Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
 Kári Gautason.
Kári Gautason.
Fréttaskýring 13. júlí 2021

OECD-forsendur í hvergilandi

Höfundur: Kári Gautason

Sagt er að sá merki stjórn­málamaður Lúðvík Jósepsson hafi stundum tekið þannig til orða að alltaf mætti fá einhverja til þess að reikna, en mestu skipti þó alltaf út frá hvaða forsendum væri reiknað. Engu skipti hvort rétt væri reiknað ef forsendurnar fyrir útreikningunum væru rangar.

Fjármálaráðherrar Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, OECD-landanna svokölluðu, tóku upp reiknistokkinn um miðjan níunda áratuginn og hefðu ekki fengið háa einkunn hjá Lúðvík.

Á þeim árum var viðvarandi offramleiðsla á landbúnaðarvörum um allan heim, verðbólga og hagvaxtarkreppa. Reagan og Thatcher gáfu tóninn í efnahagsmálum og sú forsenda var gefin að nýfrjálshyggja skyldi ráða ríkjum og slá á slóðaskapinn. Stofnunin bjó til skapalón til að máta löndin við. Það skapalón samanstóð af hvergilandi úr hagfræðikennslubók. Í því landi eru engin inngrip, markaðir eru svokallaðir samkeppnismarkaðir þar sem allir hafa jafn miklar upplýsingar og sjá inn í framtíðina af fullkominni nákvæmni og svo framvegis. Land sem ekki er til. Öll frávik frá fríverslun eru óeðlileg inngrip inn í alvitra hegðan markaðarins. Sú niðurstaða fékkst í upphafi með skilgreiningu – tæknilegu rothöggi í umræðuna.

Niðurstaðan er alltaf hin sama

Ár hvert er gefið út mikið rit af OECD. Það rit fer yfir landbúnaðarkerfi 55 landa, sem saman framleiða megnið af landbúnaðarvörum í heiminum. Niðurstaða þessa rits er alltaf hin sama. Löndin gera ekki nóg til þess að auka frelsi í viðskiptum með landbúnaðarvörur og ekki nóg til þess að draga úr styrkjum sem hrófla við gangverki markaðarins. Reiknimeistarar OECD komast að því að öll lönd, nema helst Indland, Víetnam og Nýja-Sjáland, styðji sinn landbúnað á einn eða annan hátt. En Indland og Víetnam halda verði á helstu korntegundum undir heimsmarkaðsverði til þess að fátækt fólk geti fengið nauðþurftir.

Ísland fer ekki varhluta af þessari skýrslu. OECD telur að stuðningur við landbúnað á Íslandi sé meiri en víða annars staðar. Hamrað er á þessu þótt þróunin sé reyndar sú að dregið hefur gríðarlega mikið úr stuðningi síðustu 30 árin. Auk þess má ekki gleyma að áður fór opinbert fé í rannsóknir og þekkingaryfirfærslu í landbúnaði sem núna fer í eftirlitsstofnanir af ýmsu tagi.

Verðlag hér er hærra en í ESB

OECD kemst að niðurstöðu sinni varðandi Ísland fyrst og fremst vegna þess að stofnunin ber saman verð á ýmsum kjöttegundum annars vegar og svo hins vegar reiknimjólk við þau verð sem íslenskir bændur fá fyrir sínar afurðir. Hér þarf að taka fram að það eru engin viðskipti með hrámjólk yfir landamæri og því er búin til reiknimjólk úr dufti, smjöri og osti. Ályktun OECD er sú að hér á landi sé verð hærra en þetta svokallaða raunverulega verð og mismuninn greiði neytendur í styrki til bænda. Þetta er í sjálfu sér ekki röng niðurstaða, það er að segja að hér sé verð á matvælum hærra en meðaltal í Evrópusambandinu. En það er bara litið framhjá því að verðlag á öllu öðru en fiski er einnig hærra hér á landi heldur en í löndum ESB.

Sennilega myndi niðurstaða sambærilegrar greiningar fyrir aðrar tegundir varnings leiða til þeirrar ályktunar að verulegur stuðningur væri frá almenningi til innflytjenda matvæla sem ekki eru framleidd hér á landi og bera enga tolla. Það tel ég ekki endilega vera vitlaust en það er samt sem áður ákaflega einfeldningsleg greining.

Á Íslandi er allt dýrt

Ísland er blessunarlega hástökkvari í efnahagsmálum. Þegar afi minn fæddist í torfbæ árið 1930 var verðmætasköpun Íslands á svipuðu róli og á Fílabeinsströndinni í dag. Nú er hér allt dýrt miðað við önnur lönd, ef frá eru talin lönd eins og Sviss og Noregur. Það blasir því við að ef íslenskir bændur eiga að búa í sama efnahagslega raunveruleika og almenningur á Íslandi þarf afurðaverð að vera hærra heldur en að meðaltali í ESB. Sumum þykir þetta ósanngjarnt og vilja að bændur á Íslandi keppi við bændur á Evrópumarkaði eins og þeir búi í hvergilandi en ekki á Íslandi.
Fjármálaráðherrar og efnahagssérfræðingar OECD ættu sem fyrst að endurskoða úreltar forsendar útreikninga sinna og horfa almennt en ekki sértækt á matvælaverð í samanburði milli landa og reikna út frá sambærilegum kaupmætti.

Höfundur er sérfræðingur hjá BÍ.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...