Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Michael Pollan segist lengi hafa haft áhuga á plöntum og áhrifum þeirra á meðvitundina.
Michael Pollan segist lengi hafa haft áhuga á plöntum og áhrifum þeirra á meðvitundina.
Mynd / VH
Viðtal 1. febrúar 2023

Plöntur, heilsa og hugur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Blaðamaðurinn og rithöfundurinn Michael Pollan var einn af gestum ráðstefnunnar „Psychedelics as Medicine“ í Hörpu á dögunum. Pollan hefur lengi haft áhuga á næringarfræði og matnum sem við borðum. Síðustu tvær bækur hans fjalla aftur á móti um hugvíkkandi plöntur og áhrif þeirra á mannshugann.

Pollan er prófessor við Berkeley háskóla í Kaliforníu og leiðir þverfaglegar rannsóknir vísinda og umhverfismála. Auk þess sem hann er höfundur Netflix-seríunnar How to Change Your Mind.

Möguleikar hugvíkkandi efna

Í máli Pollan kom meðal annars fram að hann telji að hugvíkkandi efni geti falið í sér mikla möguleika til lækninga á alvarlegum geðsjúkdómum eins og þunglyndi og fíkn sem eigi möguleg upptök í áföllum. Hann sagði líka að það væri því sjálfgefið að leyfa rannsóknir á efnunum.

Pollan sagði einnig að fólk ætti að fara varlega þegar kæmi að notkun hugvíkkandi efna og að fólk ætti ekki að nota þau of snemma á ævinni og alls ekki nema að það teldi sig tilbúið til þess.

Stríðið gegn eiturlyfjum

Hann rifjaði einnig upp að rannsóknir á hugvíkkandi efnum væru ekki nýjar og að þær hafi verið stundaðar allt frá þarsíðustu aldamótum og reyndar enn lengur, væri neysla á þeim meðal forfeðra okkar tekin með í reikninginn. Að hans sögn blómstruðu rannsóknir í Bandaríkjunum upp úr 1950 og allt þar til Nixon bannaði efnin árið 1971, í kjölfarið hættu rannsóknirnar.

Á sínum tíma var ástæðan sögð vera sú að Nixon vildi draga úr skaðlegum áhrifum efnanna á ungt fólk og samfélagið í heild. Í seinni tíð hefur aftur á móti verið bent á að gagnrýni ungs fólks í Bandaríkjunum á Víetnamstríðið hafi verið tengt hippum og neyslu á hugvíkkandi efnum, því þóttu þau stríðsrekstrinum í óhag.

Michael Pollan sat fyrir svörum hjá Karen Kjartansdóttur og tók við spurningum úr sal á ráðstefnunni um hugvíkkandi efni til lækninga sem fór fram í Hörpu fyrir skömmu.

Garðyrkjumaður að ástríðu

Í samtali við Bændablaðið sagði Pollan að hann hafi allt frá því að hann var barn haft áhuga á plöntum og að fyrstu bækurnar hans hafi fjallað um plöntur og matvæli.

„Afi minn átti garð og sem pjakkur eyddi ég miklum tíma með honum í garðinum. Garðyrkja hefur alltaf verið mín ástríða og þar sem plöntur hafa áhrif á öll skilningarvit okkar rækta ég bæði plöntur fyrir munninn og magann og skraut- og ilmplöntur. Ég rækta grænmeti í þremur upphækkuðum beðum og svo er ég með alls konar ávaxtatré og í öðrum hluta skrautplöntur.“

Nánast hættur á borða kjöt

Pollan segir að í dag borði hann lítið sem ekkert kjöt enda blöskri honum meðferðin á dýrum sem alin eru upp til slátrunar og að hann vilji einfaldlega ekki borða kjöt af dýrum sem fái slíka meðferð.

„Ég borða aftur á móti einstaka sinnum kjöt af dýrum sem eru alin á litlum býlum þar sem vel er hugsað um dýrin og dýravelferð er í fyrirrúmi og þeim slátrað á réttan hátt. Umræða um kjöt, meðhöndlun þess og innihaldsefni er vaxandi í Bandaríkjunum og víða um heim og ekki að ástæðulausu þar sem kjötframleiðsla var lengi vel fólki ósýnileg og margir héldu að kjötið yrði til í kjötborði stórmarkaðanna. Margt af því sem hefur verið og er í boði er hreinlega skelfilegt og ekkert tekið tillit til dýravelferðar í framleiðsluferlinu og margt enn ógert til að bæta ástandið.

Ég taldi í barnaskap mínum að upplýsingar gætu breytt heiminum og að ef fólki væri sagt hvernig maturinn sem það borðaði yrði til þá mundi það breyta neyslumunstri sínu en ég hafið rangt fyrir mér. Í flestum tilfellum er það verðið og bragðið sem stjórna innkaupum fólks en ekki gæði og dýravelferð. Satt best að segja olli þetta mér talsverðum vonbrigðum.“

Michael Pollan hefur gefið út fjölda áhugaverðra bóka. Mynd/af vefsíðu
Plöntur eru ótrúlegt lífsform

Smám saman, eftir að hafa fjallað mikið um plöntur, landbúnað og næringu, færðist áhersla Pollan yfir á plöntur sem hafa hugvíkkandi áhrif. „Áhugi minn á plöntum hefur alltaf tengst heilsu á einhvern hátt og með því að skoða hugvíkkandi plöntur er ég að skoða áhrif plantna á hugann en ekki bara líkamann.

Umfjöllunarefnin eru því ekki ótengd og ein áhugaverðustu áhrif plantna og sveppa á menn eru hugvíkkandi og ég hef lengi haft áhuga á þeim samhliða áhuga mínum á næringargildi plantna.

Plöntur eru einfaldlega ótrúlegt lífsform og ótrúlegt hvaða áhrif þær geta haft og áhugavert að velta fyrir sér af hverju sumar þeirra hafa þróast í þá átt að hafa hugvíkkandi áhrif.

Mín skoðun er sú að plöntur sem fullnægja þörfum okkar vegni betur í lífsbaráttunni og það gera þær með því að veita okkur fegurð, mat og með því að breyta meðvitund okkar. Ég hef því ekki bara áhuga á hugvíkkandi plöntum því ég hef áhuga á öllum plöntum sem hafa áhrif á vitund okkar og kaffi er gott dæmi um það.“

Í nýjustu bók sinni, This is Your Mind on Plants, fjallar Pollan um áhrif kaffeins, ópíum og meskalíns á mannshugann en það eru allt mjög ólík efnasambönd.

Meðvitundin

Pollan segir að hann ætli að taka sér langþráð frí á næsta ári en að hugsanlega sé í pípunum framhald á myndinni Food Inc. sem hann vann, ásamt fleirum, og var gefin út árið 2008.

„Mig langar síðan að skrifa bók um meðvitundina út frá mörgum sjónarhornum. Hvað við vitum um hana, hvar hún er staðsett, hvernig hún virkar og til dæmis hvaða áhrif hugvíkkandi efni hafa á hana.“

Skylt efni: plöntur | hugvíkkandi efni

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...