Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Lifandi fræbanki Amasón
Mynd / Camino Verde
Utan úr heimi 4. mars 2025

Lifandi fræbanki Amasón

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Lifandi fræbanki varðveitir villtar upprunategundir Amasón-frumskóganna.

Starfsfólk Camino Verde fær samfélög með sér í lið í gróðursetningu villtra upprunatrjátegunda, þ.á m. tré í útrýmingarhættu. Úr trjánum eru síðan framleiddar skógarafurðir sem eru ekki úr timbri eða krefjast skógarhöggs.

Á 130 hekturum Camino Verde-stofnunarinnar á Madre de Dios-svæðinu í Perú má finna ríflega 400 upprunalegar tegundir trjáa og plantna. Svæðið er kallað hinn lifandi fræbanki Amasónregnfrumskógarins.

Amasón-svæðið spannar um 6,7 milljónir ferkílómetra í átta löndum og er heimkynni um 30% af tegundum lífríkis jarðar og 20% ferskvatns.

Sjálfseignarstofnunin Camino Verde (Græna leiðin) var stofnuð árið 2007, af bandaríska skógræktarmanninum Robin Van Loon, í kjölfar þess að hann heimsótti Madre de Dios sem námsmaður.

Hugmyndin að baki Camino Verde er að rækta upprunalegar tegundir Amasón í lifandi fræbanka sem tryggi framtíð þeirra, ásamt því að efla sjálfbæra notkun þeirra á Amasón sem uppsprettu lífsviðurværis fyrir samfélög.

Stofnunin beitir sér fyrir að endurheimta frumskógarlandslag Amasón. Villtar tegundir trjáa eru gróðursettar, þ.á m. tré í útrýmingarhættu. Úr trjánum eru síðan framleiddar skógarafurðir sem eru ekki úr timbri eða krefjast skógarhöggs, þ.á m. sjaldgæfar hágæða ilmkjarnaolíur úr brasilískum rósaviði og moena alcanfór-olía sem fræg er fyrir lækningamátt og rík ilmgæði. Þannig geta samfélög innfæddra hagnast, skógum er viðhaldið og þeir auðgaðir, stutt er við sjálfbæra lífshætti og hvatt til sanngjarnrar og endurnýjandi þróunar á svæðinu.

Sérstæðar tegundir að glatast

Camino Verde (Græna leiðin) hefur aðsetur í friðlandi við Tambopataána í Perú en vatnasvið árinnar er eitt vistfræðilega ríkasta svæði jarðar. Það fóstrar staðbundnar fuglategundir, skriðdýr, spendýr eins og jagúar og púmu, og að minnsta kosti 1.255 plöntutegundir. Hinn einstaki líffræðilegi fjölbreytileiki þessa svæðis – sem enn er lítið rannsakað af vísindamönnum – hefur þó verið að rýrna undanfarna áratugi. Hið margverðlaunaða, rauðbrúna timburmahóní er til dæmis þegar útdautt í Perú vegna ofnýtingar og margar aðrar tegundir, eins og brasilískur rósaviður, í bráðri hættu.

Árið 2020 skráði umhverfisráðuneyti Perú mestu frumskógareyðingu til þessa, en alls hurfu þá 203.272 hektarar af Amasón-skógi – svæði sem er 2,5 sinnum stærra en t.d. New York-borg – að mestu vegna skógarhöggs og námuvinnslu. Frá árinu 2001 hefur tæplega þremur milljónum hektara skóglendis verið eytt og talið að margar sérstæðar tegundir séu að glatast.

Viðleitni Camino Verdefræbankans hefur beinst að ofnýttum tegundum og tegundum í útrýmingarhættu. Markvisst eru ræktaðar trjáplöntur úr fræbankanum og þær gróðursettar á Madre de Dios- og Loreto-svæðunum í Perú. Til þessa hafa meira en 200.000 tré verið gróðursett og tugþúsundir trjáplantna framleiddar í trjárækt Camino Verde á hverju ári og þær gefnar eða seldar gegn kostnaðarverði. 

Perúskur bóndi handeimar ilmkjarnaolíu á Amasón-svæðinu.

Ný tekjuleið fyrir bændur svæðisins

Van Loon hefur sagt sláandi að verða vitni að því hvernig unnt er að vera á einum tíma með fjölmargar trjátegundir á svæðum en glata þeim næstum öllum á mjög stuttum tíma. „Ef tré er að týnast úr náttúrunni og enginn veit hvernig fræin líta út, þá er það á leiðinni til útrýmingar,“ segir hann. Á Amasón-svæðinu sé ekki hægt að geyma trjáfræ úr regnskógum í fræbönkum því þau lifi iðulega ekki af þegar reynt sé að þurrka þau. Geyma þurfi slík fræ við mínus 20 gráður ef vel eigi að vera.

Áralangt starf Camino Verdefólks að gróðursetningu trjáa í Perú er orðið verkfærakista, lifandi fræbanki, sem geymir rúmlega 20 þúsund tré af yfir 400 tegundum af villtum Amasón-trjám og er uppspretta fyrir gróðursetningu tegundanna um Amasón-svæðið. Samfélög svæðisins, frumbyggjar og bændur, eru hvött til að nota fræin til gróðursetningar, sem aftur stuðlar að því að horfið sé frá ræktun á maís, hrísgrjónum og yuca, hinum ráðandi tegundum í landbúnaði svæðisins og sem kallar á að skóglendi sé rutt undir ræktunarland til skaða fyrir líffræðilegan fjölbreytileika.

Áfram er þrotlaust unnið að söfnun sjaldgæfra villtra trjátegunda og þeim fundinn staður í lifandi fræbankanum.

Skylt efni: Amazon

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...