Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Sigurlína og verk í vinnslu.
Sigurlína og verk í vinnslu.
Viðtal 21. júlí 2025

Listakonan í hesthúsinu

Höfundur: Sturla Óskarsson

Sigurlína Kristinsdóttir hefur um margra ára skeið málað olíumálverk af hestum í hesthúsi sínu skammt frá Reykholti í Biskupsstungum. Blaðamaður Bændablaðsins kíkti við í hesthúsið hjá Sigurlínu og spjallaði við hana um sköpunarferlið, hestana og myndlistina.

Fyrir utan hesthúsið hlaupa hestar úti í gerði en inni eru hestar á striga. Hesthúsið sjálft er algjör ævintýraheimur, hver bás hefur verið innréttaður sem vinnurými, fjöldi pensla standa á borðum, ýmis smærri verk eru í hillum, þar má finna útskorna hesta og smærri myndir af hestum, í einum básnum er rúm. Víða hanga málverk, flest eru þau af hestum í íslenskri náttúru. Tveir hestanna eru þó úr goðsögum, Sleipnir og Skinfaxi. En einnig má finna landvættina fjóra dreifða um vinnustofuna.

„Það má segja að afi minn hafi átt stóran þátt í því að ég byrjaði að mála hesta. Hann gaf mér fyrstu olíulitina þegar ég var tólf ára og hafði mikinn áhuga á að ég myndi fara þessa leið. Og ég átti að mála hann á hestinum sínum, uppáhaldshestinum sínum! Þar eiginlega byrjaði ég að mála hesta svona með olíu,“ segir Sigurlína og býður upp á fersk hindber og jarðarber úr héraði með kaffinu.

Sleipnir, á tönnum hans eru rúnir.

Á heimavelli í hesthúsinu

Sigurlína ólst upp spölkorn frá hesthúsinu. „Ég er ættuð héðan úr sveitinni, úr Fellskoti. Hef alltaf verið hér með annan fótinn, alin upp á sveitabæ,“ segir Sigurlína sem sinnti alls kyns sveitastörfum í æskunni.

„Ég er alin upp af fólki sem lifði og hrærðist í hestum. Hann er partur af íslensku landslagi. Margir eru að mála íslenska náttúru en hesturinn hefur alltaf átt stóra tengingu við mig. Ég hef náttúrlega átt hesta frá því ég var lítil,“ segir Sigurlína. Hún segist alltaf hafa verið handlagin og mikið fyrir allt sem tengdist höndunum, að mála, teikna eða sauma út. Hún hafi síðan ákveðið að mennta sig í því.

„Ég byrjaði ung í Myndlistaskóla Reykjavíkur og fór svo í Myndlistaog handíðaskólann.“ segir Sigurlína en hún hafði einnig mikinn áhuga á matseld og lærði grunninn í kokkinum og þjóninum á sínum tíma. Hún nær að stunda þessi tvö áhugamál við kennslu í menntaskóla. „Ég vinn fulla vinnu sem kennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Kenni þar hússtjórn og myndlist.“

Skissar hestana fyrir utan

„Stundum er ég að hugsa bara um kraftinn, þá er ég oft að mála hest á hreyfingu eða teikna hest á hreyfingu. Þá er ég að hugsa um hreyfingar og kraft og svoleiðis. En svo líka bara svona kyrrð og ró. Hesturinn er partur af íslenskri náttúru eins og hún er, hvort sem það er rigning, rok, sól eða hvað það er. Og í raun og veru samt bara að glíma við form, lit og ljós,“ segir Sigurlína.

Oft er það falleg bygging á hestum sem kveikir á hugmynd. „Fallegur, vel skapaður hestur sem er með mikinn prúðleika. Það vekur alltaf aðdáun. En ég náttúrlega nota mína hesta svolítið. Ég mynda þá og tek nærmyndir eða skissa þá, þeir eru bara hérna úti í gerði. Ég rölti út í glugga og skissa einhverja hugmynd, einhverja stöðu. Þó að það verði svo kannski ekki útkoman, akkúrat þessi hestur, þá er ég meira bara að spekúlera í forminu og stöðunni,“ segir Sigurlína. „Sem hestamaður þá veit maður hvað er falleg bygging, hvernig á bak að vera, hvernig á lend að vera. Falleg bygging, flottur háls og allt þetta, það heillar mig og það er það sem grípur mig,“ bætir hún við og bætir við að sér þyki gaman að glíma við íslensku hestalitina.

