Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Nýliðun er fjöregg landbúnaðarins
Af vettvangi Bændasamtakana 8. október 2024

Nýliðun er fjöregg landbúnaðarins

Höfundur: Margrét Ágústa Sigurðardótir, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.

Umræðan um fæðuöryggi, þ.m.t. matvælaöryggi þar sem hreinleiki íslenskra landbúnaðarafurða nýtur sérstöðu, missir verulega marks ef ekki er gætt að uppbyggingu innan bændastéttarinnar.

Margrét Ágústa Sigurðardótir

Fæðuöryggið er hluti af þjóðaröryggi, ekki síst fyrir okkur á Íslandi, eyríki í Norður- Atlantshafi. Á einni nóttu gætu öll sund lokast til skemmri eða lengri tíma, hvort sem væri vegna heimsfaraldurs, stríðsátaka, efnahagshruns, eldfjallaumbrota eða annars. Öflugur íslenskur landbúnaður er forsenda þess að við getum mætt slíkum áföllum og þar er nýliðun innan bændastéttarinnar lykilatriði.

Innan stéttarinnar kemur það væntanlega fáum á óvart að Ísland sé eftirbátur í stuðningi við nýliðun sé horft til þeirra landa sem við berum okkur helst saman við. Á allra næstu árum þarf að auka innlenda matvælaframleiðslu um allt að 40% til þess að mæta aukinni fólksfjölgun. Til að anna þeirri framleiðslu er nýliðun í landbúnaði langt frá því að vera nægjanleg.

Til að bregðast við vandanum er nauðsynlegt að byggja upp hvata fyrir endurnýjun innan bændastéttarinnar, t.a.m. með óbeinum fjárhagslegum stuðningi í formi skattalegra hvata. Þannig væri t.d. möguleiki að fresta greiðslu erfðafjárskatts, eftir atvikum og að frekari skilyrðum uppfylltum fella hann niður, þegar arflátar bregða búi og næstu kynslóðir taka við. Hægt væri að skilyrða frestunina þannig að hinn nýi ábúandi bújarðarinnar greiddi ekki erfðafjárskatt svo fremi að hann héldi starfsemi búsins áfram. Enn fremur þyrfti aðgengi að lánsfjármagni að vera auðveldara fyrir ungt fólk sem vill hefja búskap og starfandi bændur til frekari uppbyggingar og vaxtar á búum sínum. Bættar fjármögnunarleiðir myndu ekki eingöngu leiða til hagræðingar og framleiðsluaukningar heldur einnig greiða leið fyrir kynslóðaskiptum þar sem nýir ábúendur tækju við vel uppbyggðum búum á traustum grunni. Þannig væri unnt að tryggja frekar áframhaldandi matvælaframleiðslu og þar með fæðuöryggi.

Kynslóðaskiptin hafa hins vegar verið auðvelduð með svokölluðum kynslóðaskiptalánum Byggðastofnunar, þar sem allt að 90% lán eru veitt til kaupa á bújörðum. Nú undir lok júnímánaðar veitti Byggðastofnun fyrsta lánið til nýliðunar í landbúnaði í kjölfar nýs samkomulags við evrópska fjárfestingasjóðinn (EIF). Því ber vissulega að fagna en betur má ef duga skal. Í þessu samhengi er vert að benda á að 13. september sl. var í fjórða skiptið lögð fyrir Alþingi þingsályktunartillaga um að farið yrði í heildræna endurskoðun á því hvernig haga megi ættliðaskiptum á bújörðum til framtíðar þannig að nýliðun verði sem allra mest. Þannig verði ungum bændum gert auðveldara um vik að taka við búum eldri kynslóða án þess að þurfa að taka á sig óviðráðanlega skuldabyrði. Þá skal þess sérstaklega getið að markmið frumvarps þess er varð að lögum nr. 116/1943, um ættaróðal og erfðaábúð, var einmitt að draga úr þeirri skuldabyrði sem fylgdi því að ungir bændur keyptu jarðir af foreldrum sínum eða erfingjum enda gæti sú skuldabyrði valdið því að þeir gætu oft litlu áorkað til umbóta á jörðum sínum. Óþarft er að taka fram að þessi lög eru löngu fallin úr gildi og einnig það ákvæði jarðalaga er við tók.

Hér stöndum við því rúmum áttatíu árum síðar frammi fyrir því sama, þ.e. aukinni skuldabyrði ungra bænda sem gerir þeim enn erfiðara um vik að stunda búskap og búrekstur. Vonandi er að þingsályktunartillagan hljóti brautargengi fyrir þinginu þannig að farið verði í heildarendurskoðun á laga- og regluverkinu með það að markmiði að auðvelda nýliðun, og þar með kynslóðaskipti, enda er meðalaldur bænda hér á landi hár og fer síst lækkandi. Rétt eins og Laxness komst að orði í Sjálfstæðu fólki, þá eru „bændurnir fjöregg þjóðarinnar og lífakkeri“. Því fer það einfaldlega ekki saman að vera með háleit markmið um íslenskan landbúnað, stefnu hans og framsýni, á meðan við tryggjum ekki tafarlaust heilbrigða nýliðun innan bændastéttarinnar.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f