Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Nýtt ræktunartakmark í íslenskri hrossarækt
Fréttir 2. mars 2020

Nýtt ræktunartakmark í íslenskri hrossarækt

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson ábyrgðarmaður í hrossarækt - thk@rml.is
Á aðalfundi FEIF sem haldinn var á Íslandi í byrjun febrúar var samþykkt nýtt ræktunartakmark fyrir íslenska hestinn. Það var Ísland, ásamt kynbótanefnd FEIF, sem lagði til breytingar á hinum almennu ræktunarmarkmiðum fyrir íslenska hestakynið og vægistuðlum eiginleikanna í aðaleinkunn. Einnig hefur dómskali einstaklingsdóma verið uppfærður og var ný útgáfa hans einnig samþykkt á FEIF þinginu. 
 
Almenn ræktunarmarkmið
 
Ræktunarmarkmið í íslenskri hrossarækt er annars vegar skilgreint í almennum markmiðum og hins vegar í sérstökum markmiðum. Hin almennu markmið ná yfir heilbrigði, frjósemi og endingu, þar sem ræktunartakmarkið miðar að því að rækta heilbrigðan, frjósaman og endingargóðan hest – hraustan íslenskan hest; liti, þar sem ræktunartakmarkið er að viðhalda öllum mögulegum litaafbrigðum innan stofnsins og stærð, en hið opinbera ræktunartakmark gefur færi á allmiklum breytileika hvað varðar stærð hrossanna. 
 
 
Þá fjalla hin sérstöku ræktunar­markmið um hver stefnan er innan sköpulags og reiðhestshæfileika. Skilgreining ræktunarmarkmiðsins fyrir íslenska hestinn felst einnig í þeim eiginleikum sem metnir eru í kynbótadómnum, skilgreiningu úrvalseinkunnar innan hvers eiginleika og vægi hvers og eins eiginleika í aðaleinkunn. Búið er að yfirfara hin almennu og sérstöku markmið og útlista betur hver þau eru. Það hefur verið gert með því að bæta inn lýsingu á hlutverkum hestsins og gera grein fyrir markmiðinu hvað geðslag hestsins varðar. Stefnan hvað bygginguna snertir hefur verið uppfærð með aukna áherslu á byggingarlag sem stuðlar að eðlisgóðri ganghæfni. Þá hefur markmiðið með ganglag hestsins verið skrifað á mun ítarlegri hátt, þar sem æskilegu ganglagi og líkamsbeitingu hestsins er lýst almennt eða óháð gangtegund. Nýjustu útgáfuna af hinum almennu og sérstöku markmiðum má nálgast inn á heimasíðu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, rml.is, undir Kynbóta­starf/Hrossarækt. Rækt­unar­markmiðinu innan hvers eiginleika er lýst í einkunninni 9,5-10 en lýsingu á því má finna í stigunarkvarða einstaklingsdóma sem er birtur á sama stað inni á heimasíðu RML.
 
Vægi eiginleikanna
 
Þá hefur vægi eiginleikanna í aðaleinkunn verið breytt og helstu breytingarnar eru í stuttu máli þessar: Vægi reiðhestskostanna hefur verið hækkað úr 60 í 65% og því lögð enn meiri áhersla á ganghæfni hrossanna. Þetta gaf færi á því að hækka heildarvægi grunngangtegundanna (fet, brokk og stökk) en það er gert til þess að leggja meiri áherslu á hina fjölhæfu hestgerð innan stofnsins, hvort sem hún býr yfir fjórum eða fimm gangtegundum. Hægt stökk er nú skilgreint sem sér eiginleiki. Gæði á hægu stökki hefur verið hluti af einkunn fyrir stökk hingað til en verðmætt er að hægt stökk hafi bein áhrif á aðaleinkunn hrossa. Aðgengilegt er að skilgreina hægt stökk og stökk sem tvo eiginleika þar sem um tvær gangtegundir er í raun að ræða, þrítakta hægt stökk og fjórtakta hratt stökk og er talað um þetta sem tvær gangtegundir í mörgum löndum. Þá hefur vægi á bak og lend verið hækkað þar sem rannsóknir á tengslum byggingar og hæfileika styðja að leggja meiri áherslu á þennan eiginleika. Þá hefur heiti á vilja og geðslagi verið breytt í samstarfsvilja. Þetta er gert þar sem meiri áhersla er í nýjum skala á þjálni og yfirvegun hestsins. Einnig er skilgreining eiginleikans afmarkaðri í nýjum dómskala þar sem marga þætti geðslagsins er ekki hægt að meta með góðu móti með sjónmati.
 
Að lokum, og í raun vægi eiginleikanna óviðkomandi, hefur verið ákveðið að reikna tvær aðaleinkunnir fyrir hvern hest. Auk aðaleinkunnar eins og hún er reiknuð í dag verður sérstök fjórgangseinkunn einnig reiknuð þar sem vægi skeiðs er tekið úr útreikningi á aðaleinkunn og dreift hlutfallslega út á aðra eiginleika hæfileikanna. Þetta er gert til þess að auðvelda samanburð á milli hrossa og gera hann enn áhugaverðari. Þá koma til með að birtast tvær einkunnir til viðbótar fyrir hvern hest í WorldFeng; aðaleinkunn hæfileika og aðaleinkunn, byggðar á fjórum gangtegundum, auk samstarfsvilja og fegurðar í reið. Þetta myndi vera gert fyrir öll hross hvort sem þau sýna skeið eða ekki.
Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...