Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Ánægðir neytendur með vörur sínar á Akranesi.
Ánægðir neytendur með vörur sínar á Akranesi.
Mynd / REKO Vesturland
Fréttir 14. nóvember 2018

Matvælaframleiðendur afhenda vörur milliliðalaust til neytenda

Höfundur: smh
Fyrsta afhending úr svokölluðum REKO-hópum, sem eru starf­ræktir á Facebook, var laugar­daginn 13. október. Um milliliða­laus viðskipti er að ræða á milli smáframleiðenda matvæla – eða bænda – við neytendur. Næstu afhendingar verða 17. nóvember á bílaplani Krónunnar á Akranesi milli klukkan 11 og 12 og á bílaplani Krónunnar í Lindum milli klukkan 14 og 15.
 
Um tvo hópa er að ræða; REKO Vesturland og REKO Reykjavík – og áttu neytendur stefnumót við framleiðendurna á bílaplani Krónunnar á Akranesi annars vegar og á bílaplani Krónunnar í Lindum Kópavogs hins vegar. Meðlimir í þessum hópum sem voru mættir á afhendingarstaðinn höfðu þá þegar lagt inn pantanir hjá framleiðendunum og greitt fyrir með rafrænum hætti.  
 
Kristján Þór Júlíusson, sjávar­útvegs- og landbúnaðarráðherra, var í hópi neytenda sem hafði lagt inn pöntun í Reykjavíkurhópnum og var mættur til að taka við vörum úr hendi framleiðanda síns. Hann ræddi við framleiðendur og aðra þá sem voru mættir á svæðið. Að sögn skipuleggjendanna gekk afhendingin hratt og vel fyrir sig og fóru neytendur, framleiðendur og skipuleggjendur ánægðir heim.
 
Smáframleiðendurnir færast ofar í virðiskeðjunni
 
Tilgangurinn með REKO er að efla nærsamfélagsneyslu og færa framleiðendur og kaupendur nær hver öðrum; gera matarhandverki og heimavinnslu hærra undir höfði og færa smáframleiðendur ofar í virðiskeðjunni.
 
REKO er tekið úr sænsku og er stytting á „vistvænir og heiðarlegir viðskiptahættir“. Fyrir­myndin kemur frá Finnlandi og hefur verið að ryðja sér til rúms á Norðurlöndunum og á meginlandi Evrópu. Matarauður Íslands – í samvinnu við Bændasamtök Íslands – hefur unnið að því að koma REKO-hugmyndafræðinni af stað hér á landi og eru fleiri hópar að myndast um land allt.
 
Næstu afhendingar um næstu helgi
 
Síðasta afhending úr REKO-hópunum var við Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði 3. nóvember. Næsta afhending verður svo laugardaginn 17. nóvember á bílaplani Krónunnar á Akranesi milli klukkan 11 og 12 og sama dag verður afhending hjá REKO Reykjavík á bílaplani Krónunnar í Lindum milli klukkan 14 og 15.
 
Sérstakur viðburður er stofnaður í kringum hvern afhendingardag innan hvers REKO-hóps og bjóða framleiðendur vörur sínar til sölu með stöðufærslu inn í viðburðinum. Áhugasamir senda þeim svo skilaboð þar sem þeir tilgreina hvað þeir vilji kaupa; annaðhvort með athugasemdum við færslurnar eða í einkaskilaboðum. Vörur eru ekki til sölu á staðnum því þetta er eingöngu afhending á fyrirfram pöntuðum og greiddum vörum – en ekki markaður. Allir matvælaframleiðendur með starfsleyfi hafa leyfi til að selja vörur sínar í gegnum þessa hópa. 
 
Arnheiður Hjörleifsdóttir, stjórnandi REKO Reykjavík, og Hlédís Sveins­dóttir, stjórnandi REKO Vesturland, við Krónuna á Akranesi.
 
Arnheiður Hjörleifsdóttir er bóndi á Bjarteyjarsandi á Hvalfjarðarströnd og kom færandi hendi með vörur á bílastæði Krónunnar á Akranesi.
 
Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f