Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Fjölmennt var á Umhverfisþingi og þótti vel hafa tekist til.
Fjölmennt var á Umhverfisþingi og þótti vel hafa tekist til.
Mynd / Sigurjón Ragnarsson
Fréttir 29. september 2025

Málin rædd á jafningjagrundvelli

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Nýafstaðið Umhverfisþing varð frjór jarðvegur samtals og hugmynda þar sem rætt var um heilsu hafsins, líffræðilega fjölbreytni og loftslagmál.

Á nýliðnu umhverfisþingi voru fyrstu skrefin tekin með hringborðsumræðum til að móta og undirbyggja loftslagsstefnu fyrir Ísland. Meginþemu þingsins voru hafið, líffræðileg fjölbreytni og loftslagsmál og umfjöllun ýmist í formi vinnustofa, fyrirlestra eða pallborðsumræðna. Þingið var vel sótt og beinir þátttakendur fjölmargir.

            ,,Ég er mjög hrifinn af því formi sem Umhverfisþingið er sem er blanda af fræðslu, almennri umræðu og síðan vettvangur þar sem öllum aðilum er gefinn kostur á að ræða málin á jafningjagrundvelli í hópavinnu,“ segir Hilmar Vilberg Gylfason, sérfræðingur í sjálfbærni hjá BÍ. Aldrei verði of mikil áhersla lögð á mikilvægi þess að allt það góða fólk sem vinnur að umhverfis- og loftslagsmálum, hvort sem er hjá stjórnvöldum, hagsmunasamtökum eða í öðru störfum, fái vettvang til að ræða saman.

„Það eyðir tortryggni og eykur skilning á ólíkum sjónarmiðum. Á þessu umhverfisþingi upplifði ég mikla jákvæðni í garð íslensks landbúnaðar. Bæði gagnvart því mikla starfi sem bændur hafa unnið í málaflokknum síðustu áratugi en ekki síður þeirri vegferð sem bændur hafa sjálfir ákveðið til framtíðar, sem er að vinna áfram með það einfalda en góða markmið að halda áfram að ná góðum árangri. Grunnstefið á þeirri vegferð er raunhæfar og skynsamlegar aðgerðir. Ég hvet síðan alla sem áhuga hafa til að kynna sér Loftslagsvegvísi bænda en þar hefur félagskerfi bænda lagt grunn að þeirri vinnu sem er fram undan í loftslagsmálum,“ segir Hilmar jafnframt.

Stórfyrirtæki og ríkisstjórnir

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sagði í samtali við Ingibjörgu Þórðardóttur á Umhverfisþingi að stórfyrirtæki og ríkisstjórnir gegni stærstu hlutverki í að leysa loftslagsvána, vernda heilsu hafsins og stuðla að umhverfisvernd almennt. Einstaklingar geti í sjálfu sér lítið gert ef stjórnvöld og stórfyrirtæki axli ekki sína ábyrgð.

Hún minntist einnig á að nýtt breytingaafl hefði nú komið inn á sviðið, úr nokkuð óvæntri átt. Endurskoðendur víða um heim hafi á sínum tíma sameinast um að samræma hvernig fyrirtæki gera upp fjárhagsupplýsingar sínar, til að efla gagnsæi og samræmi þvert á landamæri. Nú hafi þeir gert gangskör að því að stækka skilgreiningu á árangri og samræma hvernig fyrirtæki á alþjóðavísu gefi upplýsingar með gegnsæjum hætti um áhrif sín á umhverfi og samfélag, undir skammstöfuninni ISSB. Langflestar þjóðir skoði nú, eða hafi byrjað að innleiða lög og reglur um að fyrirtæki, í það minnsta yfir ákveðinni stærð, þurfi að setja þetta inn í upplýsingagjöf sína. Sagði Halla þetta eiga eftir að hafa gríðarleg áhrif til hins betra.

