Maríus Presthólabóndi og Rosi frá Ketilsstöðum ótvíræðir sigurvegarar
Landsmót Smalahundafélags Íslands (SFÍ) var haldið á Presthólum í dandala blíðu 23. til 24. ágúst síðastliðinn. Keppnin var spennandi og jöfn en ótvíræðir sigurvegarar voru Maríus Presthólabóndi og Rosi frá Ketilsstöðum.
Það kom í hlut Austurlandsdeildar SFÍ að hafa umsjón með mótinu í ár. Þetta var í 30. skipti sem Landsmót SFÍ er haldið, en það hefur verið haldið á hverju ári frá 1994 fyrir utan eitt Covid-ár, segir í fréttatilkynningu.
Aðstaðan á Presthólum var til fyrirmyndar og keppendur og velunnarar hjálpuðust að við að láta allt ganga upp í skipulagningu og framkvæmd mótsins.
Brautirnar reyndu þó nokkuð á hundana, sérstaklega í úthlaupinu í A-flokki fyrri daginn, en það var vítt til veggja og blint á köflum. Kindurnar voru verulega góðar og jafnar milli keppenda sem er afar mikilvægt í svona keppni.
Allir hundarnir fengu tvö rennsli, eitt hvorn dag, og giltu samanlögð stig til úrslita. Í ár var sú nýbreytni að brautirnar voru færðar til milli daga þannig að hundarnir fóru í alveg nýja braut á degi tvö.
Dómari var Tim Thewissen frá Wales og í kjölfarið á keppninni kenndi hann á vel sóttu námskeiði í þjálfun Border Collie-fjárhunda.
Úrslit í A-flokki
Maríus Snær Halldórsson og Rosi frá Ketilsstöðum -160 stig (74+86)
Maríus Snær Halldórsson og Míla frá Hallgilsstöðum - 143 stig (58+85)
Aðalsteinn Aðalsteinsson og Biff frá Englandi - 138 stig (72+66)
Elísabet Gunnarsdóttir og Ása frá Ketilsstöðum - 134 stig (65+69)
Aðalsteinn Aðalsteinsson og Gló frá Húsatóftum – 116 stig (46+70)
Elísabet Gunnarsdóttir og Ripely frá Írlandi – 115 stig (45+70)
Sverrrir Möller og Grímur frá Ketilsstöðum – 86 stig (43+43)
Edze Jan De Haan og Seimur frá Dalatanga – 64 stig (18+46)
Marzibil Erlendsdóttir og Snúður frá Hjartarstöðum – 13 stig (13+ógilt)
Unghundaflokkur:
Sverrir Möller og Ás frá Hóli – 132 stig (60+72)
B-flokkur:
Björgvin Sigurbergsson og Fenrir frá Presthólum – 109 stig (42+67)
Edze Jan De Haan og Pollý frá Miðfjarðarnesi – 52 stig (Hætti+52)
