Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 ára.
Mýs leggja sitt af mörkum við að flokka lindifurufræ
Fréttir 20. febrúar 2015

Mýs leggja sitt af mörkum við að flokka lindifurufræ

Höfundur: Margrét Þ. Þórsdóttir

Þrjá hagamýs hafa lagt starfs­mönnum Gróðrar­stöðvarinnar Barra á Egilsstöðum lið við að safna lindifurufræjum og er afraksturinn með ágætum, alls um 3,5 kíló eða um 8.000 fræ. 

„Þetta er bara skemmtilegt og við erum vel birg núna af lindifurufræjum, eigum nóg fyrir okkar ræktun næstu tvö árin,“ segir Skúli Björnsson framkvæmdastjóri.

Starfsmenn Barra fara á haustin og tína lindifuruköngla í trjásafninu í Hallormsstaðaskógi og nýta veturinn í að hreinsa úr þeim fræin til ræktunar. Nú í haust fengu þau til liðs við sig flokk kvenna úr Soroptimistafélagi Austurlands sem unnu við að klengja, þ.e. að taka fræin úr könglunum.  Voru þær að tvær kvöldstundir og söfnuðu alls 18 kílóum af fræjum og fengu greitt fyrir.

„Það er þó nokkuð mikið verk að hreinsa fræin úr könglunum, svo við erum auðvitað ánægð með að fá þetta ókeypis vinnuafl til viðbótar,“ segir Skúli.

Birgðum safnað í lyftaragaffal

Töluvert magn köngla lá til þerris í vinnslusal Barra um jólin og kom vinnusemi músanna í ljós eftir áramót þegar farið var að huga að þeim.  Kom þá í ljós að búið var að tæma heilmikið af könglum.  Grunur féll strax á að þar hefðu mýs verið að verki, enda hafði áður verið sett upp eins konar „músaland“ hjá Barra sem var tilraun sem ekki tókst sem skyldi, að sögn Skúla. 

Mýsnar lifðu í vellystingum en afraksturinn í formi fræja var ekki ýkja mikill.

„Við sáum þarna heilmikið af tómum könglum, en engin fræ svo það var farið í leit. Við settum hveiti á gólfið til að rekja ferðir músanna og slóðin leiddi okkur að lyftaragaffli, í holrúmi í framlengingu hans höfðu mýsnar safnað fræinu saman, þær hafa verið að birgja sig upp,“ segir hann. Alls voru þar 2,5 kíló af hreinu fræi, um það bil 6.000 fræ. Seinna fannst um eitt kíló á öðrum stað í húsinu þannig að mýsnar hafa í allt safnað saman um 8.000 lindifurufræjum.

Eftirsóttur gæðaviður

Hjá Barra eru framleiddar um 100 þúsund lindifuruplöntur á ári þegar vel lætur og hafa þær verið seldar m.a. til landshlutaverkefna í skógrækt og til einstaklinga. Barri er eina gróðrarstöðin hér á landi sem ræktar lindifuruplöntur að einhverju ráði. Lindifura er erfið í ræktun á gróðrarstöðvum að sögn Skúla og getur það tekið fræin tvö ár að spíra ef ekki er beitt brögðum.

„Þetta er mikil vinna, það þarf að örva fræin á ákveðinn hátt og við höfum þróað okkar aðferð til að stunda þessa ræktun,“ segir hann.

Lindifura vex hægt en örugglega segir Skúli og gefur hún af sér eftirsóttan gæðavið, hann er sterkur og hentar einkar vel í handverk ýmiss konar. Framboð er hins vegar ekki mikið sökum þess hve tegundin er lítt útbreidd í íslenskum skógum.  Hann segir Barra eiga töluvert magn af fræjum nú og dugi þær birgðir næstu tvö ár. Mikið var um köngla á liðnu hausti og var það ánægjulegur viðsnúningur því árin tvö þar á undan voru mjög rýr, fræuppskera nánast engin.
„Þannig að það myndaðist hjá okkur gat í framleiðslunni, en þannig er þetta, árferðið skiptir öllu, sumrin þurfa að vera hlý og sólrík og vorið á eftir hagstætt til að lindifuran beri köngla með fullþroskuðu fræi.“

Langþráður Lord of the Mice

Eftir að fréttir bárust af hinum vinnusömu músum í húsakynnum Barra barst Skúla þessi vísa frá Aðalsteini Svan Sigfússyni:

Það er notalegt bæði og næs
við nytjar og söfnun fræs
að losna undan púli.
Nú loksins er Skúli
langþráður Lord of the Mice.
 

Skylt efni: Mýs | lindifura

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...