Mikil hávaðamengun frá starfsemi RARIK í Vík í Mýrdal
Á síðasta fundi sveitarstjórnar Mýrdalshrepps var meðal annars tekið fyrir erindi frá skipulags- og umhverfisráði sveitarfélagsins þar sem ráðið lagði til að heimiluð verði uppsetning á hleðslugám í samræmi við hugmynd Rarik norðvestan við aðveitustöðina í Vík.
Sveitarstjórn samþykkti erindið en bókaði síðan eftirfarandi: „Sveitarstjórn krefst þess að RARIK ráðist þegar í úrbætur á mikilli hljóðmengun sem hlýst af keyrslu varaafls í bænum, sem veldur miklu ónæði fyrir íbúa og atvinnustarfsemi.“
En út á hvað gengur málið? Einar Freyr Elínarson er sveitarstjóri Mýrdalshrepps. „Þetta er annars vegar hávaði frá dísilvaraaflsstöðvum sem þarf að keyra þegar við missum rafmagnið vegna bilana og hins vegar hefur líka komið upp að frágangur á lofttúðum á húsnæði RARIK var þannig að það ómuðu skellir af því þegar þær opnuðust og lokuðust. Þetta er ekkert viðvarandi ónæði sem sagt, en bagalegt fyrir íbúa í nærumhverfinu þegar þetta gerist,“ segir Einar Freyr.
