Mikill kraftur í plöntukynbótum
Plöntukynbótaverkefnið Vala var sett á fót í byrjun árs 2024 eftir að íslensk stjórnvöld ákváðu að fjármagna kynbætur á byggi, hveiti og höfrum.
Hrannar Smári Hilmarsson, verkefnastjóri plöntukynbótaverkefnisins Völu, segir það í raun vera framhald af plöntukynbótum sem Jónatan Hermannsson stundaði í áratugi hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Hrannar tók við starfi tilraunastjóra í jarðrækt árið 2017 eftir að Jónatan hafði farið á eftirlaun. „Fljótlega var mér tilkynnt að plöntukynbætur yrðu ekki hluti af starfinu og var plöntukynbótaverkefnið í rauninni lagt niður,“ segir Hrannar.
Plöntukynbætur frumforsenda framfara
Hann segist hafa vakið máls á mikilvægi kornræktar fyrir fæðuöryggi í landinu með greinaskrifum og í samtali við stjórnvöld. Loks fékkst hljómgrunnur þegar Svandís Svavarsdóttir var í matvælaráðuneytinu og fól hún Hrannari og fleiri sérfræðingum að semja aðgerðaáætlun sem fékk nafnið Bleikir akrar og kom út árið 2022.
„Í undirbúningsvinnunni fyrir aðgerðaáætlunina blasti snemma við að plöntukynbætur eru lykilforsenda að eflingu kornræktar. Við töluðum við einhverja sextíu sérfræðinga og það var oft sama svarið – að plöntukynbætur væru frumforsenda. Og meira að segja var einn sem sagði við okkur: Þið getið sleppt því að gera allt annað, eins og uppbyggingu innviða, ef þið bara kynbætið korn.“
Því var ákveðið áður en skýrslan var gefin út að koma plöntukynbótaverkefninu í gang að nýju. „Árið 2023 endurnýjuðum við samstarf við Lantmännen í Svíþjóð, endurhönnuðum kynbótaverkefnið og framkvæmdum fyrstu víxlanir á byggi síðan Jónatan var að því árið 2007,“ segir Hrannar.
Margföld afköst í kynbótum
Hann útskýrir að hver einasta byggplanta sé í raun einræktað afkvæmi undan móður sinni og því þurfi plöntukynbótafræðingar, með talsverðri handavinnu, að taka tvær ólíkar byggplöntur og víxla þeim saman til þess að búa til blendingsafkvæmi. Í fullkominni aðstöðu Lantmännen í Svíþjóð sé hægt að erfðagreina tugþúsundir afkvæma á meðan þau eru enn þá kímplöntur.
„Með upplýsingum um erfðasamsetningu þessara plantna getum við reiknað kynbótamat fyrir uppskeru þó að þær hafi aldrei verið prófaðar á Íslandi. Þá sendum við fyrirmæli til Lantmännen um að henda níutíu og níu prósentum og vinna áfram með þetta eina prósent sem er með hæsta kynbótamatið.“ Hjá Lantmännen sé hægt að rækta allt að sex kynslóðir á ári, en á árum áður var eingöngu hægt að ná einni kynslóð á sumri.
Eldskírn í slæmu ári
„Við fengum fyrstu sendinguna frá Svíþjóð af nýju byggi sem er samkvæmt íslenskri uppskrift í lok apríl í fyrra og náðum að setja það út í tilraun á Hvanneyri. Voru það eitt þúsund kynbótalínur og í hverri þeirra voru kannski tuttugu til þrjátíu fræ. Árið 2024 var það versta í manna minnum í kornræktinni þannig að byggið leit alveg afskaplega illa út að hausti. En það var gott að við sáum hvernig kornið stóð sig þetta sumar og má segja að það hafi hlotið ákveðna eldskírn.
230 bestu kynbótalínurnar voru notaðar í áframhaldandi tilraun í Gunnarsholti í ár og er uppskeran tuttugu prósent hærri heldur en af bestu yrkjunum sem eru á markaði núna. En það er auðvitað bara ein tilraun og eitt ár, og förum við alltaf rosalega varlega í fullyrðingar af svoleiðis niðurstöðum,“ segir Hrannar.
Fullt erindi sé hins vegar til bjartsýni enda hæsta kynbótamatið sem fékkst úr tilraununum uppskera upp á tíu tonn á hektara, en í ár var algengt að bygg skilaði á bilinu fimm til sjö tonna uppskeru á hektara í tilraunum. „Á næsta ári tökum við þessar kynbótalínur í dreifðar tilraunir í ökrum bænda. Þá sjáum við miklu nákvæmari uppskerutölur og hvort þetta sé gott úti um allt land.“
Vonandi á markað 2030
„Við ætlum að vera búin að bera kennsl á næsta nýja yrki fyrir árið 2028. Síðan tekur við ákveðið ferli þar sem við þurfum að skala upp sáðvöruframleiðsluna og arfhreinsun. Eftir það eru sýni send í svokallað DUS-próf þar sem byggið þarf að fara í gegnum mjög strangt og nákvæmt mat á hvort það sé einstakt, stöðugt og einsleitt,“ segir Hrannar. Standist kynbótalínan prófið sé hægt að skrá það sem yrki.
