Á Íslandi er ekki vöktun á varnarefnum sem mest eru í notkun nú (t.d. glýfósat, klórtalóníl og folpet) í andrúmslofti eða úrkomu og því ekki ljóst um styrk þeirra. Til þess þyrfti að fara fram markviss sýnasöfnun og greining. Mynd / Pixabay
Á Íslandi er ekki vöktun á varnarefnum sem mest eru í notkun nú (t.d. glýfósat, klórtalóníl og folpet) í andrúmslofti eða úrkomu og því ekki ljóst um styrk þeirra. Til þess þyrfti að fara fram markviss sýnasöfnun og greining. Mynd / Pixabay
Mynd / Pixabay
Fréttir 10. nóvember 2025

Lítil ummerki varnarefna í lofti yfir Íslandi

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Veðurstofan hefur vaktað ýmis efni í úrkomu og lofti á Stórhöfða í Vestmannaeyjum síðan árið 1995. Hverfandi lítið finnst af mældum varnarefnum. Þau varnarefni sem mest eru notuð nú um stundir eru þó ekki vöktuð.

Veðurstofa Íslands hefur fyrir hönd umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og í gegnum samning við Umhverfis- og orkustofnun, annast vöktun á þungmálmum og þrávirkum lífrænum efnum í tæp 30 ár í samræmi við alþjóðlega samninga um langt að borna mengun (e. Convention on Long-range Transboundary Air Pollution/CLTRAP) og sáttmála sem Ísland er aðili að (AMAP/EMEP/ OSPAR). Efnin eru fyrst og fremst álitin berast með lofthjúpnum að Íslandsströndum erlendis frá.

Grafið sýnir breytileika á styrk nokkurra þrávirkra lífrænna efna í andrúmslofti á Stórhöfða frá árinu 2000. Graf / Veðurstofa Íslands

Melissa Anne Pfeffer, sérfræðingur á sviði ösku- og efnadreifingar, Svava Björk Þorláksdóttir, sérfræðingur á sviði vatnafræði, og Ingibjörg Þórðardóttir, sérfræðingur í grunnvatni, allar hjá Veðurstofu Íslands, segja markmið mælinganna, sem framkvæmdar eru á Stórhöfða, að vakta bakgrunnsstyrk skilgreindra efna í og við Ísland. Gegnir vöktunin veigamiklu hlutverki í að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands hvað ofangreinda samninga varðar.

„Þrávirk lífræn efni á borð við DDT-niðurbrotsefni (DDE/DDD), HCH og HCB mælast í íslensku andrúmslofti í mjög lágum styrk sem er sambærilegt við það sem almennt sést á norðurslóðum. Engin viðmiðunarmörk hafa verið sett fyrir leyfilegan styrk ofangreindra efna í andrúmslofti hjá Evrópusambandinu en reglusetning um takmörkun á dreifingu þeirra hefur einkum beinst að því að banna framleiðslu og losun,“ útskýra þær Svava, Ingibjörg og Melissa. Mengunarmálin heyra undir úrvinnslu- og rannsóknasvið Veðurstofunnar.

Gögnin eru send í evrópskan gagnagrunn sem Norska loftrannsóknastofnunin, NILU, hýsir. Einnig til OSPAR, sem er samningur um vöktun NA-Atlantshafs. Þær segja þó að úrkomusýnatöku á Stórhöfða hafi verið hætt árið 2021.

Líklega geyma skýin yfir Íslandi hverfandi magn af landbúnaðarvarnarefnum en á meginlandi Evópu er raunin önnur. Mynd / Pixabay

Mest notuðu efnin ekki vöktuð

Bændablaðið fjallaði á dögunum um nýja fransk-ítalska rannsókn sem sýndi mikinn styrk landbúnaðarvarnarefna í skýjum yfir löndunum. Þar á meðal illgresiseyðis, skordýraeiturs, sveppaeiturs og niðurbrotsefna þeirra, sem falla til jarðar með úrkomu. Kom gífurlegt magn efnanna rannsakendum mjög á óvart

„Evrópska rannsóknin tók einkum á þeim varnarefnum sem eru í notkun núna (t.d. glýfósat, klórtalóníl og folpet) en vöktun á þeim efnum er ekki hluti af núverandi vöktun hér á landi. Til þess að geta sagt til um styrk þeirra í andrúmslofti og/eða úrkomu þarf að fara fram markviss sýnasöfnun og greining,“ segja Ingibjörg, Svava og Melissa enn fremur og benda jafnframt á að mörk fyrir varnarefni í drykkjarvatni sem var vísað til í umfjölluninni eigi við vatn en ekki loft.

