu komnar fram vera gott skref í leiðréttingu á afurðaverði til bænda. „Að mati okkar hjá deild sauðfjárbænda þarf afurðaverð að vera virkur hvati til að viðhalda framleiðsluvilja stéttarinnar þannig að þeir sem búgreinina stundi geti samhliða rekstri búsins greitt sér viðunandi laun og sinnt viðhaldi eigna. Framleiðsla dilkakjöts hefur dregist saman undanfarin ár vegna afkomubrests og spurning hvort hækkunin núna nái að snúa þeirri þróun við þannig að hægt sé að anna þörfum innanlandsmarkaðar á komandi árum.“

Raunverð er breytilegt

Útreikningar Bændasamtaka Íslands á reiknuðu afurðaverði byggja á landsmeðaltali slátrunar og kjötmats í vikum 34–44 árið 2023.

Vægi einstakra vikna í verðinu byggir á sláturmagni á landinu öllu og sömuleiðis kjötmati á landinu öllu eftir einstökum vikum haustið 2023.  Vægi afurðastöðva í landsmeðaltali er síðan eftir hlutdeild þeirra í slátrun á tímabilinu í heild. 

Það raunverð sem einstakar afurðastöðvar greiða er síðan breytilegt, enda er niðurstaða kjötmats hjá hverri fyrir sig ekki sú sama og landsmeðaltalið, né heldur sláturmagn í einstökum vikum. Af sömu ástæðum er meðalverð sem einstakir bændur fá líka breytilegt.

Hvetja Bændasamtökin alla bændur til að reikna út afurðaverð samkvæmt forsendum þeirra bús, en samtökin telja þessa útreikninga gefa eins góða mynd og hægt er út frá forsendum sauðfjárframleiðslunnar í heild.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...