Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Byggja á 90 íbúðir næstu fimm árin í Ísafjarðarbæ og 200 næstu 10 árin gangi spár eftir.
Byggja á 90 íbúðir næstu fimm árin í Ísafjarðarbæ og 200 næstu 10 árin gangi spár eftir.
Mynd / Aðsendar
Fréttir 2. janúar 2024

Ör fjölgun íbúa kallar á hraðari uppbyggingu

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Byggðastofnun stóð nýlega fyrir málþingi um atvinnuuppbyggingu og íbúaþróun á Vestfjörðum.

Arna Lára Jónsdóttir.

Þar kom meðal annars fram að húsnæðisáætlanir vestfirskra sveitarfélaga gera ráð fyrir að íbúum fjölgi um rúmlega tvö þúsund manns á næstu fimm árum. Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að spýta verði í lófana hvað varðar húsnæðismál og alla innviðauppbyggingu svæðisins.

Íbúum hefur fjölgað talsvert á Vestfjörðum undanfarin ár. Íbúum í Ísafjarðarbæ hefur til að mynda fjölgað um 90 manns það sem af er þessu ári.

„Ég tel að þessi spá um mikla íbúafjölgun landshlutans geti vel raungerst og sérstaklega ef horft er til fólksfjölgunar í Vesturbyggð en þar hefur íbúum fjölgað um meira en 30% frá árinu 2011 eftir að góður gangur komst í uppbyggingu fiskeldis. Hér á norðursvæðinu erum við að horfa fram á mikinn uppgang, meðal annars í fiskeldi.

Það er nýbúið að opna nýtt laxasláturhús í Bolungarvík og miklar fjárfestingar í fólki, framleiðslutækjum og búnaði,“ segir Arna Lára og minnir á að eitt stærsta viðskiptaævintýri ársins átti sér stað á Ísafirði í sumar þegar Coloplast keypti Kerecis fyrir 180 milljarða króna. „Kerecis hefur vaxið mikið undanfarin ár og eru plön um mikla uppbyggingu á Ísafirði. Þannig að það er ekki annað hægt að segja en að framtíðin sé björt,“ segir hún.

Byggja þarf 200 íbúðir á Ísafirði

Skortur er hins vegar á húsnæði og uppbygging þarf að ganga hraðar, að sögn Örnu Láru. Ýmsir ytri þættir hafi þó áhrif á uppbygginguna, til dæmis sé vaxtastigið ekki að vinna með samfélögunum, auk þess sem miklar kostnaðarhækkanir, hærra verð á aðföngum og fleira hafi áhrif. Þá séu verktakar á svæðinu á haus í öðrum verkefnum.

„Við hjá sveitarfélögunum þurfum líka að vera klár með lóðir og tryggja skilvirkni kerfisins. Ef okkar plön ganga eftir þá þarf að byggja 90 íbúðir næstu fimm árin í Ísafjarðarbæ og 200 næstu tíu árin.

Miðað við þann mikla vöxt sem er fram undan í atvinnulífinu mun okkur ekkert veita af öllum þessum íbúðum.

Í síðustu viku voru stúdentagarðar Háskólaseturs Vestfjarða með 40 íbúðum opnaðir á Ísafirði og í sumar voru nemendagarðar fyrir 20 nemendur Lýðskólans opnaðir á Flateyri. Allt telur þetta,“ segir Arna Lára.

Samgöngur og aftur samgöngur

Samgöngumál eru heitasta málið á Vestfjörðum eins og bæjarstjórinn veit manna best.

„Við Vestfirðingar opnum vart munninn án þess að tala um samgöngur. Miklar samgöngubætur hafa orðið undanfarin misseri en þar ber hæst brúin yfir Þorskafjörð, opnun vegarins um Teigsskóg og inn Djúpafjörð og uppbygging nýs vegarkafla á Dynjandisheiði. Það vantar samt töluvert upp á að við stöndum jafnfætis öðrum landshlutum. Það er verið að framleiða gríðarleg verðmæti hér á Vestfjörðum sem eru að mestu flutt eftir vegakerfinu suður til útflutnings, en kerfið er ekki í stakk búið til að taka við þessum miklu þungaflutningum,“ segir Anna Lára og leggur í leiðinni áherslu á að stytta þurfi vegalengdir milli byggðarkjarna og gera vegi öruggari svo svæðið sé samkeppnishæft.

„Eitt af stóru málunum er að breikka Breiðadalslegg Vestfjarðaganga, sem er einbreiður, en það má þakka fyrir að ekki hafa orðið stórslys í göngunum. Þau eru illa upplýst og bera ekki þá umferð sem er. Það á sérstaklega við á sumrin þegar mikill fjöldi hópferðabíla blandast við vaxandi þungaflutninga. Mikil fjölgun hefur verið á komum skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar og njóta ferðir á Dynjanda mikilla vinsælda, auk þess sem ferðamönnum er almennt að fjölga. Þessari fjölgun fylgir stóraukin slysahætta í einbreiðum göngum.“

Lífið í Ísafjarðarbæ

Arna Lára segir að Ísfirðingar taki vel á móti nýjum íbúum.

„Við vorum að setja í loftið nýja rafræna íbúahandbók undir nafninu „Lífið í Ísafjarðarbæ“ sem er um allt sem viðkemur lífinu eftir vinnu og skóla. Þar eru á einum stað upplýsingar um þær tómstundir, félagsstarf og menningu sem í boði er í sveitarfélaginu.

Við erum ótrúlega stolt af nýju síðunni, ekki síst þar sem sést svart á hvítu hversu fjölbreytt og skemmtilegt tómstundalíf er í boði á svæðinu. Við vonum að íbúum og tilvonandi íbúum gagnist hún vel. Það eru fjölmörg atvinnutækifæri í boði á Vestfjörðum og gott samfélag. Okkur vantar fólk til að móta með okkur spennandi og bjarta framtíð,“ segir bæjarstjóri Ísafjarðar.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...