Laxeldi rætt í Hörpunni
Á ráðstefnunni Lagarlíf sem haldin var í Hörpu 30. september og 1. október síðastliðinn var farið yfir ýmsar hliðar sem snúa að fiskeldi.
Þangað mætti fjöldi innlendra og erlendra aðila úr bransanum, bæði til að halda erindi og til að hlíða á önnur. Jafnframt mátti ganga á milli bása þar sem fyrirtæki og samtök kynntu sínar lausnir og vörur. Greinilegt er að áhugi á fiskeldi er mikill, hvort sem um er að ræða eldi í sjó eða á landi.
Tækifæri í úrganginum
Á erindi sem bar yfirskriftina „Þróun hringrásarlausnar: Umbreyting úrgangs frá landbúnaði og fiskeldi í áburð og orku,“ fór Sigurður Trausti Karvelsson, verkefnastjóri hjá First Water og verkefnastjóri Terraforming LIFE yfir stöðu verkefnis sem miðar að því að fullnýta allan úrgang frá fiskeldi frá landi.
Hann benti á að landeldi sé í miklum vexti og nú þegar sé úrgangurinn um 2.000 tonn frá öllum aðilum á ári. Fyrirséð sé að árið 2031 verði heildarmagn lífræns úrgangs frá greininni komin upp í 150 þúsund tonn á ári. Öllum aðilum í landeldi er gert skylt að halda eftir þessum úrgangi og hafa eldisstöðvarnar verið byggðar upp með því sjónarmiði. Nú sé fiskeldismykjan að mestu nýtt sem áburður í landgræðslu, en það sé ekki lausn sem hægt sé að reiða sig á endalaust. Þá séu ekki næg afköst hjá Sorpu eða Kölku til að vinna úrganginn.
Blandað saman við lífrænan áburð
Lausnin sé því að byggja upp aðstöðu þar sem hægt er að búa til úr þessu áburð sem nýtist í landbúnað. Nú þegar flytji bændur inn 55.000 tonn af tilbúnum áburði á ári sem væri hægt að minnka með stórauknu framboði af lífrænum áburði. Til þess að gera áburð úr mykju frá fiskeldi þurfi að blanda honum saman við lífrænan áburð frá öðrum hefðbundnum búgreinum.
Sigurður sagðist sjá mikil tækifæri fyrir svínaræktendur að koma sínum úrgangi í þennan farveg, en þeir hafa verið gagnrýndir fyrir að dæla miklum lífrænum áburði út í sjó. Enn fremur sé hægt að blanda beinamjöli við áburðinn, en hingað til hefur ekki verið mikill farvegur fyrir það.
Áskoranir að safna hráefni
Terraforming Life sé viðbragð við þeirri stöðu sem komin er upp í kjölfar uppbyggingar fiskeldis á landi. Verkefnið er fjármagnað af Evrópusambandinu og eru fimm aðilar sem vinna að því saman: Orkídea, Ölfus Cluster, First Water, Bændasamtök Íslands og færeyska verkfræðifyrirtækið SMJ. Stefnt er að því að koma upp aðstöðu sem getur meðhöndlað 30.170 tonn af úrgangi á ári fyrst um sinn, en eftir einhver ár muni afköstin aukast í 100.000 tonn á ári.
Helstu áskoranirnar felist í því að safna saman fiskeldismykjunni og minnka vatnsinnihaldið. Jafnframt þurfi að kortleggja hvar sé hægt að nálgast lífrænan áburð frá landbúnaði í því magni sem til þarf. Mikilvægt sé að efnainnihald þess áburðar sem verður framleiddur sé stöðugt og í samræmi við þarfir bænda svo þeir vilji nota hann. Í áburðarframleiðslunni myndast gas sem hægt sé að nýta til þurrkunar á afurðinni.
______________________________________
Gífurleg uppbygging á landi
Lárus Ásgeirsson, forstjóri Laxeyjar í Vestmannaeyjum, sagði frá því að fyrsta slátrun 4,5 til 5 kílógramma laxa færi fram í nóvember. Uppbyggingarverkefnið er í átta áföngum og er áætlað að landeldið verði komið í fulla framleiðslu árið 2032. Fyrsta áfanga var lokið í fyrra og verður áfangi tvö tekin í notkun innan skamms. Fullbúin stöð geti framleitt 36.000 tonn á ári, sem samsvarar 175 milljónum máltíða. Árlega muni fyrirtækið velta 300 milljónum evra, skapa 100 bein störf og önnur 100 afleidd störf. Fjármögnun Laxeyjar hefur gengið vel og hefur uppbyggingin haldist í takt við upphaflega tímalínu, þrátt fyrir áskoranir sem fylgdu ógagnsæju eftirlitskerfi og seinagangi í útgáfu leyfa.
Enn fremur hefur uppbygging seiðaeldis í Vestmannaeyjum gengið vel. Þar var lagt upp með að geta framleitt seiði fyrir önnur laxeldisfyrirtæki og hefur fyrsta pöntunin þegar verið afgreidd.
______________________________________
Borholusjórinn alveg tær
Ómar Grétarsson, sölu og markaðsstjóri First Water í Þorlákshöfn, sagði í sínu erindi að að ísland gæti orðið helsta miðstöð landeldis í heiminum, enda mikið af endurnýjanlegri orku og hreinu vatni. Jafnframt hafi Ísland byggt upp gott orðspor fyrir framleiðslu sjávarafurða. Með réttri markaðssetningu væri hægt að setja laxinn á sama stall og íslenska þorskinn.
Miklir kostir fylgdu fiskeldi á landi, eins og engar slysasleppingar og engar lýs. Þá væri hægt að vera með fulla stjórn á losun úrgangs og ekki væri þörf fyrir notkun sýklalyfja. Jafnframt væri hægt að ná 94 prósent af fiski sem af fyrsta flokks gæðum þrátt fyrir að þéttnin sé mun meiri en í sjókvíaeldi, eða 75 kílógrömm í hverjum rúmmetra. Framleiðsluferlið sé jafnframt styttra þegar laxinn er ræktaður á landi og auðveldara að stilla framleiðsluna af þannig að hægt sé að slátra þegar verð á laxi er hæst.
First Water notar jarðsjó úr borholum sem hefur þann kost að vera afar tær. Því sé hægt að nota jarðsjóinn oftar en einu sinni og samkvæmt mælingum sé affallið tærara en sjórinn sem því er sleppt í. Slátrun á laxi hófst í Þorlákshöfn í lok síðasta mánaðar. Meðalstærðin var 5,2 kílógrömm og 96 prósent fisksins komst í fyrsta flokk. Fiskurinn er slægður og blóðgaður og sendur á markaði í Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi, Frakklandi og Spáni.
