Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Norrænt samfélagsdrama
Líf og starf 27. ágúst 2025

Norrænt samfélagsdrama

Höfundur: Þröstur Helgason

Norræn sjónvarpsþáttagerð hefur staðið með miklum blóma síðustu tuttugu ár. Danir leiddu þróunina en Svíar voru fljótir að taka við sér, síðan Norðmenn og nú síðast Finnar. Nýjasta afurð þeirra er þáttaröðin Drottning alls fjandans (Queen of Fucking Everything) sem segir af fasteignasalanum Lindu Saarniluoto sem vaknar einn daginn upp við það að maðurinn hennar er horfinn, hugsanlega dauður, og eftir situr hún skuldum vafinn eftir vafasaman viðskiptaferil hans.

Linda hefur lifað hátt og haldið uppi ímynd sem samræmist lúxusfasteignunum sem hún selur velmegandi fólki í Helsinki og er tilbúin til að gera hvað sem er til þess að halda í sín viðmið. Fyrst um sinn stundar hún smáþjófnað til þess að eiga fyrir mat og útgjöldum sem henni þykja skipta máli fyrir ímyndina. En smám saman dregst hún inn í undirheima Helsinkiborgar þar sem hættulegir glæpamenn ráða ríkjum. Ímyndaráþjánin verður svo sterk að Linda vílar ekki fyrir sér að ræna hættulegasta eiturlyfjabarón borgarinnar og kokka upp risavaxið fasteignasvindl með hjálp þessa sama glæpamanns. Í ringulreiðinni miðri leiðist hún sömuleiðis út í morð á manni sem tengist þessum ofstækisfulla undirheimamanni. Linda er djúpt sokkin og erfitt að sjá hvernig hún ætlar að leysa úr flækjunni.

Þættirnir eru spennandi en umfram allt fyndnir. Leikið er með ýmsar klisjur um finnska þjóðarsál, svo sem hinn drykkfellda, þunglynda karl sem hefur gefist upp á daglegu striti og heldur kaldhæðnar ræður um tilgangsleysi allra hluta á milli þess sem hann þegir. En fyrst og fremst eru þættirnir farsakennd saga af konu sem leitar allra leiða til þess að koma undir sig fótunum eftir að hafa verið afvegaleidd og svikin af óheiðarlegum eiginmanni. Kannski leita þættirnir svara við spurningunni um það hvað kona komist upp með þegar hún finnur sig í þeirri stöðu. Þættirnir eru á RÚV.

Einnig er óhætt að mæla með sænsku þáttaröðinni I dina händer eða Deliver Me sem er aðgengileg á Netflix. Þar er sjónum beint að unglingum sem notaðir eru til illvirkja af glæpagengjum Svíþjóðar. Dogge og Billy eru óaðskiljanlegir vinir. Dogge á velmegandi foreldra sem virðast þó sinna honum lítið en Billy er innflytjandi sem býr í blokkaríbúð með einstæðri móður sinni og mörgum systkinum. Þegar Billy finnst myrtur eftir skotárás berast böndin fljótt að Dogge. Spurningin um það hver framdi ódæðið er þó ekki aðalatriðið í þáttaröðinni heldur hvers vegna unglingar lenda á slíkum glapstigum. Í þáttunum teiknast upp sláandi mynd af því hvernig unglingar eru innlimaðir í glæpagengi með von um skjótan gróða, framgang og völd sem þeim virðast fjarlæg innan síns samfélagslega ramma.

Þáttaröðin beinir umfram allt sjónum að baksögu Billys. Við vitum fátt um sögu Dogges og skýringarnar á því hvers vegna hann dregst inn í glæpagengi eru óljósar. Það er galli á þáttaröðinni en hún veitir eigi að síður sláandi innsýn í heim sem við annars fáum bara fréttir af í fjölmiðlum.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...