Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Porsche – dráttarvél fólksins
Á faglegum nótum 7. apríl 2015

Porsche – dráttarvél fólksins

Höfundur: Vilmundur Hansen

Auk þess að framleiða sportbíla, sem varla eru á færi annarra en margmilljónamæringa að eignast, framleiddi Porsche á tímabili dráttar­vélar. Ríflega 20 slíkar voru fluttar til Íslands skömmu eftir 1950.

Þrátt fyrir að fyrstu Porsche-traktorarnir væru hannaðir af stofnanda fyrirtækisins  og héldu nafni þess í mörg ár framleiddi Porsche traktora eingöngu í stuttan tíma. Porsche hannaði einnig fjórhjóladrifinn fallbyssutraktor fyrir Austro-Daimler í heimsstyrjöldinni fyrri.

Vélin aftan við ökumannssætið

Hugmyndin að framleiðslu Porsche-dráttarvéla varð til á seinni hluta þriðja áratugar síðustu aldar samhliða hugmyndinni um framleiðslu á Wolkswagen, bíl fólksins. Nokkrar dráttarvélar voru framleiddar áður en seinni heimsstyrjöldin braust út en framleiðslan stöðvaðist í stríðinu.

Fyrstu Porsche-traktorarnir voru óvenjulegir að því leyti að vélin var aftan við ökumannssætið og eins konar geymslurými að framan. 

Volksschlepper

Vinna við nýja Porsche-dráttarvélar, sem fékk vinnuheitið Volksschlepper, eða dráttarvél fólksins, hófst strax í lok heims­styrjaldarinnar seinni. Þegar vélin kom á markað var búið að endurbæta fyrri hönnun talsvert. Vélin var tveggja strokka, gekk fyrir dísilolíu, loftkæld og búið að færa hana fram fyrir ökumannsætið og setja húdd yfir hana.

Einkennislitur Porsche-dráttarvéla var frá upphafi rauður eða appelsínugulur til að vera mest áberandi.

Allgaier kaupir framleiðsluréttinn

Nokkrum árum eftir að nýja Porsche-dráttarvélin kom á markað keypti fyrirtækið Allgaier framleiðsluréttinn.  Allgaier þekkti vel til verka á sviði vélasmíði og sölu og á árabilinu 1946 til 1957 seldust ríflega 25.000 Porsche-traktorar.

Mannesmann-samsteypan keypti framleiðsluréttinn á dráttarvélum árið 1957. Á þeim tíma voru framleiddar nokkrar stærðir Porsche-traktora með eins til fjögurra strokka vélar frá 14 og upp í 50 hestöfl.

Framleiðslu á Porsche-traktorum var hætt árið 1964 þegar dráttarvélaframleiðsla Mannesmanns var tekin yfir af Renault.

Porsche-dráttarvélar á Íslandi

Ríflega 20 Porsche-dráttarvélar voru fluttar til Íslands skömmu eftir 1950. Eina slíka er að finna á Búvélasafninu að Grund í Reykhólahreppi. Vélin er árgerð 1956 af gerðinni Porsche A 111 og 12 hestöfl.

Unnsteinn Ólafsson, einn af aðstandendum safnsins, segir að vélin hafi verið keypt ný frá Þýskalandi að Munaðarnesi í Borgarfirði og notuð við almenn bústörf. „Upphaflegur eigandi traktorsins hét Magnús Einarsson en síðar eignaðist Katrín, dóttir hans, vélina og við fengum hana frá henni.“ Unnsteinn segir að hann og bróðir hans, Guðmundur, hafi rekist á traktorinn fyrir hendingu þegar þeir voru á keyrslu. „Við sáu vélina í haug fyrir utan veg og fórum að skoða hana og vissum ekki í fyrstu af hvað tegund hún var. Eftir smá eftirgrennslan komust við að því að það átti að farga vélinni en Katrín gaf okkur leyfi til að hirða hana.“

Í dag er vélin uppgerð og gangfær og einn af sýningar­gripum Búvélasafnsins á Grund í Reykhólahreppi. 

Skylt efni: Traktor | Dráttarvél

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...