Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Frelsinu fegnar að loknu óveðri.
Frelsinu fegnar að loknu óveðri.
Mynd / Högni Elfar
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Höfundur: Högni Elfar Gylfason, sauðfjárbóndi og ýmislegt fleira.

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varði í marga daga. Á sama tíma var sauðburði að ljúka hjá flestum sauðfjárbændum og merar í óðaönn að kasta folöldum.

Högni Elfar Gylfason.

Tímasetningin var því afar óheppileg fyrir slíkt veður svo ekki sé meira sagt. Bændur eru harðgerðir eftir átök við óblíð náttúruöfl og vanir að bjarga sér sjálfir. Þeir eru flestir lítið fyrir það að biðja um aðstoð, en bæta frekar við sig verkum. Þannig hafa þeir lagt í mikla vinnu við að bjarga búfénaði í hús eða önnur skjól og hugsa um hann meðan óveðrið stóð yfir. Vegna mismunandi aðstæðna og veðurs er líklegt að sums staðar hafi verið erfiðara við þetta að eiga en annars staðar. Þá er líklegt að eitthvað af fé hafi króknað í veðurofsa, kulda og blautum krapasnjó þrátt fyrir baráttu bænda þeim til bjargar og að eftirköst vegna undanvilltra lamba, júgurbólgu og annarra krankleika verði nokkur.

Það var ánægjulegt fyrir bændur að verða vitni að því að lögregla, Almannavarnir, Bændasamtökin, stjórnvöld og fleiri skyldu láta sig málið varða og nú þegar hefur undirritaður fengið símtal frá átakshópi sem myndaður var þar sem spurt var út í stöðuna á okkar bæ og boðin aðstoð ef á þyrfti að halda. Það ber að þakka og passar vel við það sem bændum var sagt eftir óveðrið og fjárfellinn sem fylgdi í september 2012. Þá var gefið út að bændur skyldu vera óhræddir við að hringja í Neyðarlínuna 112 ef hætta væri á ferðum og þeir réðu ekki við aðstæður einir. Þá yrði allt gert til að senda aðstoð. Þá mun átakshópnum ætlað að vinna áfram að samantekt upplýsinga um tjón bænda af óveðrinu ásamt þeim miklu kalskemmdum í túnum sem hafa komið upp á ákveðnum svæðum. Þá væri frábært og upplífgandi fyrir sauðfjárbændur ef ráðherra tæki sig til og færi að tillögum umboðsmanns Alþingis og gerði upp misræmi í greiðslum fyrir ull sem upp kom fyrir nokkrum árum vegna breytinga uppgjörstímabils ullar. Því miður stefnir í dag í að Bændasamtökin, fyrir hönd sauðfjárbænda, þurfi að fara í mál við ríkið til að knýja fram leiðréttingu sem þó er nú þegar viðurkennd af hálfu ríkisins með réttarsátt við nokkra bændur á síðasta ári.

Nú þegar óveðrinu er loks lokið líta sauðfjárbændur bjartari augum til framtíðar. Innan tíðar fer fé til fjalla, fræ í flög og áburður á tún. Lífið kemst í fastar skorður á ný og gott er að hafa jákvæðni að leiðarljósi í framhaldinu. Styðjum hvert annað og hvetjum til dáða.

Tökum höndum saman og berjumst fyrir tilverurétti íslensks landbúnaðar og bændastéttar, bæði gagnvart óblíðu veðurfari og ekki síður stjórnvöldum.

Enginn bóndi. Enginn matur. Ekkert líf.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...