Í félagsheimilinu Goðalandí í Fljótshlíð stóð Konráð Helgi á Syðri-Hól keikur í pontu á meðan þau Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna, og varaformaðurinn, Herdís Magna, tóku niður punkta.
Í félagsheimilinu Goðalandí í Fljótshlíð stóð Konráð Helgi á Syðri-Hól keikur í pontu á meðan þau Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna, og varaformaðurinn, Herdís Magna, tóku niður punkta.
Mynd / Valur Þorsteinsson
Fréttir 26. nóvember 2025

Mikill hugur innan stéttarinnar

Höfundur: Þröstur Helgason

Stjórn Bændasamtakanna, ásamt framkvæmdastjóra og starfsmanni, hefur lokið hringferð samtakanna um landið þar sem haldnir voru samtals 14 bændafundir. Staða og framtíð íslensks landbúnaðar var rædd á fundunum ásamt nauðsyn þess að tryggja rekstraröryggi og fyrirsjáanleika atvinnugreinarinnar.

Bændur lýstu bæði áhyggjum og ákveðni á sama tíma og glöggt kom fram að mikill hugur er innan stéttarinnar. Umræðurnar snéru að fjölmörgum þáttum sem skipta bændur máli, en áberandi voru málefni sem tengjast tollverndinni og stöðu hennar, starfsskilyrðum landbúnaðarins og komandi samningum þar um, kynslóðaskiptum og nýliðun og svo mikilli fjárfestingarþörf innan greinarinnar. Þá voru boðaðar breytingar atvinnuvegaráðherra á búvörulögunum ræddar ásamt öðrum boðuðum breytingum og fyrirætlunum stjórnvalda. Þá þyrfti að bæta afkomu og kjör bænda sem og tryggingarvernd.

Fyrri hluti ferðarinnar fór fram 3.–7. nóvember með 11 fundum. Fundirnir voru haldnir í Borgarnesi, Laugarbakka, Sauðárkróki, Akureyri, Þingeyjarsveit, Kópaskeri, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði, Kirkjubæjarklaustri, Fljótshlíðinni og Flúðum. Síðan var seinni hluti ferðarinnar farinn dagana 11.–12. nóvember þar sem Dalirnir voru sóttir heim, síðan Ísafjörður og loks Barðaströnd. Ferðin gekk vel og aðstæður voru hagstæðar, en alls mættu ríflega 400 bændur til fundar við forystu samtakanna.

Fundirnir byrjuðu allir á erindum frá samtökunum sjálfum. Í þeim var m.a. rætt um þau verkefni sem fram undan eru ásamt umræðunni út á við. Að auki var líka farið yfir Íslenskt staðfest, upprunamerkið sem tryggir að neytandinn fái íslenskt – þegar hann velur íslenskt. Umræður voru síðan í kjölfarið þar sem Bændasamtökin og forysta hennar voru spurð spjörunum úr.

Málin rædd í félagsheimilinu Goðalandi í Fljótshlíð.

Efla þarf skilning almennings

Víða var rætt um mikilvægi þess að efla skilning almennings á hlutverki bænda og starfsemi þeirra, ekki síst í loftslagsmálum. Bændur lögðu áherslu á að framlag landbúnaðar til kolefnisbindingar og sjálfbærrar landnýtingar fengi rétt mat og bentu á að umræða á undanförnum árum hafi verið ósamræmd eða byggð á misskilningi. Fundargestir ræddu jafnframt auknar kröfur til bænda, breytingar á regluverki og þá sér í lagi íþyngjandi regluverki. Þá þyrfti enn fremur skýrari stefnu í landnýtingu, þar sem mörg sveitarfélög glími við uppsafnaða innviðaskuld og skort á skýrum ramma um notkun og nýtingu jarða. Bændur tjáðu áhyggjur af því að jarðir leggist í eyði og að gera þyrfti breytingar á tekjuskattslögunum þannig að ívilnanir væru veittar til þeirra sem seldu jarðir til áframhaldandi búreksturs.

Þröngt var setið á Hill-hótelinu á Flúðum.

Hindranir í vegi fyrir nýliðun

Nýliðun var rædd á flestum fundanna, en bændur bentu á að fjárfestingarþörf, háir vextir og skattalegar hindranir geri ungu fólki erfitt að hasla sér völl innan atvinnugreinarinnar. Viljinn sé sannarlega til staðar en erfitt sé að verða eitthvað ágengt með eingöngu hann að vopni. Bændasamtökin tóku undir þessar áhyggjur. Að greiða fyrir auknum fjárfestingum og nýliðun verður eitt af áhersluatriðum í komandi samræðum við ríkið. Þá var margítrekað að tollverndin skipti sköpum fyrir innlendan landbúnað, ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að hún hefur farið þverrandi undanfarin ár. Þá yrði að hafa í huga að Ísland er eyland og að önnur ríki séu farin að halda að sér höndum varðandi útflutning og að ótækt væri að reiða sig á innfluttar afurðir.

Áhyggjur af markaðsaðstæðum og stöðu innlendrar framleiðslu gagnvart innflutningi, bæði hvað varðar tollvernd og virðingu fyrir íslenskum vörum á markaði, voru ræddar. Fjölmargir bændur lýstu vonbrigðum yfir villandi merkingum í verslunum og töldu nauðsynlegt að styrkja stöðu Íslenskt staðfest sem trúverðugs merkis fyrir neytendur.

Hlustað var með athygli í Hlíðarbæ á Akureyri.

Bændasamtökin ánægð með fundina

Forsvarsfólki Bændasamtakanna þóttu framsögur bænda skemmtilegar og beinskeyttar og þóttu þær veita góða innsýn í stöðu einstakra búgreina, svæðisbundin málefni og reynslu fólks. „Af þessum framsögum að dæma eru bændur ánægðir með þetta fundafyrirkomulag þar sem öllum gefst tækifæri á að hitta forystu samtakanna og eiga samtal, bæði formfast og óformlegt. Er hringferðin því lykilþáttur í því markmiði Bændasamtakanna að viðhalda góðum tengslum við grasrótina, vera með puttann á púlsinum. Bændafundir eru kjölfesta í starfsumhverfi Bændasamtakanna og munu halda áfram að leggja grunn að hagsmunabaráttu, samtakamætti bænda og framtíðarsýn íslensks landbúnaðar,“ segir Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri samtakanna.

Skylt efni: bændafundir

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...