Nýr og glæsilegur fjallaskáli Hrunamanna vígður
Nýr og glæsilegur fjallaskáli á afrétti Hrunamanna var vígður í byrjun mánaðarins að viðstöddum fjallmönnum og fleiri góðum gestum en skálinn er í Svínárnesi.
Mikil vinna og mikið átak fjölmargra gerði það að verkum að skálinn var vígður á mettíma en húseiningarnar í skálann var skipað upp í Reykjavíkurhöfn um 20. ágúst og brunað var með þær á afréttinn þar sem þær voru settar saman.
„Þessi framkvæmdahraði er sennilega einsdæmi. Við fögnuðum þessum áfanga í skálanum með öllum fjallmönnunum okkar og dágóðum fjölda annarra gesta. Skálinn mun heita „Eiríksskáli", nefndur eftir Eiríki Kristóferssyni á Grafarbakka sem lést af slysförum síðastliðið vor. Eiríkur var einn reyndasti fjallmaður Hrunamanna og sleppti aldrei fjallferð. Hann elskaði Hrunamannaafrétt og öræfin eins og fólk flest gerir hér um slóðir," segir Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri Hrunamannahrepps alsæl og glöð með nýja skálann.