Natasa Desnica, fagstjóri efnamælinga hjá Matís, segir ekki hafa verið gerðar sérstakar rannsóknir á styrk varnarefna eingöngu í lofti yfir Íslandi.

„Ein leið til að meta stöðuna er að framkvæma mælingar. Það sem vitað er, er að varnarefni hafa verið notuð hér á landi, og listi yfir efni sem flutt eru inn er að finna á vef Umhverfisstofnunar. Eftir því sem ég best veit hefur notkun efnanna, og styrkur þeirra í jarðvegi, ekki verið kortlögð. Þar sem mjög margt getur haft áhrif á dreifingu þessara efna í andrúmslofti, er ómögulegt að áætla stöðuna án mælinga,“ segir Natasa.

Í evrópsku rannsókninni kom m.a. fram að miklu meira magn notaðra landbúnaðarvarnarefna berist í andrúmsloftið en áður hafði verið talið. Einnig bærust þau langar leiðir og gætu fallið til jarðar með úrkomu fjarri upprunastað. Þannig má ætla að eitthvað berist mögulega með skýjum yfir Ísland af langt að komnum varnarefnum sem notuð hafa verið í öðrum löndum, og einnig að einhver hluti þeirra varnarefna sem notuð eru hérlendis berist mögulega í andrúmsloftið.

Notkun í landbúnaði

Helgi Jóhannesson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, segir erfitt að meta hvort notkun plöntuvarnarefna í landbúnaði hafi aukist eða rénað, þar sem ekki liggi fyrir áreiðanlegar tölur þar um. Honum sýnist þó í fljótu bragði að notkun illgresiseyða sé svipuð nú og undanfarin ár, en færri efni í boði. Meira sé notað af sveppalyfjum í kartöfluræktun vegna hættu á kartöflumyglu og sé það breyting frá fyrri árum.

Varnarefni séu mjög lítið notuð í gróðurhúsum í grænmetisrækt, þar séu aðallega nýttar lífrænar varnir. Varðandi gróðurhús og blóm sé notkun plöntuvarnarefna svipuð eða minni en áður, færri efni í boði og meiri lífrænar varnir. Helgi segist ekki vita um hvað nýtt sé af varnarefnum í skógarplöntum, lítið sé af efnum í boði fyrir þann geira og kannski lítil þörf fyrir úðun.

Innflutningur dregist saman

Í úttekt á tollafgreiðslu plöntuverndarvara 2024, sem Umhverfisog orkustofnun (UOS) vann, er reynt að leggja mat á hve mikið af plöntuverndarvörum berast til landsins árlega. Skoðaðir voru fjórir tollflokkar:

3808.9102: Skordýraeyðir sem plöntulyf (plöntuverndarvara)

3808.9202: Sveppaeyðir sem plöntulyf (plöntuverndarvara)

3808.9300: Illgresiseyðir (plöntuverndarvara)

3808.9309: Annað

Samkvæmt úttektinni fengu sex fyrirtæki tollafgreiddar plöntuverndarvörur á árinu.

„Alls voru tollafgreidd 10 tonn af plöntuverndarvörum á árinu 2024 og dróst magnið saman á milli áranna 2023 og 2024 um 28% (Mynd 1). Gögn sem UOS (áður Umhverfisstofnun) hefur tekið saman um tollafgreiðslu á plöntuverndarvörum fyrir árin 20092024 sýna þá þróun að innflutningur hefur dregist saman frá árinu 2009. Talsverðar sveiflur eru þó milli ára. Meginástæður þess eru að fluttar eru inn stórar sendingar af vörum sem tekur nokkur ár að selja eða að upp koma vandamál í plöntuvernd sem kalla á aukna notkun plöntuverndarvara til að koma í veg fyrir tjón eða uppskerubrest,“ segir í úttektinni.

MYND 1 Tollafgreiðsla á plöntuverndarvörum árin 2009–2024. Graf / UOS

Fram kemur að af þeim plöntuverndarvörum sem fluttar voru inn árið 2024 reyndust 67% vera illgresiseyðar og stýriefni, en 33% skordýra-, lindýra- og sveppaeyðar. Illgresiseyðar voru stærsti hluti plöntuverndarvara á markaði á árinu 2024. Innflutningur á plöntuverndarvörum á árinu 2024 var undir áhættuvísi vegna innflutnings plöntuverndarvara í kg alls (12.000 kg/ári) sem settur er fram í Aðgerðaáætlun um notkun plöntuverndarvara 2016–2031.

