Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Dæmi um sníkjudýr sem gagnast vel í baráttunni við ýmis meindýr eru sníkjuvespur. Þær eru agnarlitlar, 1–2 millimetrar að lengd.
Dæmi um sníkjudýr sem gagnast vel í baráttunni við ýmis meindýr eru sníkjuvespur. Þær eru agnarlitlar, 1–2 millimetrar að lengd.
Á faglegum nótum 18. janúar 2021

Lífrænar varnir reynast garðyrkjubændum vel

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Í hugmyndafræði lífrænnar garðyrkjuframleiðslu felst meðal annars að ekki skuli notuð kemísk varnarefni gegn skaðvöldum. Þau hafa mörg hver reynst vera varasöm fyrir neytendur, plönturnar sjálfar, umhverfið og sömuleiðis starfsfólk sem þarf að vinna með efnin og plöntur sem verða fyrir þeim.

Flestir garðyrkjubændur, bæði þeir sem stunda lífrænt vottaða ræktun og hefðbundna garðyrkjuframleiðslu nota umhverfisvænar leiðir til að verja gróðurinn gegn ýmiss konar óværu sem stundum þarf að fást við í ræktuninni.

Skaðvaldarnir þurfa að vara sig

Skordýr, áttfætlumaurar og sveppagróður eru algengustu lífrænu skaðvaldarnir í ylræktun. Áður fyrr þótti sjálfsagt að grípa til eiturdælunnar þegar sýnt þótti að skaðvaldarnir færu að valda usla. Þá voru garðyrkjumenn vel búnir hinum ýmsu efnavopnum. En það er löngu liðin tíð. Efni sem notuð eru í dag eru bæði sérhæfðari en áður, þekking á notkun þeirra mun meiri en áður fyrr, og síðast en ekki síst hefur þróun í framleiðslu og notkun lífrænna varanaraðgerða aukist mikið og náð almennri útbreiðslu í íslenskri ylræktun.

Hvað eru lífrænar varnir?

Besta lífræna vörnin er hreinlæti í ræktuninni og vönduð ræktunartækni en alltaf getur samt borist smit í gróðurhúsin. Þá er notast við lífrænar sápur, efni sem unnin eru úr jurtum og brotna hratt niður eða þá ýmsar lífverur sem halda niðri skaðvöldum. Garðyrkjumenn hafa góða reynslu af notkun þessara aðferða og kæra sig ekki um að snúa aftur til hinna hörðu efna. Einfalt er að nota sápuefni sem vörn. Sumar sápur, t.d. venjuleg brúnsápa, geta haldið niðri stofni meindýra og hafa einnig áhrif á margvíslegan sveppagróður sem veldur skaða, einkum á laufi. Ýmis efni sem unnin eru úr jurtum eru líka mun æskilegri en hin eldri kemísku eiturefni og gagnsemin er ótvíræð þótt fara þurfi varlega í notkun þeirra.

Rándýr og sníkjudýr

Það sem er mest notað í dag í ylræktinni eru þó lífverur, oft alls óskyldar, sem halda niðri stofni skaðvalda. Þetta eru hinar eiginlegu lífrænu varnir, sem hafa náð útbreiðslu í ylræktun grænmetis og blóma undanfarin ár og áratugi. Lífverurnar eru þá annaðhvort rándýr sem lifa á meindýrum eða lifa sníkjulífi á þeim, eða jafnvel smásæjar bakteríur.

Gott dæmi um rándýr sem garðyrkjubændur nota eru ránmítlar. Þeir eru agnarsmáir en fótfráir (enda með átta fætur) og eiga auðvelt með að leita uppi og ráðast á spunamítla, sem geta valdið usla í ræktun og sumir pottaplöntueigendur hafa þurft að fást við. Garðyrkjubændur dreifa þessum ránmítlum á gróðurinn eftir kúnstarinnar reglum og gróðurinn nýtur góðs af matarvenjum þeirra.

Dæmi um sníkjudýr sem gagnast vel í baráttunni við ýmis meindýr eru sníkjuvespur. Þær eru agnarlitlar, 1-2 millimetrar að lengd. Smæðin kemur þó ekki í veg fyrir að þær ráðist til atlögu við stærri dýr eins og blaðlýs, sem eins og allir vita geta verið til mikilla vandræða í ræktun. Þegar sníkjuvespan hefur leitað uppi blaðlús stingur hún varppípu sinni í lúsina og kemur eggjum sínum fyrir inni í blaðlúsinni. Þar klekjast út lirfur sníkjuvespunnar sem fljótt þroskast í fullvaxta dýr. Næringuna fær hin unga vespulirfa með því að éta blaðlúsina innan frá, fyrst klárar hún fituvefina og endar á mikilvægum líffærum. Síðan gerir fullþroskuð vespan hringlaga op á ofanverðan afturbol lúsarinnar og skríður út, tilbúin til að halda lífsferlinum áfram, blaðlúsinni til skelfingar en garðyrkjubóndanum til mestu gleði. Maríubjöllulirfur eru líka gráðug rándýr þótt litlar séu, þær lifa einkum á blaðlúsum.

Aðrar gagnlegar lífverur

Þráðormar og bakteríur geta líka verið nytsamlegir þegnar. Ein tegund agnarlítilla þráðorma sérhæfir sig td. í að nærast á lirfum svarðmýsins, sem eru smáar svartar flugur og eru algengar í blautum jarðvegi. Bakteríur af tegundinni Bacillus thuringiensis hafa verið notaðar til að halda niðri meindýrum, ekki síst fiðrildalirfum. Þær leggjast á meltingarfæri þeirra og framleiða þar eiturefni sem dregur lirfurnar til dauða.
Framleiðsla lífrænna varna af þessu tagi er orðin verulegur iðnaður enda hafa garðyrkjubændur víða um heim tekið þeim fagnandi.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...