Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Starfsfólk Veðurstofu Íslands heimsótti það sem eftir var af skaflinum í Gunnlaugsskarði haustið 2019.
Starfsfólk Veðurstofu Íslands heimsótti það sem eftir var af skaflinum í Gunnlaugsskarði haustið 2019.
Mynd / Veðurstofa Íslands á facebook.
Líf og starf 8. júlí 2025

Lesið í fannir

Höfundur: Birna Lárusdóttir

Kannski er ekkert sumarlegt að fjalla um fannir í júní. Og þó – þegar betur er að gáð verða þær einmitt oft sýnilegar þegar snjóa hefur leyst að mestu, sitja þá sem fastast ofan í dældum og giljum, oft skuggamegin í landslagi eða hátt uppi þar sem kuldinn vinnur á móti sólbráðinni. En hvernig tengist gaddaður snjór menningarlandslagi og vangaveltum um fortíðina? Jú – oft hefur fólk beint sjónum að fönnum sem hafa setið á sömu stöðum ár eftir ár, fylgst með þeim og jafnvel nefnt þær nöfnum. Þannig hafa þær öðlast merkingu og orðið að þekktum kennileitum ekki síður en t.d. klettar, hólar og gil. Í nútímanum hefur líklega ekki verið fylgst jafngrannt með neinni fönn á landinu eins og skaflinum í Gunnlaugsskarði í Esjunni sem margir Reykvíkingar kannast við. Húsvíkingar hafa átt sína fönn líka, í Dagmálalág í Húsavíkurfjalli, sem augu margra hvíla á að vorlagi. Hún komst reyndar í fréttir um daginn fyrir það að vera horfin óvenjusnemma þetta árið, 22. maí. En víðar eru nafngreindar fannir sem færri þekkja og oft hafa þær einmitt verið hafðar sem sjálfstæður mælikvarði á tíðafar. Upplýsingar um margar slíkar leynast í örnefnalýsingum sem eru til fyrir næstum allar jarðir á Íslandi (sjá www.nafnid.is).

Ónefndur skafl í landi Fallandastaða í Hrútafirði hafði til dæmis áhrif á bóndann á Stað innar við fjörðinn sem þótti ekki tímabært að láta kýrnar út á vorin fyrr en hann var horfinn. Í Sauðlauksdal var það haft til marks um gott sumar ef tiltekin fönn, sem hét Fönnin en af sumum kölluð Hjarnið, náði að bráðna svo mikið að hún klofnaði í tvö belti. Giskað hefur verið á að Jónsmessufönn í landi Krýsuvíkur hafi horfið um Jónsmessuleytið. Þá þótti til marks um gott sumar þegar Hempuskafl á Ingjaldssandi hvarf nær allur sumarið 1909, enda hafði það þá ekki gerst í manna minnum. Nafnið átti að vera dregið af hempu sem fannst þar löngu eftir að prestur nokkur varð úti í hörkubyl. Skafl sem stóð að jafnaði af sér sumarið var í landi Ljárskóga í Dölum, undir Gaflfelli, og hét Tjaldskaflinn. Þar átti bóndi nokkur að hafa farið til grasatínslu í leyfisleysi fyrir löngu en tjaldið fennti í kaf og bóndi varð úti með öllu sínu hyski. Snjóinn leysti síðan aldrei af tjaldinu. Víti til varnaðar skyldi maður ætla. Aðrar lífseigar fannir hafa líka verið hafðar sem mið af snjó. Í Feigsdal við Arnarfjörð var Skaflinn (sem einnig var nefndur Gufan) hafður sem lóðamið fram í firði, en snjór lá þar allt árið og hefur væntanlega skorið sig úr landslaginu.

En fannir höfðu líka spágildi fyrir veðurfarið fram undan. Í einu af fjölmörgum svörum við spurningalista þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns sem snýr að veðri og veðurspám segir: „Til var það að menn merktu það af einstökum, ákveðnum fönnum í fjöllum, stærð þeirra og lögun þegar sumri fór að halla, hvernig snjólag næsta vetrar mundi verða. Oftast var sú spásögn þannig, að ef fönnin varð óvenjulítil eða hvarf með öllu, var búist við að næsta vetur yrði snjóþungt. Ef fönnin var stór og þykk, var fremur búist við að snjólétt mundi verða.“ Dæmi um þetta myndi vera Langafönn í landi Hamars í Geithellnahreppi: Ef hún fór í þrennt var von á hörðum vetri.

Þessi dæmi veita aðeins örlitla innsýn í hvernig fólk hefur gefið umhverfi sínu gaum og sett það í samhengi við ýmislegt sem tengdist daglegu lífi, t.d. veðurfar. Þótt veðurspár nútímans séu byggðar á traustum gögnum og séu okkur ómissandi koma þær ekki að öllu leyti í staðinn fyrir þá visku sem sprettur af dvöl og langvarandi tengslum við staði og fyrirbæri – eins og fannir – sem oft fara fram hjá okkur.

Skylt efni: minjar

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f