Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Lífeyriskerfið
Skoðun 27. júní 2016

Lífeyriskerfið

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Þegar Bændablaðið kemur út að þessu sinni eru aðeins tveir dagar þar til Íslendingar kjósa sér nýjan forseta. Hvernig sem fer, þá hljótum við sem þjóð að standa þétt við bakið á þeim einstaklingi sem í það embætti verður valinn. 
 
Hvað sem menn segja eða hugsa um Ólaf Ragnar Grímsson fráfarandi forseta, þá verður það aldrei af honum skafið að hann er maðurinn sem kom í veg fyrir að gríðarlegur skuldaklafi yrði hengdur um háls þjóðarinnar að henni forspurðri. Ekki bara einu sinni, heldur í tvígang. 
 
Að loknum forsetakosningum munum við svo að öllum líkindum kjósa um það í haust hverjir eigi að fá þau 63 störf sem um er að velja á Alþingi. Rétt er að viðkomandi hafi það þá hugfast að þau störf eru launuð af skattgreiðendum í landinu. 
 
Forréttindi eru af ýmsum toga í þessu þjóðfélagi. Í því sambandi hlýtur það að verða umhugsunarefni fyrir nýjan forseta, væntanlega nýja þingmenn, verkalýðsleiðtoga og forkólfa atvinnulífs, hvort ekki eigi að taka lífeyrismál þjóðarinnar til gagngerrar endurskoðunar.  
 
Fyrst við á annað borð fórum út í það á sínum tíma að búa til lífeyriskerfi með sjóðsöfnun, hvers vegna var þá ekki valin sú leið að hafa einn lífeyrissjóð fyrir alla og með sömu réttindum fyrir alla? Lífeyrissjóð sem ekki mismunar þegnunum eins herfilega og nú er gert?
 
Það hlýtur að vera hægt að gera lífeyriskerfið einfaldara, skilvirkara og ódýrara í rekstri. Hvernig væri að byrja á að sameina alla  lífeyrissjóði landsmanna í einn? Þar myndu strax sparast miklar fjárhæðir í yfirstjórn.
 
Þessi sjóður gæti sem best innheimt iðgjöld líkt og nú er sem hlutfall af launum. Tíund, eða tíu prósent, ætti að vera fyllilega nóg. Þeir sem betri kjörin hefðu greiddu þá fleiri krónur en lægra launaða fólkið, en án meiri réttinda umfram aðra. 
 
Allir fengju sama lífeyri út úr sjóðnum þegar þar að kæmi, burtséð frá því hvort viðkomandi hafi verið flugumferðarstjóri, þingmaður, ráðherra, forseti, óbreyttur starfsmaður á plani, fullfrískur eða fatlaður. Allir hefðu sama rétt. Um leið spöruðust gríðarlegar fjárhæðir vegna sérstakra lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna og þeirra efnameiri í þjóðfélaginu. Samtímis bæri að afnema sérstök eftirlaunaréttindi forseta og ráðherra eftir að embættisferli þeirra lýkur. Þeir yrðu jafnsettir í almenna lífeyriskerfinu eins og allir aðrir. Það er ekkert sem réttlætir þann ójöfnuð sem viðgengst í kerfinu í dag.
 
Þeir sem betur eru settir í þjóðfélaginu hafa alla burði til að skapa sér lífeyrissjóð sjálfir fyrir utan lífeyrissjóðakerfið. Það er engin ástæða til að greiða þeim aukalega hærri lífeyri en öðrum úr sjóðum almennings. Líf allra Íslendinga hlýtur að vera jafn verðmætt þótt aðstæður fólks séu misjafnar.
 
Ef almennt iðgjald í nýjum sameinuðum sjóði yrði 10%, þá gæti fólk sem best sett t.d. 5% í raunverulegan séreignarsparnað af sínum launum eftir skatt ef það gæti og vildi. Sá peningur yrði ekki skattlagður frekar við úttekt né skerti það töku almenns lífeyris. Þá ættu laun sem fatlaðir og aðrir lífeyrisþegar afla sér aukalega ekki heldur  að skerða útborgun lífeyris. 
 
Til að tryggja þennan sjóð enn frekar mætti hugsa sér að auðlindasjóður þjóðarinnar, sem fái m.a. tekjur af arði Landsvirkjunar og af sölu fiskveiðileyfa, léti eitthvert fast prósentuhlutfall af árlegu tekjuinnstreymi renna í lífeyrissjóðinn. Til að byrja með mætti nota slíka fjármuni til að greiða upp skuldbindingar lífeyriskerfis ríkisins á meðan fólk yrði flutt milli kerfa. 
 
Það sem ynnist með þessu væri aukið réttlæti, meiri jöfnuður í samfélaginu og minni áhyggjur aldraðra og öryrkja. 
Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f