Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Brynjólfur Ómarsson hjá ÚTÚRKÚ vill nýjungar og ævintýri inn á íslenska súkkulaðimarkaðinn. Hér er hann að salta súkkulaði.
Brynjólfur Ómarsson hjá ÚTÚRKÚ vill nýjungar og ævintýri inn á íslenska súkkulaðimarkaðinn. Hér er hann að salta súkkulaði.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 7. október 2024

Lindifura út úr kú

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Skógarsúkkulaði með lindifuruolíu er nýlunda á íslenskum súkkulaðimarkaði.

Súkkulaðigerðin ÚTÚRKÚ var stofnuð árið 2023 og framleiðir m.a. súkkulaðiplötur og konfekt. Súkkulaðið er allt unnið úr „Fine Flavour Cacao“-baunum frá Suður-Ameríku.

Lindifurusúkkulaði

Fyrsta íslenska skógarsúkkulaðið frá fyrirtækinu er með lindifuruolíu og var sett á markað í mjög takmörkuðu magni í júlí en fæst nú víðar. Um er að ræða handgert mjólkursúkkulaði með íslenskri lindifuruolíu sem eimuð er hjá Hraundísi í Borgarfirði. Olían hefur mildan og sætan ávaxta- og viðarilm og er búin til með því að gufueima nálar lindifuru úr íslenskum skógum. Engin tré eru felld við framleiðsluna heldur er aðeins nýtt það sem til fellur úr skógum við grisjun.

Konfekt ÚTÚRKÚ er sagt innblásið af íslenskri náttúru og hefðum. Í fyrsta konfektkassa fyrirtækisins voru t.a.m. molar með kaffi og kúmeni, bláberjum, blóðbergi og lakkrískaramellu.

Óhrædd við að prófa nýja hluti

Það er Ólafsfirðingurinn Brynjólfur Ómarsson, eigandi ÚTÚRKÚ, sem sér um framleiðslu á súkkulaðinu og daglegan rekstur. Hann hefur unnið í matvælageiranum með allnokkrum hléum frá 2004 og hefur mikla reynslu af markaðssetningu og vöruþróun. Vigdís Vo, konditor og bakarameistari, hefur yfirumsjón með konfektgerðinni.

Um það hvernig samstarfið við Hraundísi kom til segir Brynjólfur að hann hafi verið að leita að skemmtilegu íslensku hráefni til að nota í súkkulaði og á óskalistanum hafi verið hvönn, kerfill og birki.

„Við fundum þá Hraundísi þar sem hún er að framleiða olíur úr alls kyns íslenskum plöntum og fengum sýnishorn hjá henni til að nota í tilraunastarfsemi,“ segir hann og heldur áfram: „Hún benti okkur á lindifuruna sem gæti hugsanlega passað með súkkulaði. Við höfðum nú takmarkaða trú á lindifurunni þar sem við þekktum hana einfaldlega ekki. En svo kom hún mjög skemmtilega út í mjólkursúkkulaði og þegar við fengum viðbrögð frá smakkhópunum okkar þá kom hún best út,“ segir hann.

Hvannarsúkkulaði í vetur

Að sögn Brynjólfs er innan við 1% lindifuruolíu í súkkulaðinu. „Hún er svo bragð- og ilmsterk að ef við settum meira þá yrði bragðið yfirgnæfandi. Við reynum að finna jafnvægi milli súkkulaðisins og lindifurunnar svo að bæði hráefnin njóti sín,“ útskýrir hann.

Innan tveggja mánaða frá því sýnishorn barst af lindifurunni var súkkulaðið komið á markað. „Við vildum ná að framleiða þetta í sumar til að eiga möguleika á að bæta við okkur meira hráefni áður en haustar,“ útskýrir hann.

Von er á fleiri súkkulaðitegundum. „Við munum klárlega koma með fleiri tegundir í vetur. Sennilega kemur hvönnin næst á markað og þá sem hluti af jólasveinasúkkulaðinu okkar. Ætli Giljagaur fái ekki þann heiður að vera fulltrúi hvannarinnar,“ segir Brynjólfur enn fremur.

Vilja hrista upp í markaðinum

ÚTÚRKÚ-vörumerkið mun ekki tilkomið vegna þess að vörur fyrirtækisins innihaldi kúaafurðir enda þýðir orðasambandið út úr kú eitthvað sem þykir fjarstæða. Vörumerkið er fremur sagt standa fyrir að vera óhefðbundið, öðruvísi, með nýstárlegar bragðtegundir og óvenjulegt útlit. „Við erum óhrædd við að fara ótroðnar slóðir, óhrædd við að prófa nýja hluti og að vera álitin algjörlega út úr kú,“ segir Brynjólfur.

„Markmið okkar er að hrista aðeins upp í íslenska súkkulaði- og konfektmarkaðinum. Það er svo margt sem vantar inn á þann markað og sem gömlu og stóru framleiðendurnir eru alls ekki að sinna. Við erum alltaf að bæta við nýjum vörum,“ segir hann að endingu.

Skylt efni: ÚTÚRKÚ

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f