Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Mögulegar leiðir á dreifingu sýklalyfjaónæmra baktería í umhverfinu eru margvíslegar eins og sést á þessari skýringarmynd.
Mögulegar leiðir á dreifingu sýklalyfjaónæmra baktería í umhverfinu eru margvíslegar eins og sést á þessari skýringarmynd.
Mynd / WHO
Fréttir 12. mars 2024

Reglulegt eftirlit og aukin fræðsla

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Þverfaglegur starfshópur hefur skilað Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra aðgerðaráætlun til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmis hér á landi, sem talin er vera ein helsta alþjóðlega heilbrigðisógnin sem heimurinn stendur frammi fyrir.

Hingað til hefur vandamálið ekki verið eins stórt hér á landi og í mörgum öðrum löndum, en í samantekt aðgerðaráætlunarinnar kemur fram að það hafi farið vaxandi á undanförnum árum. Alþjóðlegar stofnanir hafa varað við yfirvofandi ógn og hvatt þjóðir til að taka höndum saman gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería og gera aðgerðaráætlanir áður en það verður of seint.

Lítil sýklalyfjanotkun í íslenskum landbúnaði

Ísland hefur státað af því að vera með mjög litla notkun sýklalyfja í landbúnaði, en ein helsta ástæða þess að sýklalyfjaónæmi fer ört vaxandi í heiminum má rekja til ofnotkunar á sýklalyfjum bæði hjá mönnum og dýrum. Bakteríurnar verða þolnar og ekki er hægt að drepa þær með hefðbundinni sýklameðferð. En sýklalyfjaónæmar bakteríur virða ekki landamæri og komast með ýmsum hætti inn í landið þar sem þær geta dreifst í umhverfinu og fjölgað sér.

Í samræmi við áherslur alþjóðlegra stofnana er í aðgerðaráætluninni lagt upp með nálgunina „Ein heilsa“ sem felur í sér að aðgerðirnar þurfa að beinast að mönnum, dýrum, matvælum og umhverfi.

Notkun á sýklalyfjum í landbúnaði í Evrópu 2021. Líkt og fyrri ár var sala sýklalyfja í dýrum minnst á Íslandi mælt í tonnum, eða 0,57 tonn. Þegar miðað er við mg/PCU (milligrömm á áætlaða þyngd búfjár) var salan þó minnst í Noregi, eða 2,5 mg/PCU, en Ísland kom þar á eftir með 3,6 mg/PCU. Svíþjóð kom svo næst með 12,1 mg/PCU og Finnland með 17 mg/PCU. Heimild / Skýrslan Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjanæmi baktería hjá mönnum og dýrum á Íslandi 2022

Ónæmar bakteríur í umhverfinu

Í niðurstöðum skimunarverkefnis Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar árið 2019 á sýklalyfjaónæmi baktería í umhverfi, kom í ljós að tilteknar ónæmar bakteríur virtust vera nokkuð útbreiddar í umhverfinu. Í yfirborðsvatni reyndist 60 prósent sýnanna jákvæð sem var mun hærra hlutfall en finnst í dýrum og dýraafurðum.

Það sama ár voru tekin sýni úr innlendu og erlendu svína-, nautgripa- og alifuglakjöti, bæði á markaði og í afurðastöðvum og reyndust 2,6 prósent sýna af kjúklingakjöti innihalda ónæmu bakteríuna sem skimað var fyrir; eitt prósent innlendra sýna en 14,8 prósent erlendra sýna. Ekkert sýnanna af svínakjöti var jákvætt en eitt af 143 sýnum af nautgripakjöti var greint jákvætt, en það átti uppruna í Póllandi.

Ónæmar bakteríur geta borist úr matvælum yfir í mannfólk, til dæmis úr kjöti og grænmeti, sérstaklega þegar þau hafa ekki verið nægilega vel elduð eða hitameðhöndluð.

Vigdís Tryggvadóttir.
Engin umhverfisvöktun frá 2019

Vigdís Tryggvadóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun, var í starfshópnum sem skilaði aðgerðaráætluninni og hefur einnig yfirumsjón með vöktun sýklalyfjaónæmra baktería í dýrum og matvælum hér á landi. Hún segir að ekkert sambærilegt verkefni á sviði umhverfisvöktunar hafi verið í gangi frá 2019.

„Eitt af markmiðum aðgerðaráætlunarinnar er að bæta yfirsýn og þekkingu á útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería og sýklalyfjaleifa í umhverfi, meðal annars koma á reglulegri vöktun en til þess þarf Umhverfisstofnun til dæmis ýmis úrræði eins og mannafla og fjármagn sem gert er ráð fyrir í kostnaðaráætlun aðgerðaráætlunarinnar.“

Meira eftirlit og aukin fræðsla

Þegar Vigdís er spurð um helstu aðgerðir áætlunarinnar sem snúa að landbúnaði og matvælaframleiðslu, segir hún að þær beinist aðallega að meiri áherslu á eftirlit með notkun sýklalyfja í dýrum, auka fræðslu til almennings, dýralækna og matvælaframleiðenda. „Þá á að setja á reglulega vöktun á tilteknum ónæmum bakteríum í svínum og lömbum til viðbótar þeirrar vöktunar sem er nú þegar tilgreind í reglugerð, leiðbeiningar um skimanir í öðrum matvælum en eru í reglugerð og leiðbeiningar um viðbrögð ef tilteknar ónæmar bakteríur greinast í dýrum eða í matvælum.“

Hún segir að ekki sé hægt að treysta á þróun nýrra sýklalyfja. Það sé lítið að gerast í þeim efnum og ef það koma ný lyf á markað þá verði þau eflaust mjög dýr og notkunin takmörkuð, einungis fyrir erfiðar sýkingar í fólki. „Að framleiða nýtt sýklalyf er bæði tímafrekt og dýrt og lyfjafyrirtækin hafa verið mjög opinská með það að það borgi sig ekki fyrir þau að fara út í þannig framleiðslu að ráði, einmitt vegna þeirra takmarkana sem mun líklegast verða á notkuninni.“

Skylt efni: sýklalyfjaónæmi

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...