Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Axel Sæland
Axel Sæland
Fréttir 15. september 2025

Lög um raforkuöryggi mikilvæg til lengri tíma litið

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar Bændasamtaka Íslands, segir að frumvarp um raforkuöryggi sem samþykkt var á Alþingi í júlí sé hugsað til framtíðar og breyti engu til skamms tíma fyrir garðyrkjubændur.

Í grundvallaratriðum gengur frumvarpið út á að vernda heimili og samfélagslega mikilvæga innviði ef til skömmtunar kemur á raforku. Í frumvarpinu er „viðráðanlegu verði“ einnig bætt við skilgreiningu á „raforkuvinnslu“ í raforkulögum.

Raforka á opnum uppboðsmarkaði

Í viðtali við Ríkisútvarpið útskýrði Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra merkingu ákvæðisins á þann veg að ekki sé nóg að heimili hafi aðgang að raforku heldur þyrftu þau líka að hafa efni á henni. Ef of öfgafullar sveiflur yrðu í orkuverði þá gæti það kallað á sértækar stjórnvaldsaðgerðir. Um ákveðna viljayfirlýsingu væri að ræða hjá löggjafanum um að vilji sé til þess að Ísland sé samfélag þar sem heimili og fyrirtæki hafi aðgang að rafmagni á lágu verði.

Frá því í apríl á síðasta ári hefur raforka verið á opnum uppboðsmarkaði, hjá fyrirtækinu Vonarskarði, og í gegnum það kaupa sölufyrirtæki raforku og selja í smásölu til heimila og fyrirtækja.

Axel segir að garðyrkjubændur þurfi að keppa um orkuna á þeim vettvangi, en vegna þess að eftirspurn eftir raforku hefur vaxið mjög á síðustu misserum hefur raforkuverð til bænda einnig hækkað verulega. „Flestir ef ekki allir ylræktarbændur sem eru með vaxtarlýsingu eru með samninga í dag, sem tryggir þeim raforku á tilteknu verði og því snerta nýju lögin þá ekki beint í dag.“

Raforkuöryggi garðyrkjubænda

„Sumir bændur þurfa að endursemja um áramótin meðan aðrir eru með tveggja ára samning. Grunnurinn í lögunum er sá að raforkusalar verða að bjóða orku til sölu. Ef ég skil lögin rétt þá er ekki kveðið á um það hvað er sanngjarnt verð á raforku eða hvernig eigi að koma því á. Meira tilmæli til orkusalanna. Það mun þurfa mun öflugri lög ef það á að festa verðin á raforkunni til almennings og fyrirtækja,“ heldur Axel áfram.

„Þetta frumvarp er þó mun mikilvægara en fólk gerir sér almennt grein fyrir og ekki bara fyrir garðyrkjuna. Því áður en þessi lög voru samþykkt gátu orkusalar í raun selt raforkuna hvert sem er og hverjum sem er.

Núna ber þeim að hafa almenna markaðinn í forgrunni og geta skaffað raforku á hann. Sem þýðir að ef garðyrkjubóndi óskar eftir raforku á hann rétt á henni.“

Raforkuverði haldið niðri

Lögin um raforkuöryggi voru hugsuð sem fyrsta skrefið í því að fylgja eftir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að almenningi sé tryggður forgangur að raforkukerfinu.

Í áðurnefndu viðtali í Ríkisútvarpinu sagði Jóhann Páll að ætlunin væri að stíga seinna skrefið nú í haust með frumvarpi þar sem markmiðið yrði beinlínis að halda niðri raforkuverði til heimila og fyrirtækja.

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f