Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Misvægi í samkeppni
Skoðun 29. mars 2019

Misvægi í samkeppni

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Íslenskur landbúnaður hefur tekið algjörum stakkaskiptum á síðustu 100 til 200 árum samhliða umbyltingu þjóðfélagsins. Í dag er íslenska þjóðin orðin ein sú ríkasta í heimi með full yfirráð yfir eigin auðlindum í sjó og á landi. Þar eru samt alvarlegar blikur á lofti hvað varðar mismunun í samkeppnisstöðu og ásælni erlendra ríkja í íslenska orku og aðrar auðlindir. 
 
Á ársfundi Bændasamtaka Íslands sem haldinn var þann 15. mars síðastliðinn voru flutt nokkur áhugaverð erindi um möguleika sem felast í íslenskum landbúnaði. Þar má nefna lífræna framleiðslu af öllu tagi sem er hér nánast óplægður akur, en er ört vaxandi í okkar nágrannaríkjum. 
 
Örn Karlsson, bóndi á Sandhóli í Meðallandi, sagði þar m.a. frá þeim góða árangri sem honum og hans fólki hefur tekist að ná við ræktun á höfrum og framleiðslu á alíslensku haframjöli. Benti hann einnig á þá mismunun sem íslenskum bændum er gert að búa við í kornrækt gagnvart kollegum á hinum Norðurlöndunum varðandi framfylgni við evrópskar aðbúnaðarreglugerðir. 
 
Þeir sem gerst þekkja til í þessum efnum segja þó að grunnreglurnar samkvæmt EES samningnum séu þær sömu. Hins vegar er framkvæmd eftirlits og eftirfylgni með framkvæmd reglugerða oft með gjörólíkum hætti. Eins og hvað varðar notkun alls konar hjálparefna í landbúnaði sem hér á landi eru lítið eða ekkert brúkuð. 
 
Í skýrslu Evrópusambandsins sem birt var 2017 um sjálfbæra notkun hjálparefna á borð við skordýraeitur og gróðureyðingarefni, kom í ljós að innan ESB-landanna er á þessu mikill misbrestur. Flest ESB-landanna hafa ekki fylgt eftir innleiðingu á reglugerðum um þessi mál og sum þeirra hafa ekki einu sinni markað sér stefnu á þeim vettvangi. Það á m.a. við um notkun á eiturefninu glyfosat sem rannsóknarstofnanir hafa staðfest að getur verið hættulegt mönnum. 
 
Í ræktun búfjár hafa kjötframleiðslu­greinar í Evrópu líka komist upp með að nota margháttuð sýklalyf sem vaxtarhvetjandi efni til að framleiða ódýrara kjöt. Það hefur leitt til vaxandi útbreiðslu á sýklalyfjaónæmum bakteríum sem er farið að skaða heilbrigðiskerfið og valda stórfelldu manntjóni. Slíkt er með öllu óheimilt á Íslandi og er ekki stundað. Það er reyndar líka sagt ólöglegt í ESB-ríkjunum, en hefur ekki verið fylgt eftir. Vegna þessa hafa íslenskir bændur því alls ekki staðið jafnfætis erlendum kollegum sínum við framleiðslu á nautakjöti, alifuglakjöti og svínakjöti. 
 
Stöðugt eru gerðar kröfur um aukið heilnæmi kjötafurða og annarrar matvöru. Slíkum kröfum ber að fagna. Það er því dapurlegt þegar hart er gengið fram í því að fullkomið frelsi verði gefið til að flytja inn hrátt kjöt frá erlendum bændum sem sniðganga allar reglur sem íslenskum bændum er gert að fara eftir. Hvernig er hægt að ætlast til að íslenskir bændur keppi við slíkan sóðaskap á jafnréttisgrunni? 
 
Enn skal höggvið í sama knérunn íslenskra bænda. Nú er það ásælni í okkar orkulindir sem er undir með innleiðingu á orkupakka 3 frá Evrópusambandinu. Samband garðyrjubænda hefur varað mjög sterklega við þeim áformum. Það myndi leiða til verulegra hækkana á orkuverði fyrir almenning og framleiðslufyrirtæki á Íslandi, þ.m.t. í garðyrkju. Slíkt myndi rýra lífskjör almennings og draga mjög úr samkeppnishæfni innlendrar framleiðslu. Mörg garðyrkjufyrirtæki legðu mögulega niður starfsemi auk ótalinna áhrifa á aðrar innlendar framleiðslugreinar. Svo ekki sé talað um aukið kolefnisspor vegna aukningar á  matvælainnflutningi. – Er þetta virkilega það sem Íslendingar vilja? 
Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...