Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Mynd / sá
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar sem fjárhagslegur grundvöllur er brostinn. Verið er að slátra um 30.000 dýrum. Eitt lítið bú verður eftir í landinu, hjá eldri bónda í Mosfellssveit.

Björn Harðarson í Holti I, formaður deildar loðdýrabænda hjá Bændasamtökum Íslands, segir fimm af sex loðdýrabúum á Íslandi nú leggjast af. „Við erum fimm loðdýrabændur á Suðurlandi sem erum að hætta. Það er af fjárhagsástæðum má segja, þetta gengur bara ekki upp lengur,“ segir hann. Minkaeldið hafi verið rekið með tapi og nú sé sjálfhætt. „Það er kominn tími til að gera eitthvað annað við tímann og peningana,“ bætir hann við.

Slæm afkoma hefur verið í greininni um margra ára skeið og hljóðið verið þungt í minkabændum til lengri tíma. Skinn hafa selst langt undir kostnaðarverði meira eða minna sl. áratug. Loðdýrabændur á Suðurlandi hafa átt og rekið Fóðurstöð Suðurlands í sameiningu, þar sem lífrænn úrgangur, einkum úr matvælavinnslu, er unninn í minkafóður. Fór ársframleiðsla í 3.300 tonn þegar mest var, á fyrri hluta síðasta áratugar, en reksturinn á fóðurstöðinni hefur verið þungur síðustu árin. „Það er ekki hægt að reka fóðurstöð lengur og búið að reka þetta með tapi í nokkur ár,“ segir Björn.

Árið 2023, þegar átta loðdýrabú voru starfrækt hérlendis, töluðu loðdýrabændur opinskátt um að lítil von væri til að unnt yrði að halda starfseminni áfram að óbreyttu. Búin stæðu í raun á brauðfótum. Það sama ár lagðist stærsta búið af.

Skv. Birni varð það sameiginleg niðurstaða búanna fimm nú í vetrarbyrjun að leggja fóðurstöðina af og hætta minkaeldi. „Við erum að pelsa allt niður,“ segir hann og á þá við að verið er að slátra öllum eldisdýrunum um þessar mundir. „Grunnurinn var u.þ.b. 6.000 læður og úr því komu á milli 24.000 og 25.000 hvolpar,“ útskýrir hann. Má því reikna með að verið sé að slátra um 30.000 dýrum í allt.

Um það hver fjárhagsleg staða loðdýrabændanna sé við það að hætta minkaeldi segir Björn sjálfsagt allan gang á því. Einhverjar skuldir verði eftir hjá sumum, þótt hann sé sjálfur ekki í þeirri stöðu.

„Auðvitað er eftirsjá að loðdýraeldi í landinu. Það er bara of dýrt að framleiða þessi skinn hér og markaðsverð hefur ekki hækkað það mikið að það borgi sig. Við höfum getað losnað við skinnin en á undirverði. Eitt árið seldist þó ekki nema helmingurinn af þeim. En núna seljum við skinnin á næsta ári og það borgar vonandi fóðurskuldir þessa árs. Við erum bara búin að þreyja þorrann svo lengi og bíða eftir hækkunum að við erum búin að fá nóg,“ segir Björn.

Því lítur út fyrir að senn verði aðeins eitt minkabú í landinu, Dalsbúið í Helgadal í Mosfellssveit. Sá minkabóndi hefur sjálfur framleitt fóður í sína minka og er því ekki háður fóðurstöðinni, sem væntanlega leggst nú af.

– Sjá nánar á síðu 2 í nýju Bændablaði

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...