Leysir borgarbílinn af hólmi
Riese & Müller Carrie er farartæki sem getur í flestum tilfellum komið í staðinn fyrir aukabílinn og í sumum tilfellum verið eini bíllinn á heimili í þéttbýli.
Þetta nytjahjól er með palli að framan sem er hugsaður til þess að flytja tvö ung börn eða farangur. Notandinn fær stuðning frá Bosch rafmagnsmótor sem fær straum úr 545 vattstunda rafhlöðu, sem dugar allt að 120 kílómetra samkvæmt framleiðanda.
Í stað keðju er Gates Carbon reim sem tengist við Enviolo stiglausa skiptingu í afturgjörðinni. Áðurnefnt reimdrif krefst sáralítils viðhalds og er mun hreinlegra en hefðbundnar keðjur. Skiptingin hefur þann kost að hægt er að skipta um gír hvenær sem er, bæði undir álagi eða þegar numið er staðar. Því lendir notandinn ekki í vandræðum ef hann stoppar skyndilega í hæsta gír.
Brekkur bíta ekki
Þar sem þetta er rafmagnshjól losnar notandinn við allar neikvæðar hliðar hjólreiða á meðan hægt er að njóta þess jákvæða. Rafhjólreiðamenn þurfa ekki að bölva mótvindi eða brekkum, því þetta tvennt bítur ekki, en geta fengið heilnæma hreyfingu og útivist. Rafmótorinn leggur sirka helming á móti vöðvaaflinu og er ekki hægt að ætlast til þess að hjólið komist áreynslulaust upp brekkur í hæsta gír, heldur þarf að skipta niður og finnst hvernig púlsinn stígur og blóðið fer á hreyfingu.
Undirritaður var yfirleitt með rafmótorinn á öflugustu stillingunni, sem er mjög þægileg og lítil ástæða til að nota nokkuð annað, enda dugði rafhlaðan auðveldlega í öll erindi í tvo daga. Hægt er að taka rafhlöðuna af eða stinga hjólinu beint í samband þegar kemur að hleðslu. Rafmagnsstuðningurinn er upp að 25 kílómetra hraða og fjarar hnökralaust út eftir það. Á sirka 26 kílómetra hraða er hjólað á vöðvaaflinu einu saman.
Ein stærð fyrir alla
Á Riese & Müller Carrie er pallurinn hannaður þannig að hann er lítill um sig þegar hann er lokaður, en breikkar talsvert þegar hann er opnaður og rúmar þá ágætlega tvö börn eða talsvert af farangri. Kassinn er klæddur sterku frauðplasti, sem er svipað efni og er í hjólreiðahjálmum. Hámarksþyngd farms eru 80 kílógrömm, og því hægt að ferja fullorðinn einstakling ef viðkomandi er tilbúinn til að sitja í algjörum keng. Sætið í pallinum er nokkuð ofarlega, sem leiðir af sér háan þyngdarpunkt ef farþeginn er fullvaxinn. Því getur verið erfitt að taka af stað, sérstaklega upp brekkur eða í erfiðum aðstæðum. Jafnvægið er gott þegar farmurinn er léttur.
Fljótlegt er að stilla hæð á stýri og hnakka og því geta tveir einstaklingar af ólíkri stærð auðveldlega deilt hjólinu, en Riese & Muller Carrie er framleitt í einni stærð sem passar flestum. Undirritaður er 190 sentímetrar og gat komið sér þægilega fyrir. Í gafflinum að framan er dempari og í hnakkpóstinum er fjöðrun. Því finnst lítið fyrir misfellum og er hnakkurinn ágætlega þægilegur. Bremsurnar eru eins og þær séu fengnar af mótorhjóli, en þær eru vökvaknúnar og bremsudiskarnir stórir. Því er ekkert átak sem fylgir því að stoppa, þrátt fyrir þungan farm.
Hægt að leggja við innganginn
Á stýrinu er lítil aksturstölva þar sem hægt er að sjá hver staðan er á hleðslunni, hraða, vegalengd, klukku og fleira. Hægt er að fá þrjár útfærslur á aksturstölvunni og var hjólið í þessum prufuakstri með milligerðina. Sú dýrasta er með litaskjá og á stærð við snjallsíma, á meðan sú minnsta er afar einföld og á stærð við tölvuúr. Ljósin fara sjálfkrafa í gang þegar kveikt er á hjólinu og eru þau knúin með aðal-rafhlöðunni. Það eina sem undirritaður myndi skipta út er bjallan, en sú sem kemur frá framleiðandanum er ansi aum.
Þetta nytjahjól hentar sérlega vel í verslunarferðir þar sem hægt er að leggja beint fyrir utan innganginn og óþarft að leita að stæði. Undir pallinum er stöðugur standari sem er auðvelt að setja niður og við afturhjólið er innbyggður hjólalás (rammalás) sem er fljótlegt að loka. Upplifunin af því að hjóla á Carrie er mjög áþekk notkun hefðbundins reiðhjóls. Fyrstu kílómetrarnir fara í að venjast því að vera á svona löngu hjóli, alveg eins og það eru nokkur viðbrigði að fara aftur á hefðbundið reiðhjól.
Að lokum
Samkvæmt verðlista kostar Riese & Müller Carrie með Enviolo skiptingu 1.299.995 krónur, en hægt er að fá allt að 200.000 króna rafhjólastyrk í gegnum Orkusjóð. Margir munu eflaust súpa hveljur við að sjá verðmiðann fyrir þetta hjól, enda mikið úrval af góðum notuðum bílum fyrir sama verð. Hafa ber þó í huga að eftir kaupin eru útgjöldin fyrir hjólið lítil sem engin, á meðan rekstrarkostnaður bíla hleypur á hundruðum þúsunda. Orkukostnaður rafmagnshjólsins er sáralítill, tryggingarnar valkvæðar og litlar sem engar, viðhald lítið sem ekkert og varahlutir ódýrir.
Allir þeir sem eru með geymslupláss fyrir svona hjól á jarðhæð, ýmist bílskúr, rúmgott andyri eða öruggt port, ættu virkilega að hugsa sér að fá sér Riese & Müller Carrie, enda dugar það í flest erindi og er bráðskemmtilegt að ferðast á því. Þeir sem þurfa stærri farmlest hafa jafnframt úr fjölmörgum nytjahjólum að velja. Nánari upplýsingar fást hjá Ellingsen, sem er með umboðið fyrir Riese & Müller og fleiri rafhjól.
