Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Aðalbláber tilbúin til sultugerðar.
Aðalbláber tilbúin til sultugerðar.
Mynd / smh
Fréttir 6. september 2016

Miklu meira en nóg af berjum um allt land

Höfundur: smh
Þorvaldur Pálmason er einn af stofnendum vefsins berjavinir.is, sem geymir mikinn fróðleik um villt ber á Íslandi og berjatínslu. Hann segir að afar gott útlit sé varðandi berjavertíðina, sem nú stendur sem hæst. 
 
„Það sem ég hef frétt er að það eru alls staðar ber á landinu og nóg af þeim. Þar sem lyng er, þar eru ber. Það setti reyndar svolítið strik í reikninginn að það var talsverður þurrkur snemma sumars sums staðar á landinu og því var á tímabili hætta á að berin myndu hreinlega ofþorna, því þau þurfa nauðsynlega á vætunni að halda líka. Síðan hefur ræst úr þessu og að auki hefur tíðarfar almennt verið gott – bæði hlýtt og sólríkt,“ segir Þorvaldur.
 
„Raunin er sú að aðalbláberin þroskast fyrst, en vegna þess hversu þurrt var fyrst í sumar hafa þau líklega á sumum stöðum verið smá og óþroskuð núna fyrri hluta ágústmánaðar. Eftir vætutíðina að undanförnu ættu þau að hafa tekið kipp í þroska og líka stækkað. Ætli megi ekki segja að krækiberin og bláberin þroskist á svipuðum tíma.
 
Það má svo líka alveg benda á aðrar berjategundir fyrir fólk að gefa gaum. Til dæmis hrútaberin sem vaxa oft í birkikjarri. Það hefur verið talað um Austurland sem land hrútaberjanna – og það má svo sem til sanns vegar færa – en ég held að þau finnist líka í nokkrum mæli í öðrum landshlutum þegar tíðarfar er gott. Það er gott að sulta úr þeim. Svo er hægt að finna villt íslensk jarðarber nokkuð víða og þau eru afskaplega bragðgóð ein og sér. Þau vaxa einnig í kjarrlendi – gjarnan í lynggróðri og á móti sól.“
 
Aðalberin eru í raun svört aðalbláber
 
Að sögn Þorvaldar er ljóst að nóg er af berjum handa öllum – og í raun miklu meira en nóg. Allar tegund­irnar finnast í öllum landshlutum, en mismikið er af þeim á hverjum stað. „Aðalbláberin eru til að mynda afar algeng á Vestfjörðum, í Fljótum og Svarfaðardal, svo einhverjir staðir séu nefndir. Í Svarfaðardal monta menn sig af svokölluðum aðalberjum, en það eru í raun aðalbláber sem eru svört á lit. Maður sér að þetta eru sömu berin þegar maður kíkir inn í þau, enda er ekki til neitt sérstakt latneskt heiti yfir aðalber.
Þessi auðlind hefur ekki verið nýtt mjög vel í gegnum tíðina en þó eru æ fleiri farnir að vinna söluvörur úr villtu berjunum okkar – bæði með innlendu og erlendu vinnuafli. Það mætti þó gera meira og ég hef nú verið að horfa dálítið til þeirra á Nova Scotia, sem skapa sér gríðarlegar tekjur af sölu villtra bláberja, og finnst að við gætum alveg lært eitthvað af þeim til að heimfæra upp á okkar berjalönd með einhverjum hætti. Þeir nefnilega brenna spildur sem þeir taka undir berjaræktun. Þeir vita að með þeim hætti örva þeir rótarskot og fjölga plöntunum með þeim hætti. Þetta er í raun akurræktun sem auðveldar þá líka alla vinnu við það að uppskera berin. Ég gæti vel séð að þessi aðferð yrði prófuð hér á landi með okkar bláberja- eða aðalbláberjalyng, til dæmis á Barðaströndinni, þar sem tún eru sum ekki hirt,“ segir Þorvaldur.
 

Skylt efni: ber | aðalbláber | bláber | krækiber

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...