„Ef allt gengur upp ætti það að vera komið á markað fyrir bændur 2030, en þá má ekkert klikka. Mönnum finnst þetta kannski langur tími, en sjö ár er sá tími sem tekur til að fá hjólin til að snúast aftur,“ segir Hrannar, en hann bendir á að mikil vinna hafi farið í að koma verkefninu aftur af stað eftir að það hætti. Verði plöntukynbætur fjármagnaðar áfram megi búast við að ný yrki komi á markað á þriggja til fimm ára fresti. „Stefnan er að við gefum ekki út yrki nema það sé að minnsta kosti fimm prósent betra heldur en það besta á markaði, en helst að það sé tíu prósent.“
Nú þegar standa bændum til boða tvö byggyrki sem eru sérhönnuð fyrir íslenskar aðstæður; Smyrill og Kría. Það fyrrnefnda fór í almenna sölu fyrir nokkrum árum og eru bændur ánægðir með árangurinn. Kría er eldri, en hefur skipað sér sterkan sess í kornræktinni. „Arfleifð Jónatans Hermannssonar er risastór og það er mikil áskorun að gefa út yrki sem er betra en Smyrill. Þetta er það sem kom út úr ævistarfinu og skildi hann þetta svo að segja eftir á borðinu þegar hann labbaði út.“
Öllu vetrarhveiti genabankans sáð
„Þegar Jónatan hætti skildi hann eftir sig kynbótastofn í byggi sem við gátum notað. En slíkur stofn er ekki til í hveitinu. Þess vegna fórum við í samstarf við Norræna genabankann og ég bað um að fá allt vetrarhveiti í safninu. Þau sögðu fyrst að það væri ekki hægt en í gegnum ákveðið samtal gerðum við það samt og þau þurftu að ráða auka starfsfólk til þess að afgreiða pöntunina.
Því var öllu vetrarhveiti í Norræna genabankanum sáð í Gunnarsholti í fyrra, eða þúsund kynbótalínur sem fóru í tólf hundruð reiti. Um 27 prósent lifðu af veturinn og verða uppskorin á næstu dögum. Þessu nákvæmlega sama safni var sáð aftur í Gunnarsholti núna í ágúst og verður það uppskorið á næsta ári.
Að þessu leyti er auðvelt að vera plöntukynbótafræðingar á Íslandi: Maður sáir út og það sem lifir, það lifir, og það sem drepst það drepst. Nákvæmlega sama safni var sáð í Svíþjóð í fyrra og þar var lifunin hundrað prósent. Það var allt uppskorið og þeir ætla að senda okkur um hálft tonn af korni sem við getum sáð aftur í enn dreifðari tilraunir víða um land á næsta ári.
Við erfðagreindum allt safnið og getum lagt mat á erfðabreytileika vetrarhveitis í Norræna genabankanum. Út frá þessu getum við kortlagt erfðaauðlindir Norðurlandanna mjög nákvæmlega. Með því að sá þessu í svona öfgakennt umhverfi eins og á Íslandi sjáum við hvaða gen það eru í erfðamengi hveitisins sem valda því að það lifir af.“
Norrænt samstarf mikilvægt
„Þessi hugmynd að fara inn í genabanka og panta allt safnið af vetrarhveiti er algjört einsdæmi. Það að öllu safninu hafi verið sáð á einum stað saman hefur aldrei verið gert og engum látið sér detta þessa vitleysu í hug og þetta er að vekja gríðarlega athygli.
Úr þessu komu mikilvægar upplýsingar fyrir Norðurlöndin, því að þau vilja auðvitað auka vetrarlifunina við sínar aðstæður. Þess vegna er búið að setja á stofn samstarfsvettvang sem heitir Fimbulvetrarhveiti þar sem við, Norðmenn, Svíar, Finnar og Litáar erum í samstarfi til að rannsaka þetta betur.
Það er ótrúlega mikilvægt fyrir okkur að erlendar þjóðir sýni sömu áherslum og við þurfum áhuga, vegna þess að það er ekki eins og við höfum heilu deildirnar innan háskólanna sem eru tileinkaðar rannsóknum á vetrarhveiti. Við þurfum erlent samstarf til þess að hámarka árangurinn,“ segir Hrannar.