Aukning í virkum efnum

„Þegar meta á áhrif plöntuverndarvara á heilsu og umhverfi gefur magn virkra efna mun betri vísbendingar um raunverulegt álag heldur en heildarmagn af vörum sem sett er á markað. Þar sem styrkur virku efnanna í plöntuverndarvörum liggur alltaf fyrir er hægt að reikna út hve ákveðið heildarmagn af vöru samsvarar miklu magni af virkum efnum. Sé það reiknað út fyrir innflutning ársins 2024 kemur í ljós að innflutningur á virkum efnum nam um 2.417 kg og er það 34% aukning frá fyrra ári.

MYND 2 Tollafgreiðsla á plöntuverndarvörum árin 2009–2024 í kg af virkum efnum. Graf / UOS

Á Mynd 2 má sjá að innflutningur á plöntuverndarvörum mældur í kg af virkum efnum hefur smám saman dregist saman frá 2009, þó svo að innflutningur hafi aukist lítillega aftur á undanförnum fjórum árum.

Áhættuvísir vegna innflutnings á plöntuverndarvörum í kg af virku efni er 3.000 kg af virku efni á ári samkvæmt Aðgerðaáætlun um notkun plöntuverndarvara 2016–2031. Frá árinu 2017 hefur innflutningur verið undir áhættuvísinum þrátt fyrir að hafa ekki verið undir áhættuvísi vegna heildarmagns innfluttra plöntuverndarvara nema hluta þess tímabils, sbr. Mynd 1,“ segir enn fremur í úttekt á tollafgreiðslu plöntuverndarvara 2024.

Mikill samdráttur hafi verið í innflutningi á plöntuverndarvörum til almennrar notkunar undanfarin ár, sbr. Mynd 2. Töluvert sé um að sendingar séu rangt tollflokkaðar sem plöntuverndarvörur og eigi það sérstaklega við um smærri sendingar til einstaklinga og fyrirtækja annarra en þekktra innflytjenda plöntuverndarvara. 

_________________________________

Stokkhólmssamningurinn

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, vann ásamt Davíð Egilson á sínum tíma að samningaviðræðum sem leiddu til Stokkhólmssamningsins árið 2001. Um er að ræða alþjóðlegan sáttmála frá árinu 2001 til að vernda heilsu manna og umhverfið gegn efnum sem brotna hægt niður í náttúrunni, dreifast langar vegalengdir um jörðina, safnast í fituvefi lífvera og hafa skaðleg áhrif á heilsu eða á umhverfið.

Samningurinn markaði tímamót og var baráttumál Íslands og annarra norðurslóðaríkja vegna uppmögnunar þrávirkra lífrænna efna (bioaccumulation) í fæðukeðjunni og uppsöfnun á köldum svæðum. Halldór segir löngu ljóst að þaulræktun og sá „efnahernaður“ sem henni fylgi standist ekki skoðun þegar fjölþætt hliðaráhrif séu tekin með í myndina.

Davíð sendi árið 2017 frá sér bók um tildrög samningsins: Undrið litla: Stokkhólmssamningurinn og baráttan gegn POPs – sköpunarsaga. Hún fjallar um átak sem Íslendingar áttu drjúgan hlut að og snerist um að fá alþjóðasamfélagið til að draga úr losun þrávirkra lífrænna efna, POPs. Í lýsingu bókarinnar segir að Íslendingar hafi sem fiskveiðiþjóð haft mikinn áhuga á vernd hafsins og leitað leiða til að losun mengandi efna í hafið skaðaði ekki afurðir þeirra. Þegar líða fór á seinni hluta síðustu aldar hafi sjónir manna farið að beinast að hættu sem gæti stafað af lífrænum efnum sem brotnuðu hægt niður í náttúrunni.

„Þessi efni, og þá sérstaklega svokölluð varnarefni, var að finna í mælanlegu magni á stöðum þar sem þau höfðu aldrei verið notuð. Þau gætu verið skaðleg vegna niðurbrotsefnanna, lífmagnast í gegnum fæðuvefinn og valdið hættu á alvarlegum áhrifum á heilsufar fólks og umhverfi. Mælingar hér við land hafi sýnt þau greinilega þrátt fyrir að styrkurinn væri lítill. Mikilvægt þótti að alþjóðasamfélagið hlutaðist til um að stöðva þessa þróun því ljóst var að einangraðar aðgerðir einstakra þjóða myndu duga skammt,“ segir enn fremur í kynningu.

Skylt efni: varnarefni | Loftgæði

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...