Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Sigrún sér fyrir sér að með haustinu muni hún standa á sviði Grímshúss í Brákarey en hún ásamt fleirum ætla að standa fyrir tónleikum sem bera vinnuheitið Tindertónleikar.
Sigrún sér fyrir sér að með haustinu muni hún standa á sviði Grímshúss í Brákarey en hún ásamt fleirum ætla að standa fyrir tónleikum sem bera vinnuheitið Tindertónleikar.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 27. mars 2025

Með frumskóg lífsins í huga

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Frásagnatöfrarnir finnast í pennum fólks víða um land og ekki síst þeirra sem alist hafa upp fjarri erli höfuðborgarinnar. Sigrún Elíasdóttir rithöfundur er ein þeirra, en hún er fædd og uppalin á Ferjubakka í Borgarfirði.

„Foreldrar mínir áttu litla lóð í dreifbýlinu, en ekki jörðina sem þau nýttu til búskapar og því var aldrei inni í myndinni að ég legði búskap neitt fyrir mig. Ég undi mér hvergi betur en umkringd dýrum og gat eytt heilu dögunum á hestbaki, að spekja lömb eða klippa loðkanínur. Og geri eiginlega enn,“ segir Sigrún, sem býr í nágrenni við heimahúsin ásamt börnum sínum tveimur.

Sigrún hefur alla tíð verið mikill bókaormur og segir áhugasviðið lengst af hafa tengst sagnfræði, helst sem óhugnanlegastri. Hún fór í gegnum háskólanámið þar sem hún sérhæfði sig í sögu 20. aldar og útskrifaðist síðar með master í ritlist fyrir tæpum tíu árum.

„Lokaverkefnið var hluti af barnabókaseríu sem Forlagið gaf svo út í þremur bindum sem heitir Ferðin á heimsenda,“ segir Sigrún, æsispennandi og skemmtileg saga tveggja vina – ætluðum börnum á aldrinum 8-12 ára.

Sigrún Elíasdóttir rithöfundur ásamt Önnu Dröfn Sigurjónsdóttur, vinkonu sinni.

Sagnabrot þjóðlífs

Áður hafði Sigrún m.a. skrifað bók um líf föðurafa síns, Jóhannesar Arasonar, sem heitir Kallar hann mig, kallar hann þig – leitin að afa og var gefin út árið 2013. Sagan, sem er að hluta söguleg lýsing lífsins á Barðaströnd hér áður fyrr, tvinnast saman við líf afa hennar, sem dó árið 2009.

„Fólk spyr oft hver afi minn hafi verið, hvort það ætti að þekkja hann sem alþingismann eða ríkan karl. En svo var einmitt ekki. Afi minn var holdgervingur þeirrar aldar sem hann lifði. Hann fæddist í torfbæ, eitt systkinið þurfti að láta í fóstur og tvö önnur dóu úr berklum. Hann vann líkamlega erfiðisvinnu alla ævi, eignaðist jörð, konu og börn, horfði á konu sína deyja úr krabbameini um aldur fram, horfði á húsið sitt brenna, fór á vertíðir og kenndi nokkrum afkomendum sínum að hlaða úr torfi og grjóti. Hann endaði svo ævina í blokk í Breiðholti og vílaði ekki fyrir sér að rölta um Reykjavíkurborg þvera og endilanga. Hann var erkitýpa dramatískra breytinga kynslóðar sinnar.“

Sigrún hefur farið nokkuð víða þegar kemur að frásagnarlistinni og gerði ásamt vinkonu sinni, Önnu Dröfn Sigurjónsdóttur, eina tuttugu hlaðvarpsþætti um íslenskt handverk undir nafninu Þjóðlegir þræðir.

„Í kjölfarið ákvað ég að hamfarahyggja mín og almenn svartsýni þyrfti einhvern veginn að fá útrás, þannig að við Anna gerðum annað hlaðvarp - Myrka Ísland. Dularfull mál, morð, aftökur, þjóðsögur, eldgos, mannfellir eða plágur Íslandssögunnar eru tekin fyrir, en bæði þessi hlaðvörp er að finna á Storytel.“

Stórleikur karlmanna?

Sigrún hefur skrifað ýmislegt fleira fyrir Storytel á Íslandi, t.a.m. íslenska gaman- og rómansseríu, Höllina á hæðinni, og er um þessar mundir að ljúka við skrif á verki sem mun bera heitið Dagbók miðaldra unglings. Þar er fjallað á spaugilegan hátt um líf fráskilinnar, miðaldra konu á Íslandi í leit að einhverju sem óvíst er hvað er, en til að mynda leiðist hún inn í menningarfrumskóg stefnumótaforrita.

„Eftir að ég varð einhleyp hef ég orðið vitni að og heyrt svo margt fyndið, fáránlegt og áhugavert að mér fannst ég þurfa að koma því frá mér á einhvern hátt. Kynjamál eru mér mjög ofarlega í huga og eftir nokkur ár í Tinderheimum verður að viðurkennast að karlkynið er ekki að eiga neinn stórleik í því leikriti. Storytel bauð mér að gera úr þessu eins konar þáttaseríu, hver sería verði 10 þættir. Sú fyrsta kemur út nú í sumar og möguleiki á að fleiri fylgi í kjölfarið ef vel gengur,“ segir Sigrún.

Hún, ásamt öðru listafólki, fékk nýverið styrk frá Uppbyggingarsjóði SSV til tónleikahalds sem áætlað er að fari fram í Borgarfirði næsta haust. Tónleikarnir, sem bera vinnuheitið Tindertónleikar, eru í tengslum við áðurnefnda hljóðbókaseríu þó ekki sé meiningin að skemmtunin sé einungis ætluð einhleypum.

„Helsti tilgangur tónleikanna verður nú aðallega að bjóða upp á afþreyingu á Vesturlandi, en viðburðurinn verður haldinn á þeim frábæra stað Grímshúsi í Brákarey í Borgarnesi. Dagskráin verður sett saman úr flutningi á dægurlögum og skemmtilegum frásögnum sem veita innsýn inn í tilhugalíf fólks á tímum stefnumótaappa, tímaleysis og frjálsra ásta – svona til að ég komi því nú almennilega á framfæri sem mér býr í brjósti,“ segir Sigrún hlæjandi.

Flutt verða bæði íslensk og erlend lög úr ýmsum áttum, sem flestir ættu að kannast við og hafa af einhverjum ástæðum einhverja tengingu við atburði eða fólk í huga höfundarins. Sigrún hefur með sér í liði tónlistarfólkið Hönnu Ágústu Olgeirsdóttur söngkonu og Jón Sigurð Snorra Bergsson, gítarleikara og söngvara.

„Þau eru bæði ótrúlega fært tónlistarfólk og heiður að hafa þau með mér í þessu. Ábyrgð þeirra er mikil; söngur, umsjón með útsetningu á tónlistinni, undirleikur … og að leiðbeina mér svo ég geti tjáð mig sæmilega í söng, a.m.k. svo áheyrilegt verði. Ég mun setja saman dagskrána, líma lögin saman með sögum inn á milli auk þess að syngja með þeim Hönnu og Snorra og, já, tek jafnvel einsöng til að ljá efninu persónulegri blæ. Það má sem sé segja að þetta sé eins konar tilraun til söngleiks, að mestu án dansatriða og loftfimleika,“ lýkur Sigrún máli sínu.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f