Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Ráðherra er heimilt að leggja niður varnarlínu hafi farið fram ítarlegt heilbrigðiseftirlit á búfé á varnarsvæðunum.
Ráðherra er heimilt að leggja niður varnarlínu hafi farið fram ítarlegt heilbrigðiseftirlit á búfé á varnarsvæðunum.
Mynd / smh
Fréttir 10. júlí 2025

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Róttækar breytingar eru að verða á regluverki varna gegn dýrasjúkdómum.

Frumvarp til laga um breytingar á lögum um varnir gegn dýrasjúkdómum bíður enn annarrar umræðu á Alþingi, þar sem innleiða á meðal annars stefnu stjórnvalda og bænda um útrýmingu sauðfjárriðu.

Í frumvarpinu verður atvinnuvegaráðherra gefin heimild til að setja í reglugerð skyldu um að rækta gegn dýrasjúkdómi og að ráðherra geti falið Matvælastofnun með reglugerð að framfylgja tilteknum aðgerðum og taka ákvarðanir um aðgerðir í tengslum við uppkomu alvarlegra dýrasjúkdóma. Einnig ákvarða greiðslu bóta á grundvelli laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Þá getur ráðherra með setningu reglugerðar falið Matvælastofnun að skilgreina takmörkunarsvæði umhverfis staði þar sem upp hafa komið alvarlegir dýrasjúkdómar.

Skilgreind takmörkunarsvæði

Í svari atvinnuvegaráðuneytisins segir, við fyrirspurn um möguleg áhrif frumvarpsins á breytingar á skipan varnalína dýrasjúkdóma, að mikilvægt sé að gera greinarmun á hugtökunum „takmörkunarsvæði“ annars vegar og „sóttvarnarsvæði“ eða „sauðfjárveikivarnarhólfi“ hins vegar – en þar sé um ólíka hluti að ræða. Bent er á að í greinargerð með frumvarpinu segi að í frumvarpinu sé lagt til að ráðherra verði heimilt að setja ákvæði í reglugerð um flokkun landsvæða, bæja og starfsstöðva þar sem sérstakar ráðstafanir skulu gilda til að hefta útbreiðslu alvarlegra dýrasjúkdóma. Skuli það gert í samræmi við eðli viðkomandi sjúkdóms og faraldsfræðilegra þátta og að Matvælastofnun skuli birta flokkunina á vef sínum.

Þannig geti ráðherra með setningu reglugerðar falið Matvælastofnun að skilgreina takmörkunarsvæði umhverfis staði þar sem sérstakar ráðstafanir skulu gilda í samræmi við eðli viðkomandi sjúkdóms. Slík landsvæði séu nefnd takmörkunarsvæði í nágrannalöndunum og oftast afmörkuð með kílómetraradíus frá þeim stað þar sem alvarlegur dýrasjúkdómur kemur upp, en einnig geti verið rétt að miða við landfræðilegar og faraldsfræðilegar aðstæður.

Fyrirkomulaginu viðhaldið fram yfir heildarendurskoðun

Í greinargerð með frumvarpinu segir að lögin skilgreini sóttvarnarsvæði meðal annars sem landsvæði afmörkuð með varnarlínum, en meðal sauðfjárbænda og í stjórnsýslunni séu þessi sóttvarnarsvæði nefnd sauðfjárveikivarnarhólf. Rétt þyki að viðhalda því fyrirkomulagi þar til heildarendurskoðun laganna fari fram.

Landinu hefur verið skipt upp í 25 slík hólf, en með nýlegri auglýsingu atvinnuvegaráðuneytisins um varnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma er hólfum fækkað um þrjú með því að fella niður varnarlínur. Samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim er ráðherra heimilt að leggja niður varnarlínu hafi farið fram ítarlegt heilbrigðiseftirlit á búfé á þeim varnarsvæðum sem að línunni liggja og að fengnum meðmælum Matvælastofnunar. Unnið er að uppfærslu hjá Matvælastofnun á yfirlitskorti yfir nýja skipan mála.

Mikilvægi takmörkunarsvæða

Í greinargerðinni er fjallað um mikilvægi þess að stjórnvöld geti skilgreint takmörkunarsvæði. Í tilviki riðuveiki í sauðfé verður tilgreint í reglugerð hvernig staðið skuli að flokkun bæja og takmarkanir tilgreindar fyrir hvern flokk. Horfið verði frá víðtækum takmörkunum sem nú eru settar jafnt á alla bæi í sýktu sauðfjárveikivarnarhólfi, en þess í stað munu takmarkanir sem settar verða á bæi byggjast á áhættumati sem felst í að mestar takmarkanir verða á riðubæjum, minni á áhættubæjum og minnst á bæjum sem hvorki eru riðu- né áhættubæir en eru þó í sama sauðfjárveikivarnarhólfi. Breytingunni er þannig ætlað að styrkja lagastoð fyrir nauðsynlegri flokkun landsvæða, bæja og starfsstöðva þegar upp koma alvarlegir dýrasjúkdómar og er undirstaða fyrir nýrri nálgun í baráttunni gegn riðuveiki. Smitvarnir með tilheyrandi höftum verða þannig mismiklar á bæjum þó að þeir séu innan sama sóttvarnarsvæðis.

Landsáætlun innleidd í regluverkið

Samkvæmt upplýsingunum úr ráðuneytinu varða breytingarnar sem boðaðar eru í frumvarpinu ekki varnarlínur beint, en eru þó nauðsynlegar í baráttunni við riðuveiki og veita lagastoð fyrir nýjum reglugerðum um útrýmingu á sauðfjárriðu og flutning líflamba. Er vonast til að hægt verði að afgreiða frumvarpið fyrir þinglok svo hægt verði að setja þær sem fyrst í Samráðsgátt stjórnvalda.

Þar með verður innleidd í regluverkið landsáætlun stjórnvalda og bænda um útrýmingu á sauðfjárriðu sem var undirrituð 8. júlí 2024 – og var nýlega endurútgefin í endurskoðaðri útgáfu. Með henni er stefnt að útrýmingu á riðuveiki í sauðfé hér á landi með umtalsvert breyttri nálgun. Horfið er frá því að reyna að útrýma riðusmitefninu sjálfu og megináhersla lögð á að útrýma veikinni með ræktun fjárstofns sem ber verndandi arfgerðir gegn smitefninu ásamt áframhaldandi aðgerðum til að hefta dreifingu þess.

Breytingar háðar sjúkdómastöðu

Breytingar á varnarlínum eru ætíð háðar sjúkdómastöðu í sauðfé, sérstaklega riðuveiki og garnaveiki. Er búist við að með að samhliða aukinni vernd gegn riðuveiki, með ræktun verndandi og mögulega verndandi arfgerðum, opnist möguleikar á að felldar verði niður fleiri varnarlínur jafnt og þétt.

Þær varnarlínur sem hafa nú verið felldar niður eru Kollafjarðarlína, þannig að til verður eitt Vestfjarðahólf, Vatnsneslína, þannig að Vatnsneshólf og Húnaog Skagahólf eru sameinuð í Norðvesturlandshólf og Jökulsárlína, þannig að Norðausturhólf og Héraðshólf eru sameinuð í Norðurþings- og Múlahólf.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...