Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Helsýkt bygg af augnflekk, þessi blöð ljósstillífa ekki meir, einmitt þegar plantan þarf mest á því að halda til að fylla kornið.
Helsýkt bygg af augnflekk, þessi blöð ljósstillífa ekki meir, einmitt þegar plantan þarf mest á því að halda til að fylla kornið.
Mynd / Gunnhildur Gísladóttir
Á faglegum nótum 2. mars 2023

Notkun varnarefna í íslenskri akuryrkju

Höfundur: Egill Gautason lektor og Hrannar Smári Hilmarsson tilraunastjóri við LbhÍ.

Varnarefni eru efni sem notuð eru í landbúnaði til þess að verja uppskeru gegn ýmsum skaðvöldum. Skaðvaldar geta valdið algjörum uppskerubresti í ræktun og oft uppskerutapi.

Hungursneyð og hallæri í heiminum má oft rekja til faraldra skaðvalda. Sem dæmi má nefna ryðsvepp sem leggst á hveiti. Um miðbik síðustu aldar var unnið að því að kynbæta hveiti með þol gegn sjúkdómnum. Þetta verkefni bar árangur og með frekari kynbótum varð hveiti ein mest ræktaða nytjajurt heims. Nú kemur stór hluti þeirra hitaeininga og prótíns sem mannkynið þarf úr hveiti. En ef ryðsveppurinn er látinn óáreittur, mun hann æxlast og þróast til að brjóta á bak aftur varnir plöntunnar. Þess vegna er mikilvægt að láta ekki sveppasjúkdóma óáreitta í ökrum. Helstu skaðvaldar í íslenskri kornrækt eru sveppirnir augnflekkur og brúnflekkur.

Pöddur og skordýraplágur eru fyrirbæri sem við þekkjum lítið til að leggist á korntegundir. Leiða má þó að því líkum að blaðlús og mítlar leggist í kornakra að einhverju leyti þó að umfang þeirra sé ekki þekkt.

Illgresi eru þær tegundir í jarðvegi sem eiga ekki að vera þar samkvæmt áliti ræktandans, þannig getur repja verið illgresi í byggakri en er það augljóslega ekki í repjuakri. Illgresi veldur sjaldan algjörum uppskerubresti en getur valdið uppskerutapi og miklum töfum við uppskeru korns. Það skilur eftir sig stórt sótspor og kostnað í ræktun ef illgresi nær tökum í akri og tekur upp áburðarefni þess árs og letur uppskerumagn.

Notkun varnarefna er afar lítil hér á landi. Meðalnotkun varnarefna á öllu Íslandi á árunum 2015 til 2020 var 2,1 tonn af virku efni á ári og að meðaltali 0,02 kg/ ha samkvæmt tölfræðideild FAO, FAOSTAT. Það er sambærileg meðalnotkun og í Angólu, Mið- Afríkulýðveldinu, Tsjad og Haítí.

Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi er meðalnotkunin 0,8; 0,6 og 2,0 kg/ha samkvæmt sömu heimild. Í þessum samanburði sést að Ísland skipar sér í sess með þróunarlöndum í notkun varnarefna. Eftir því sem við komumst næst er notkun varnarefna í atvinnuskyni einungis 2% af heildarnotkun og notkun í kornrækt einungis 2% af heildarnotkun.

Þegar notkunin á Norðurlöndum er skoðuð nánar sést að varnarefnanotkun er viðvarandi í akuryrkju. Árið 2017 voru 7.722 býli í Noregi sem ræktuðu bygg. Af þeim úðuðu 83% með varnarefnum, sem nam 89% af ræktuðu flatarmáli byggs í Noregi. Norskir bændur notuðu sveppalyf á 69% ræktaðra hektara og vaxtarstjórnarefni á 39%. Svipaða sögu er að segja af sænskum bændum. Árið 2021 voru 44% hektara meðhöndluð með sveppalyfi, 80% með illgresiseyði, og 11% með skordýraeitri. Meðalnotkun virkra efna á vorhveiti í Svíþjóð var 0,47kg/ha. Í Finnlandi var árið 2018 notað 0,33 kg/ha af virku efni til að rækta fóðurbygg, einkum illgresiseyði.

Niðurstöður rannsókna sýna að notkun lyfja gegn augnflekki og brúnflekki dragi úr því að bygg leggist flatt við jörð eða að stráið brotni. Töluverðar rannsóknir hafa verið gerðar á varnaefnanotkun í jarðrækt en margar eru komnar til ára sinna enda eru nú betri efni komin á markað. Árið 2022 var lögð út tilraun af starfsmönnum Jarðræktarmiðstöðvar LbhÍ. Niðurstöðurnar sýndu að reitir sem fengu ekki varnarefni gegn svepp og illgresi voru þaktir sýkingu og talsvert illgresi í reitunum. Þetta olli uppskerutapi og lakari gæðum á korninu.

Kornrækt er á Íslandi mikið til stunduð í skiptirækt við túnrækt sem er að mörgu leyti bæði hagkvæm og umhverfisvæn. Skiptirækt getur dregið úr áburðarþörf og verið árangursrík við að halda aftur af sjúkdómum og illgresi í ökrum. Það er hins vegar ekki raunhæft að gera ráð fyrir að öll kornrækt sé í sáðskiptum við túnrækt, og því verður meiri þörf fyrir varnarefni með aukinni kornrækt hérlendis.

Notkun varnarefna hefur verið litin hornauga hér á landi. Það er ekki alveg að ástæðulausu, enda geta leifar slíkra efna verið skaðlegar heilsu og óábyrg notkun getur spillt náttúru og umhverfi. Hins vegar skyldi athuga að varnarefni verða sífellt minna skaðleg eftir því sem vísindunum fleygir fram, auk þess sem búnaður til dreifingar varnarefna er orðinn gríðarlega nákvæmur. Hófleg og skynsamleg notkun varnarefna brýtur ekki í bága við umhverfisvæna búskaparhætti. Skaðvaldar geta valdið algjörum uppskerubresti. Þegar bóndi hefur lagt vinnu og orku í jarðvinnslu, sáningu og áburðardreifingu, er ekki umhverfisvænt að leyfa uppskeru að spillast vegna skaðvalda.

Umhverfisvænna er að bjarga uppskerunni með varnarefnum. Mikilvægt er að bændur og neytendur geri sér grein fyrir því að ábyrg notkun varnarefna er umhverfisvæn og mikilvægur hluti af hagkvæmum landbúnaði.

Skylt efni: kornhorn

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...