Magnað krækiberjaár
Krækiber virðast hafa yfirhöndina um allt land þetta berjaárið. Aðalbláber eru misþroskuð eftir svæðum og ber á skemmdum. Bláber eru í meðallagi eða lítil, eftir svæðum.
Stundum er sagt að gott vor gefi vísbendingu um góða berjasprettu. Þegar horft er yfir landið virðist heilt yfir sem víðast sé svart af bústnum krækiberjum frá fjöru til fjalls en misjafnar gæftir af öðrum berjum eftir svæðum. Hvarvetna má sjá tínslufólk í móum og er uppskeran ríkuleg.
Á Snæfellsnesi er í meðallagi mikið af krækiberjum og eru þau safarík og hnellin. Töluvert er þar líka af aðalbláberjum, á völdum stöðum, og þau stór og gómsæt. Þar hefur borið á brúnum uppþornuðum berjum og er sveppasýkingu kennt um.
Á Vestfjörðum er sögð vera mikil uppskera af aðalbláberjum og enn meira af stórum og safaríkum krækiberjum. Hið sama má segja um Strandir þar sem gríðarmikið er af krækiberjum og jafnframt góð aðalbláberjaspretta, þótt hún sé ekki sögð komast í hálfkvisti við krækiberin.
Fljótt fór að bera á skemmdum
Við Húnaflóa eru krækiberin orðin góð og talsvert meira af þeim en bláberjum í ár. Sömu sögu er að segja úr Skagafirði þar sem mikið er af krækiberjum en minna af bláberjum og þau þurfi að stækka meira til að verða góð. Eitthvað er þar einnig af aðalbláberjum. Svipað er uppi á teningnum víðar á Norðurlandi, gríðargóð uppskera af krækiberjum. Svo virðist sem berjaspretta sé ágæt á Norðurlandi yfirleitt en berin misþroskuð eftir svæðum.
Úr Svarfaðardal berast fregnir af geysigóðri krækiberjasprettu. Þar er og mikið af aðalbláberjum en þau mjög misjöfn að stærð og gæðum, sum stór en önnur lítil. Mjög fljótt fór að bera á skemmdum berjum og víða eru þau brún og krumpuð þannig að henda þarf allt að þriðjungi uppskerunnar. Bláberin komu þar mjög seint og víða er lítið af þeim, en þau ágæt sem finnast. Sömu sögu er að segja frá Húsavík og nágrenni en þar ber ekki eins mikið á skemmdum aðalbláberjum.
Fín hrútaberjaspretta
Á Fljótsdalshéraði er líka mikið af stórum og safaríkum krækiberjum en í ár ber svo við að langminnst er af aðalbláberjum, þau lítil og erfitt að finna þau. Í meira lagi er af bláberjum en þau mjög misþroska eftir stöðum. Hrútaberjaspretta er með besta móti. Tekið er til þess að á Austurlandi hafi spretta berja, eins og annars gróðurs, verið um eða yfir tveimur vikum fyrr á ferð en í meðalári. Fari þar saman hlýr maí og votviðrasamur júní.
Í Mjóafirði er mikið af krækiberjum og bláberjum og sama má segja um Djúpavog þar sem allt er svart af krækiberjum og þar einnig ríkuleg bláber.
Á Suðurlandi er talsvert af berjum, einkum þó krækiberjum eins og víðast, en takmarkað af bláberjum og lítið af aðalbláberjum.
Umhverfis höfuðborgarsvæðið er nóg af berjum, einkum krækiberjum og bláberjum en einnig er eitthvað af aðalbláberjum og hrútaberjum, að sögn fróðra. Til að mynda er allt svart af krækiberjum í Mosfellsdal. Þá hefur krækiberjaspretta verið með besta móti á Reykjanesinu í sumar.
Berjakunnugir tala einnig um að eitthvað hafi fundist af aðalberjum sem einnig eru m.a. kölluð lýsuber, glæningjar, glansber eða svört aðalbláber.
Því eru allir sem vettlingi geta valdið á þönum í móunum við berjatínslu og keppast við áður en næturfrost taka að herja á berjalöndin.
