Meginmarkmiðið að styrkja stöðu bænda og auka verðmætasköpun
Nú í byrjun október birtust í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi mínu um breytingar á búvörulögum. Meginmarkmið breytinganna er að styrkja stöðu frumframleiðenda búvara, það er bænda, og skapa tækifæri til aukinnar samvinnu og verðmætasköpunar, að teknu tilliti til meginreglna samkeppnisréttar.
Frumvarpið felur í sér almenna heimild til samstarfs bænda og fyrirtækja þeirra á búvörumarkaði, óháð búgreinum. Bændum og fyrirtækjum undir þeirra yfirráðum verður þannig tryggt sambærilegt svigrúm til samstarfs og hagræðingar og í nágrannalöndum í samræmi við gildandi landbúnaðarstefnu fyrir Ísland til ársins 2040. Þar er sérstaklega tekið fram að tryggt verði með löggjöf að innlendir framleiðendur hafi ekki lakara svigrúm til hagræðingar og samstarfs en framleiðendur í nágrannalöndum þar sem starfað er samkvæmt EES-löggjöf.
Þar sem sú heimild til samstarfs bænda sem lögð er til í frumvarpinu er almenn og ekki bundin við tilteknar greinar landbúnaðar, er lagt til að 71. gr. búvörulaga um heimild afurðastöðva í mjólkuriðnaði til sameininga og ýmis konar samstarfs verði felld brott 1. júlí 2027, en á þeim 20 árum sem liðin eru síðan heimildin var lögfest hefur náðst fram veruleg hagræðing í mjólkuriðnaði, líkt og lagt var upp með á sínum tíma.
Starfsumhverfi ekki kollvarpað
Því hefur verið haldið fram í umræðunni síðustu daga að verið sé að kollvarpa starfsumhverfi landbúnaðarins með frumvarpinu. Það er fjarri lagi. Eins og skýrt kemur fram í frumvarpsdrögunum er lagt til að afurðastöðvar undir beinum yfirráðum bænda geti gert með sér samkomulag um verkaskiptingu og áfram unnið saman. Því er ekki verið að kollvarpa núverandi kerfi í mjólkuriðnaði. Engar breytingar eru heldur lagðar til á reglum um verðlagningu mjólkur.
Þá er rétt að árétta að þrátt fyrir að lagt sé til að fella brott heimildir í búvörulögum, sem afurðastöðvar í mjólkurframleiðslu og kjötiðnaði hafa m.a. nýtt sér til að sameinast, hefur frumvarpið ekki áhrif á þá samruna sem þegar hafa átt sér stað.
Verði frumvarpið að lögum þá verða þau ekki afturvirk frekar en önnur lagasetning. Verði frumvarpið að lögum munu því annars vegar framleiðendafélög, þ.e. félög sem eru undir stjórn bænda, í öllum búgreinum hafa tækifæri til samstarfs og samvinnu, og hins vegar munu fyrirtæki á þessum markaði sem ekki eru undir yfirráðum bænda starfa eftir almennum reglum samkeppnislaga eins og önnur fyrirtæki í landinu.
Öflug verðmætasköpun
Til að tryggja sterkari stöðu bænda í virðiskeðju matvælaframleiðslu er í frumvarpinu enn fremur lagt til að afurðastöðvar sem hafa verulega markaðshlutdeild tiltekinna búvara verði skylt að sækja mjólk og sláturgripi frá bændum hvar sem þeir starfa á landinu. Frumvarpinu er þannig ætlað að treysta stöðu bænda í framleiðslu um land allt.
Einnig er lagt til að afurðastöðvar með verulega markaðshlutdeild geti ekki tekið hærra gjald af bændum fyrir þær afurðir sem þeir taka heim á bæ til frekari vinnslu, en sem nemur raunkostnaði af t.d. flutningi og slátrun. Slíku ákvæði er ætlað að styrkja stöðu bænda enn frekar þannig að þeir geti aukið verðmæti sinna afurða og selt beint frá býli. Með stuðningi við slíkt verður aukin verðmætasköpun á fleiri stöðum á landsbyggðinni sem hefur jákvæð áhrif í hinum dreifðu byggðum.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er skýrt kveðið á um að vinna skuli að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi, m.a. með því að ýta undir vöxt og verðmætasköpun í matvælaframleiðslu. Þær breytingar á búvörulögum sem lagðar eru til í frumvarpsdrögunum styðja við þessi áform með skýru meginmarkmiði um að styrkja stöðu bænda á Íslandi.
Samráð í gangi
Með því að birta drög frumvarpsins í samráðsgátt stjórnvalda er bændum og öllum þeim sem hafa ábendingar og athugasemdir, boðið að borðinu á sama tíma til að kynna sér tillögurnar og koma á framfæri sínum sjónarmiðum áður en lengra er haldið með vinnslu frumvarpsins. Það er einmitt tilgangurinn með samráðsgáttinni að kynna mál fyrir öllum á sama tíma. Samráð um drögin stendur yfir til og með 17. október í samráðsgátt stjórnvalda. Það er von mín að bændur muni kynna sér drögin og senda inn umsagnir um málið. Ég hlakka til samtalsins fram undan.