En eru hestarnir samvinnuþýðir? „Þetta er bara eins og módelteikning. Maður bara velur, auðvitað eru þeir ekkert kyrrir allan tímann en maður er bara snöggur að skissa upp einhvern ákveðinn part,“ segir hún.

Fær pantanir frá hestamönnum

Þó hún grípi oft hugmyndir úr gerðinu fyrir utan hesthúsið þá málar Sigurlína gjarnan hesta annarra. „Ég mála náttúrlega eftir pöntunum og þá er ég bara að mála gamla, rauða og fallna brúnka og eitthvað svoleiðis,“ segir hún. „Einhver sem á gamlan hest sem þurfti að fella eða á fallega ræktunarmeri og folald og vill fá mynd af því. Auðvitað geturðu tekið ljósmynd en þetta er svona öðruvísi nálgun. Að fá málverk af hestinum sem fólki finnst mikilvægt að eiga,“ segir hún.

Oft fylgja slíkum pöntunum frekari upplýsingar um hestinn sem hún reynir að ná fram í verkunum. Stundum eru það sérkenni á hestinum, einhverjir blettir eða slíkt en stundum tengist það skapgerð hestanna. „Þetta var ljúfur hestur eða töffari, eitthvað sem hjálpar mér að koma karaktereinkennum fram. Það er misjafnt hvað ég má gera,“ segir hún en finnst mikilvægt að ná fram karakternum á hesti sem viðkomandi átti.

Jafnvel hefur fax af sjálfum hestunum ratað í verkin. „Ég hef fengið verkefni þar sem ég notaði fax úr hestum og límdi ofan í. Það er rosalega mikil vinna en ég hef gert svona verkefni fyrir fólk þar sem ég fer og tek fax úr viðkomandi hesti. Og þetta verður að vera stór mynd því það er svolítið erfitt að líma fax. Ef maður ætlar að láta það flæða með myndinni.“

Urðarbrunnur
Málaði alla hestana í Snorra-Eddu

„Hestarnir eru það sem ég er oftast nær að glíma við. En ég var með sýningu í Gallerí Grásteini í fyrra sem hét Vættir. Þá var grunnurinn myndasería sem ég hafði verið að mála, sem var allir hestar í Snorra-Eddu. Svo fór ég að taka þetta lengra og fór að teikna landvættina og þeir eru hérna inni. Ég hafði þá með.“ Stuttu frá okkur er verk af landvætti Suðurlands, bergrisanum. Gammurinn, drekinn og griðungurinn eru síðan dreifðir um vinnustofuna. Myndefni úr Snorra-Eddu er henni hugleikið. Sleipnir hangir fyrir utan einn básinn og Sigurlína bendir á tennurnar hans sem eru skreyttar rúnum. Myndirnar eru ekki alltaf af hestum, nýlega hefur hún til dæmis málað Urðarbrunn og Mímisbrunn. Dýr eru áberandi þemu í verkunum, álftir og býflugur prýða myndina af Urðarbrunni.

Það kemur fyrir að fólk vilji fá málaða mynd af sjálfu sér með hestinum sínum líkt og afi hennar vildi forðum en það er þó undantekning. „Oftast nær vill fólk bara hafa hestinn sinn og ekkert hafa knapa á bakinu.“

Fær fjölmargar heimsóknir

Við veginn er skilti merkt vinnustofu Sigurlínu, fólk er velkomið að kíkja við þó ekki sé formlegur opnunartími. En hvernig gengur salan?

„Þetta er allt í lagi. Ég hef alveg eitthvað upp úr þessu, ég hef svo sem aldrei farið alla leið í því að markaðssetja mig. Ég er ekkert að auglýsa eða eitthvað svoleiðis. Kannski geri ég það einhvern tímann ef ég fer bara að vinna sem myndlistarmaður. Það var opið hérna fyrir ferðamenn og ég var að fá alveg 7–800 manns hérna sem voru að kíkja og skoða hvað var í gangi. En þetta var bara opið,“ segir Sigurlína, sem hugsaði aldri um vinnustofuna sem verslun.