COP-ráðstefnur missa marks

Hún nefndi einnig nokkuð sem er farið að verða áberandi í umræðunni, en það er hvort m.a. hinar stóru loftslagsráðstefnur missi orðið marks.

„Ég hef farið á margar COP-ráðstefnur og held að við þurfum að ræða af einhverri alvöru hvort þetta þjóni tilgangi sínum og við að ná árangri með þeim aðferðum sem við notum til þess að skila þessum alþjóðlegu skuldbindingum til næstu kynslóða.

Mín upplifun af COP er að stjórnvöld hittast á einum stað, dálítið fyrir aftan svört tjöld, það veit enginn almennilega hvað er að gerast þar, mikið er tekist á um eitt og eitt orð í samkomulaginu og það fer oft ótrúlegur tími á lokasprettinum í að ræða jafnvel bara tvö eða þrjú orð. Atvinnulífið er með bása á vörusýningu að segja hvað þau eru að gera frábæra hluti og ungt fólk, aktívistar, umhverfissinnar og aðrir eru á götum úti með mótmælaspjöld. Ég hef ekki mikla trú á að þetta sé að skila þeim árangri sem þarf.

Ég vil að við reynum að ræða um hvernig við eigum þetta samtal: stjórnvöld, atvinnulíf og þriðji geirinn, og þar á unga fólkið að eiga sín sæti við borðið, ekki til sýnis heldur sem alvöru þátttakendur. Ég held að slík nálgun myndi skila okkur miklu meiru,“ sagði Halla enn fremur.

Stefnt í aldauðaatburð

Thomas Halliday, fornlíffræðingur, steingervingafræðingur og höfundur bókarinnar Otherlands: A World in the Making, vakti mikla athygli með erindi sínu þar sem hann bar saman stóra aldauðaatburði (e. mass extinction)  í jarðsögunni við þau hnattrænu ferli sem komin eru í gang nú vegna hlýnunar jarðar. Hann sagði það sem væri að gerast nú á margan hátt líkjast stórum aldauðaatburðum fyrri tíma, ekki síst fyrir 250 milljónum ára þegar aldauði varð í lok Perm-tímabilsins, síðasta skeiðs fornlífsaldar, vegna gríðarmikillar eldvirkni á svæðinu þar sem nú er Síbería. Þá var svokallaður heitur reitur, möttulstrókur, undir því svæði og kvika vall beint úr möttli jarðar í víðtækum og langvinnum eldgosum. Auk sjö milljóna rúmkílómetra hraunrennslis losnaði þá gífurlegt magn af gróðurhúsalofttegundum, súlfati og kvikasilfri út í andrúmsloftið. Hafi þetta haft viðlíka áhrif og mannkynið valdi nú á Jörðinni og að það gangi jafnframt hraðar fyrir sig.

Eldsumbrotin í Síberíu losuðu að meðaltali fimm gígatonn af koldíoxíði á ári í 40 þúsund ár, að sögn Hallidays. Í fyrra hafi mannkyn á heimsvísu losað 37,8 gígatonn af koldíoxíði. Það sé sjö- til áttfalt meira en í umræddum aldauðaviðburði.

„Aldauði er vistkerfishrun, allt annað í heiminum myndi deyja út og eitthvað annað koma í staðinn. Líf heldur áfram en líf eins og það er í dag hyrfi. Milljónir ára tekur endurheimta líf,“ sagði Halliday. Öll gögn sýni að haldi áfram sem horfi stefni mannkyn í átt að útrýmingu allra lífvera jarðar, sjötta aldauðann, og þeir sem haldi öðru fram segi annað hvort ósatt eða skorti einfaldlega þekkingu.

Eina leiðin til að bjarga því sem bjargað verði sé að draga stórkostlega úr losun gróðurhúsalofttegunda og vernda land- og hafgæði. Vísindin hafi lagt fram þekkinguna á því sem sé að gerast en það sé á ábyrgð ríkisstjórna og fólksins sem þær starfa fyrir hvernig aðgerðir verði útfærðar.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...