Metfjöldi umsókna um nýliðunarstuðning
Ásókn í nýliðunarstyrki í landbúnaði heldur áfram að aukast og í ár er metfjöldi umsókna. Sóttu 108 aðilar um að þessu sinni en á síðasta ári voru umsóknirnar 95, en þá var einnig metár.
Af 108 gildum umsóknum voru 45 frumumsóknir og 63 framhaldsumsóknir, en í ár voru 177,1 milljón króna til ráðstöfunar.
Fyrst veittur árið 2017
Nýliðunarstuðningurinn var veittur í fyrsta skiptið á árinu 2017 á grundvelli reglugerðar um almennan stuðning við landbúnað. Markmiðið með honum er að aðstoða nýliða við að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti í landbúnaði.
Nýliðunarstuðningur er veittur til fjárfestinga í búrekstri og beinist að einstaklingum í eigin nafni, óháð hjúskaparstöðu, eða lögaðila sem nýliði á að minnsta kosti 25% hlut í. Hægt er að sækja um nýliðunarstuðning til kaupa á jörð, kaupa á fasteign, kaup á bústofni eða plöntum til framleiðslu á garðyrkjuafurðum, kaupa á greiðslumarki eða kaupa á tækjum og búnaði til búskapar.
Stuðningur getur að hámarki numið 20% af heildarfjárfestingastuðningi á ári þó að hámarki níu milljónir króna. Heimilt er að veita stuðning til sömu fjárfestingar í allt að þrjú ár eða þar til hámarki er náð.
Tók við af framlögum til frumbýlinga
Til að eiga rétt á stuðningi þurfa umsækjendur að vera á aldrinum 18-40 ára, vera að kaupa búrekstur eða hlut í búrekstri í fyrsta skipti eða hafa leigt eða keypt búrekstur innan þriggja ára frá 1. janúar á umsóknarári.
Þeir mega ekki hafa hlotið nýliðunarstuðning í mjólkurframleiðslu eða bústofnskaupastyrki til frumbýlinga í sauðfjárrækt, samkvæmt þágildandi reglum árin 2015-2016 og ekki lagt út fyrir fjárfestingu annaðhvort með eigin fé eða lántöku.
Nýliðunarstuðningur tók við af framlögum til frumbýlinga, það er styrkúthlutun sem grundvallaðist meðal annars á stuðningi við sauðfjárrækt. Í búvörusamningum 2016 tóku við framlög til nýliðunar í landbúnaði óháð búgrein.
