Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Matvælaframleiðsla og innflutningur
Skoðun 11. júlí 2019

Matvælaframleiðsla og innflutningur

Höfundur: Sigmar Vilhjálmsson Talsmaður FESK, Félags eggja-, svína- og kjúklingabænda á Íslandi
Undanfarin misseri hafa hagsmunaaðilar gengið hart fram í umræðunni um ágæti þess að flytja inn fersk matvæli frá Evrópuríkjum með EES-samninginn á lofti. Félag atvinnurekenda (FA) hefur verið þar fremst í flokki. 
 
Hagsmunir FA virðast fjár­hagslegs eðlis, enda sjá sumir aðilar félagsins hag sinn í því að flytja inn ódýrari kjötvörur (líklega í lægri gæðaflokki) og auka framlegð í endursölu til neytenda. 
 
Það eru því peningar sem ráða för í málflutningi FA og möguleiki valdra aðila félagsins á því að skila betri afkomu. 
 
Málstaður FA er auðveldur til vinsælda meðal almennings. „Lægra verð til neytenda og aukið úrval í verslunum“ er eitt af slagorðum þeirra. Það er erfitt fyrir neytendur að finnast þetta ekki frábær tilhugsun. En sé málið hugsað til enda, þá eru nokkrar hliðar á því sem verða ekki svo spennandi. 
 
Fjölónæmi og sýklalyf – er það hræðsluáróður?
 
Það er unnið með sýklalyf í matvælaframleiðslu í heiminum. Það er ekki hræðsluáróður, það er staðreynd. Staða þeirra mála er sérlega góð hér á landi og má einna helst rekja til þess að nánast öll sýklalyfja­með­höndlun íslensks búfénaðar er einstaklings-meðhöndlun. Þetta er lykilatriði ásamt sameiginlegum skilningi dýralækna og bænda á mikil­vægi réttrar notkunar á sýkla­lyfjum, smitvörnum og góðri sjúkdómastöðu. Í öðrum löndum eru sýklalyf oft notuð í fóðri og í þeim tilfellum eru öll ræktuð dýr að innbyrða sýklalyf í einhverju magni. Það mun með tímanum þýða að dýrin verða sýklaónæm og ný sýklalyf þurfa að taka við. Ísland er ennþá með minnstu notkun í heiminum sem er einstök og frábær staða sem við deilum með Norðmönnum. Sem dæmi þá nota Þjóðverjar 30-40 sinnum meira af sýklalyfjum en Ísland, en við flytjum einna mest inn af kjötvöru frá Þýskalandi.
 
Eins og fram kom í skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðar­ráðherra um Matvælastofnun árið 2016-2017, þá er um 60% af öllum smitsjúkdómum manna upprunnin í dýraríkinu og um 75% af öllum nýjum sjúkdómum er upprunnin frá dýraríkinu. Þetta skiptir því verulega miklu máli í þessari umræðu. Þetta er ekki hræðsluáróður, þetta eru niðurstöður rannsókna.
 
Læknafélagið vill stíga varlega til jarðar
 
Þann 22. maí 2019 kom fram eftirfarandi áhyggjuefni í umsögn Læknafélagsins við frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðarráðherra þar sem lagt er til að heimilt verði að flytja inn ófryst kjöt til landsins: „Læknafélagið dregur enga dul á áhyggjur sínar af fyrirhuguðum innflutningi og biður stjórnvöld að stíga varlega til jarðar. Hætt sé við og næsta víst að afnám frystiskyldu auki líkurnar á því að fjölónæmar og nær alónæmar bakteríur berist hingað til lands með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lýðheilsu, menn og bústofna.“
 
Læknafélagið bendir á að hlutfall þessara baktería hér á landi sé með því lægsta sem þekkist og útbreiðsla þeirra víðast hvar í heiminum áhyggjuefni.
 
Rök Félags atvinnurekenda, eins og þau birtast fyrir því að við ættum ekki að hafa áhyggjur af auknum innflutningi á ófrosnu kjöti, eru að hingað berist sjúkdómar með ferðamönnum, Íslendingum sem ferðast erlendis og vegna bágs ástands í frárennslismálum. Vandinn sé því víða. (Ólafur Stephensen í viðtali á Hringbraut þann 16. maí 2019). 
 
Má því skilja á Félagi atvinnurekenda að þar sem hættuna er að finna annars staðar, þá sé allt í lagi að bera hana hingað með innflutningi. Er það ábyrg afstaða Félags atvinnurekenda að líta svo á að í ljósi þess að þessi ógn sé að koma frá fleiri stöðum, þá eigum við ekki að taka ábyrga afstöðu í innflutningi á kjötvörum?! Hér finnst mér Félag atvinnurekenda minna mjög á efasemdarmenn um hnattræna hlýnun.
 
Það er alveg ljóst og allir eru sammála um að hættan sem fylgir fjölónæmum og alónæmum bakteríum er fyrir hendi. Þessi hætta er viðurkennd á heimsvísu. Vissulega er engin í bráðri lífshættu hér á landi, ekki frekar en vegna hnattrænnar hlýnunar, en þetta er samt sem áður viðurkennd ógn sem þarf að girða fyrir strax. Þar er innflutningur matvæla stórt atriði. Því þarf að reyna að takmarka þessa hættu eins og kostur er. Þörfin til að flytja inn valdar matvörur er fyrir hendi og í því ljósi ættum við að einbeita okkur að þeim vörum sem við, sem þjóð, eigum ekki kost á að framleiða sjálf. Um leið að standa vörð um kolefnisspor matvæla okkar. Samhliða því er eðlilegt og mikilvægt að það séu sömu kröfur gerðar til innfluttra matvæla og þeirra sem framleiddar eru hér á landi. Því ættum við að gera minni kröfur til matvæla sem fluttar eru inn frá Evrópu en til okkar eigin framleiðslu hér á landi?
 
Það er von FESK að hægt sé að ræða þessi mál með málefnalegum hætti og að aðilar sem að málinu koma horfi til mikilvægari og lengri tíma hagsmuna en á fjórðungsuppgjör valdra félagsmanna FA. Slík nálgun er viðskiptavinum, landsmönnum og þjóðinni til heilla. 
 
Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...