Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Lífræn kornrækt hefur verið stunduð með góðum árangri á Íslandi í fjölda ára.
Lífræn kornrækt hefur verið stunduð með góðum árangri á Íslandi í fjölda ára.
Mynd / Aðsend
Á faglegum nótum 31. júlí 2024

Lífræn kornrækt á Íslandi

Höfundur: Gunnar Bjarnason, stjórnarmaður í VOR og ræktandi lífrænna matvæla.

Lífrænt ræktaðar landbúnaðarvörur tengja flestir við hollan og góðan mat sem framleiddur er án eiturefna, notkunar erfðabreyttra plantna og tilbúins áburðar.

Lífrænn landbúnaður er hins vegar meira en bara bann við eiturefnum og tilbúnum áburði. Þetta er aðferðafræði sem vinnur að því að framleiða mat á sjálfbæran hátt, styðja við fjölbreytileika tegunda og hlúa að náttúrunni, dýrum og fólki. Til að hljóta lífræna vottun þurfa bændur að gangast undir strangar kröfur við ræktunina. Aðferðafræðin leggur áherslu á að efla lífríki jarðvegsins og skipuleggja ræktun þannig að gangur náttúrunnar leysi hluta vandamála eða áskorana sem bændur standa frammi fyrir. Þannig er skiptiræktun lykilatriði, því skiptiræktun hjálpar til við að rjúfa hringrás meindýra og sjúkdóma, ásamt því að bæta jarðvegsbyggingu og auka næringarefni í jarðveginum. Lífræn ræktun gerir líka strangari kröfur til búfjárhalds og eru til dæmis gerðar kröfur um meira rými sem eldisdýr þurfa að hafa en í „hefðbundinni“ ræktun. Ég set orðið hefðbundið innan gæsalappa. Maðurinn hefur ræktað matvæli án tilbúins áburðar og eiturefna í árþúsundir og lífrænn landbúnaður ætti því kannski frekar að kallast hefðbundinn landbúnaður.

Ísland liggur það norðarlega að kornrækt hér er áhættusamari en sunnar í Evrópu sökum kaldra og stuttra sumra. Vandamál sem íslenskir kornræktarbændur, lífrænir eður ei, glíma við eru sem dæmi slök kornfylling eða misjöfn kornastærð.

Lífræn kornrækt hefur engu að síður verið stunduð með góðum árangri á Íslandi í fjölda ára. Þekktasti ræktandinn er án efa frumkvöðullinn Eymundur Magnússon í Vallanesi á Héraði, en hann hefur ræktað korn til manneldis, einkum bygg, síðan 1985. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín við ræktun. Austur-Landeyjar eru gott kornræktarsvæði og þar eru ein fjögur lífræn bú starfandi og flestir stunda einnig kornrækt að einhverju marki. Lífræn efni og jarðvegslíf skipta sköpum fyrir frjósemi jarðvegsins og bændur nýta moltu, húsdýraáburð og plöntuleifar til að auka lífrænt efni í jarðveginum. Þetta hjálpar til við að bæta jarðvegsbyggingu, jarðvegurinn heldur betur raka og örveruvirkni skapar heilbrigt umhverfi fyrir vöxt plantna.

Lífrænn landbúnaður er ekki óumdeildur og í gegnum árin hafa það sérstaklega verið aðilar sem hafa hagsmuni af sölu áburðar og eiturefna sem tala af festu gegn lífrænni ræktun. Það er kannski ekki skrýtið, því ef allur landbúnaður væri lífrænn myndu mikilvægir tekjustraumar þeirra hverfa. Ein helstu rök þeirra sem tala gegn lífrænum landbúnaði eru þau að það sé ómögulegt að framleiða mat fyrir allan heiminn með lífrænum aðferðum, uppskeran sé svo lítil og ótrygg.

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á kornrækt með lífrænum aðferðum í samanburði við „hefðbundna“ ræktun korns. Helstu niðurstöður eru þær að uppskera lífrænna kerfa getur verið á bilinu 10–30% minni, algengt um 20%. Rodale Institute í Bandaríkjunum hefur staðið fyrir lengstu samanburðartilraunum milli „hefðbundinna“ ræktunarkerfa og lífrænna kerfa og hafa þær verið í gangi síðan 1981. Niðurstöður þeirra hafa sýnt að á meðan landið er að aðlagast því að ekki sé notaður tilbúinn áburður og jarðvegslíf og lífrænt efni er að byggjast upp í jarðveginum megi búast við minni uppskeru. Með tímanum minnki þessi munur og geti uppskera verið sambærileg milli kerfa. Tilraunir þeirra hafa líka sýnt að uppskera lífrænu spildanna getur orðið allt að 30% meiri en hinna þegar þurrkar geisa vegna getu lífræna jarðvegsins til að geyma vatn.

Árið 2015 var gerð áhugaverð rannsókn við Berkley-háskóla í Kaliforníu. Safnað var saman gögnum úr 115 rannsóknum og tæplega 1.100 uppskerumælingum þar sem samanburður var gerður á afköstum lífrænna ræktunarkerfa samanborið við „hefðbundinna“. Leiðrétt var fyrir mismunandi aðferðafræði við rannsóknirnar, landfræðilegri staðsetningu og tegundar uppskeru. Niðurstöðurnar sýndu að 19% minni uppskera var meðaltal allra þessara rannsókna EN með vönduðum skiptiræktaráætlunum og skjólsáningu (að sá fleiri en einni tegund fræja í akrana, e. Intercropping) mátti minnka þennan mun niður í 8–9%. Við kornrækt voru það fyrst og fremst skiptirækt, sáning belgjurta með korni og notkun þekjuplantna (e. cover crop) þegar land var ekki í notkun sem skilaði mestu. Bændur hér á landi þekkja vel skjólsáningu en rannsóknin sýndi að áhrif þessarar aðferðar voru háð plöntutegundum og landfræðilegri legu tilraunastykkjanna.

Matvælastofnun í samstarfi við LbhÍ stóð fyrir rannsóknum á korni á árunum 2009–2011 þar sem gæði íslensks korns voru rannsökuð og borin saman við innflutt korn. Íslensku sýnin sem voru rannsökuð voru bæði úr „hefðbundinni“ og lífrænni ræktun. Niðurstöðurnar sýndu að íslenskt lífrænt korn stenst fullkomlega samanburð við korn ræktað með „hefðbundnum“ aðferðum hvað varðar gæði og þúsundkorna þunga.

Framleiðsla matvæla eins og korns í heiminum í dag er gríðarlega háð aðföngum sem ekki eru fengin á sjálfbæran hátt og sá dagur mun koma að þau ganga til þurrðar eða of dýrt verður að moka þeim upp. Það er því til mikils að vinna fyrir kynslóðir framtíðarinnar að leita leiða til að leggja af ósjálfbærar aðferðir við matvælaframleiðslu.

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f