Meðan á viðtalinu stendur kemur hópur fólks að gerðinu, tekur myndir af hestunum og klappar þeim. Þetta er mjög algengt, segir Sigurlína. Sumir kíkja líka við á vinnustofunni. „Fólk kemur enn þá og fær að skoða, labbar inn og bara spjallar og svona. Þetta hefur aldrei verið rekið sem verslun, ekki þannig. Bara sem vinnustofa. Fólk má koma og sjá hvað ég er að gera. Og auðvitað er hægt að kaupa myndir af mér,“ segir hún.

Pantanir utan úr heimi

Í dag selur hún flest verk í gegnum Facebook á síðunni Myndlist í hesthúsi / an Art studio in a stable. „Það er í vinnslu að gera heimasíðu en hún er ekki tilbúin, það kemur að því einhvern tímann. En það er alveg ótrúlegt hvað fólk hefur samband á Facebook. Meira að segja einhvers staðar utan úr heimi. Ég ætlaði aldrei að vera á Facebook, svo einhvern veginn varð ég bara að bíta í það að þetta væri það sem þyrfti að gera. Stundum ef fólk ætlar að koma hingað þá er það búið að hafa samband þar. Það eru fastakúnnar líka af ýmsum stöðum í heiminum sem hafa samband og eru að koma til landsins líka,“ segir hún.

Upphafning að mála dýr

Hefur áhugi fólks komið á óvart?

„Nei, í raun og veru ekki. Af því að ég er alin upp í hestamennsku þá skil ég það alveg. Ég gerði nú einhvern tíma könnun á þessu í Listaháskólanum, gerði verkefni þar sem ég fór heim til fólks og var að velta fyrir mér hvaða ástæða lægi á bak við að fólk léti mála myndir af dýrunum sínum, húsinu sínu eða eitthvað svoleiðis. Af hverju svona fólk væri að fá svona eftirmálanir. Og þetta er svona ákveðið að hefja upp. Setja hluti á ákveðinn stall, eitthvað sem er því mikilvægt,“ segir hún.

„Þegar ég var með opið hérna sem mest, þá var þetta nú ekkert endilega bara hestafólk sem var að kaupa myndir af hestum. Það er bara fólk sem hrífst af viðfangsefninu eða hvernig ég er að vinna það. Ég ætla ekki að fara út í það hvað er list en þetta er bara fólk sem kaupir myndir sem því líkar við og heillar það. Sem það nær einhverri tengingu við,“ segir Sigurlína.

Hannaði verðlaunagripi og stefnir að fleiri sýningum

Þrátt fyrir að vera í fullri vinnu í Reykjavík þá kemur hún mjög reglulega á vinnustofuna. Verkefnin eru mörg og fjölbreytt. Nýlega hannaði hún og smíðaði verðlaunagripi. „Í vetur fékk ég það verkefni að gera verðlaunagripina fyrir Meistaradeildina í hestaíþróttum. Þá kom ég hérna um hverja helgi því að ég þurfti að saga og pússa. Ég vann gripi fyrir þá úr rósavið, ég keypti heil borð með berkinum og öllu. Þannig að það var bara heilmikil smíðavinna hérna í vetur,“ segir hún.

Viðveran á vinnustofunni er þó mest á sumrin, eftir að menntaskólarnir fara í frí. Þá er hún yfirleitt komin með stórt safn af hugmyndum. Það geti þó verið erfitt að sinna listinni samhliða fullu starfi.

„Stundum fæ ég fullt af hugmyndum, alls konar sýningar og ég á alveg heilmikið af hugmyndum í skissubókum. En maður nær aldrei að framkvæma það allt. Maður ætlar alltaf að geyma það þangað til að maður hættir að vinna.“

Hestarnir eru ekki bara á striga. Sigurlína sinnir auðvitað hestunum sínum meðfram listsköpuninni. „Ég ríð út og járna sjálf, bara hef gaman af að vera að stússast í þessu,“ segir hún.

Og er einhver sýning á næstunni? „Já, það er ein í kollinum á mér. Vonandi kemst hún á strigann,“ segir hún að lokum. 

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...