Nýtt mat á losun og bindingu beitilanda
Í nýjum bráðabirgðatölum um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að losun frá landbúnaði hafi dregist saman um 0,89% frá 2023.
Sigurður Loftur Thorlacius, sérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun (UOS), segir að markverðasti áhrifaþátturinn í loftslagsbókhaldi landbúnaðarins sé fækkun sauðfjár, sem hafi verið um 4% að meðaltali á ári og sú þróun heldur áfram þetta árið. „Á móti kemur aukin áburðarnotkun og lítilleg aukning í losun á hláturgasi (N₂O) frá framræstu landi þannig að heilt yfir var nettó um eitt prósent samdráttur í losun frá landbúnaði. Samkvæmt okkar mati var losun vegna landbúnaðar 670 þúsund tonn CO2 ígildi, eða um 6% af heildarlosun.“
Uppfærsla á mati á meltanleika fóðurs
Sigurður segir að hluti af umbótavinnunni við að gera bókhaldið nákvæmara hafi verið að uppfæra mat á meltanleika fóðurs. „Þessi endurskoðun leiddi í ljós að meltanleikinn væri hærri en áður var talið og losun frá iðragerjun og meðhöndlun búfjáráburðar því minni.
Þessi uppfærsla hefur nokkurn veginn jöfn áhrif yfir alla tímalínuna. Vert er að taka fram að þetta er ekki samdráttur í losun á milli ára heldur breyting á allri tímalínu loftslagsbókhaldsins vegna uppfærslu á aðferðafræði við útreikninga. Iðragerjun búfjár heldur þó áfram að vera orsök hátt í helmings losunarinnar innan landbúnaðargeirans þrátt fyrir þessa breytingu,“ segir hann.
Helstu tækifærin í endurheimt votlendis
Spurður um tækifæri bænda til að ná enn betri árangri, segir Sigurður helstu tækifærin í landbúnaði og landnotkun án vafa vera í endurheimt votlendis á þeim svæðum sem eru ekki í nýtingu. „Undanfarin ár hefur Land og skógur boðið styrki til bænda og landeigenda fyrir framkvæmdakostnaði endurheimtar votlendissvæða. Annars er það á verksviði ráðuneytanna að ákveða hvaða aðgerðir verður ráðist í en það eru klárlega mikil tækifæri þarna.“
Þá segir Sigurður vert að skoða aðgerðirnar sem birtast í loftslagsvegvísi fyrir bændur og gefnar voru út í byrjun þessa árs, en þær hafa ekki enn verið metnar hjá Umhverfis- og orkustofnun.
Horfur ekki nægilega góðar
Í gögnum sem UOS hefur birt um losunarbókhaldið varðandi skuldbindingaflokkinn „samfélagslosun“, sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda og landbúnaður er hluti af, sést í framreikningalíkani að til ársins 2030 er gert ráð fyrir 23% samdrætti frá 2005. Sigurður segir að horfurnar séu vissulega ekki nægilega góðar í þeirri sviðsmynd vegna þess að markmiðið fyrir þennan tíma sé 41% samdráttur. „Þessir reikningar miðast við sviðsmynd með núgildandi aðgerðum, þeim sem hafa verið samþykktar og/eða eru komnar til framkvæmda.
Aðgerðir sem eru á hugmyndastigi rata ekki inn í framreikningana en í framreikningunum er lögð áhersla á að meta þær aðgerðir sem koma fram í aðgerðaáætlun stjórnvalda og því hefur til að mynda ekki verið tekið mið af nýjum loftslagsvegvísi fyrir bændur í framreikningunum,“ segir hann.
Róttækar breytingar á landnotkunarflokknum
Land og skógur hefur gert róttækar breytingar á landnotkunarflokknum, hvað varðar votlendi og beitilönd. Bryndís Marteinsdóttir, sviðsstjóri sviðs sjálfbærrar landnýtingar hjá Landi og skógi, segir að í stuttu máli séu þetta tvær breytingar. „Fyrri breytingin er sú að náttúruleg losun frá óröskuðu votlendi á beitilöndum fellur út úr bókhaldinu, enda er um að ræða náttúrulega losun sem beit hefur lítil áhrif á. Við þetta minnkar bókfærð losun í flokknum votlendi niður um 98% en eftir stendur losun frá votlendum þar sem vatnsstöðu er stýrt, sem eru uppistöðulón og endurheimt votlendi. Þess má geta að þessi breyting tengist ekki framræstu votlendi en það fellur undir bókhaldsflokkinn mólendi.
Seinni breytingin er sú að nú er í fyrsta skipti beitilandi á úthögum og afréttum skipt upp eftir ástandi lands og reiknuð út losun og binding fyrir þessi svæði miðað við áætlun Lands og skógar. Fram til þessa hefur hvorki verið reiknað með losun né bindingu á beitilöndum vegna skorts á gögnum. En nú er reiknuð út losun á rofnum beitilöndum og binding á grónum beitilöndum á meðan gróður- og jarðvegslaus svæði á beitilöndum – svo sem ógrónir sandar – reiknast hvorki með losun né bindingu. Vert er að taka fram að þessi breyting á við um beitilönd í úthögum og afréttum, en ekki beitilönd á framræstu votlendi,“ segir Bryndís.
Áfram unnið að endurbótum
Bryndís segir að Land og skógur vinni áfram að talsverðum endurbótum á kortlagningu beitilanda og unnið sé að bættu ástandsmati, auk þess sem miklar rannsóknir séu í gangi til að fá betri upplýsingar um kolefnisbúskap beitilanda. „Þannig mun mat á losun og bindingu taka breytingum á næstu árum. Fyrstu útreikningar, byggðir á þeim gögnum sem liggja fyrir í dag, benda til þess að á heildina litið sé nettó binding á beitilöndum á Íslandi. Ofangreindar breytingar hafa verið rýndar af eftirlitsaðilum bókhaldsins og fengið grænt ljós.“
Hún tekur fram að allt tímabil bókhaldsins er endurreiknað út frá þessum nýju forsendum. Því sé ekki um að ræða breytingu í losun eða bindingu á milli ára heldur eru breytingar vegna uppfærslu á gögnum og aðferðum við útreikninga.
