Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Laxeldi í sjókvíum í Tálknafirði.
Laxeldi í sjókvíum í Tálknafirði.
Lesendarýni 23. maí 2025

Laxalúsafár, regluverkið og upplýsingagjöf

Höfundur: Valdimar Ingi Gunnarsson, sjávarútvegsfræðingur og sérfræðingur í fiskeldi.

Laxeldi á Íslandi hefur snúist um að halda umhverfiskostnaði í lágmarki til að ná sem mestum fjárhagslegum ávinningi. Aftur á móti í tilfelli laxalúsafársins í Tálknafirði á árinu 2023 fóru menn vel yfir strikið og lentu í framhaldinu í verulegu fjárhagslegu tjóni. Í þessari grein verður m.a. fjallað um það mál og þróunina fyrir og eftir atburðinn er snýr að stefnumótun, lagaramma og stjórnsýslu.

Stefnan lögð
Valdimar Ingi Gunnarsson

Stefnan var lögð strax á árinu 2017 með skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um stefnumótun í fiskeldi en þar voru þáverandi stjórnarformenn Arnarlax og Fiskeldis Austfjarða (Kaldvík) leiðandi aðilar. Þar var lítið gert úr þeim viðfangsefnum að hemja laxalúsina þrátt fyrir að á sama tíma væri tíðni laxalúsa á eldislaxi í hæstu hæðum hjá Arnarlaxi. Þessi skýrsla var síðan grunnur að gerð laga um fiskeldi sem samþykkt voru á Alþingi á árinu 2019.

Umhverfismálum laxeldis ábótavant

Í umsögn höfundar við fiskeldisfrumvarpið á vorþingi 2019, sem bar heitið ,,Fljótandi að feigðarósi“, var varað við því að ef frumvarpið yrði samþykkt óbreytt munu Íslendingar standa að baki nágrannalöndum í umhverfismálum laxeldis, m.a. er varðar laxalús. Málinu var síðan fylgt eftir með því að senda greinargerðina ,,Stefnumótunarskýrslan og vinnubrögðin“ til allra alþingismanna. Því miður hefur höfundur haft rétt fyrir sér en tekið skal fram að hann var ekki einn um að koma með viðvaranir.

Strangari reglur í nágrannalöndum

Skv. reglugerð nr. 1062/2021 um breytingu á reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi er miðað við að rekstraraðili fari í aðgerðir ef meðaltalsfjöldi kynþroska kvenlúsa fer umfram 0,5, 1, 1,5 og 2 á hvern fisk. Hver rekstraraðili skilgreini sín viðbrögð og Matvælastofnun þarf að samþykkja. Það liggja ekki fyrir opinberar upplýsingar um viðbragðsáætlun einstakra rekstraraðila, hverjar þær eru og hvort sambærilegar kröfur eru gerðar til einstakra fyrirtækja. Í okkar nágrannalöndum, sem við viljum oft bera okkur saman við, eru opinberar kröfur sem gilda jafnt fyrir alla rekstraraðila og þannig hefur það verið lengi.

Laxalúsafárið á Tálknafirði

Það var aðeins tímaspursmál hvenær tjón yrði þegar tekið er tillit til aukins umsvifs eldisins, skipulags og þeirra mótvægisaðgerða sem almennt voru viðhafðar. Laxalúsafárið í Tálknafirði haustið 2023 átti því ekki að koma á óvart, en umfangið og tjónið var e.t.v. meira en menn áttu von á enda vakti það athygli út fyrir landsteinana. Í febrúar 2024 gaf Matvælastofnun út skýrsluna ,,Afföll vegna laxalúsa í Tálknafirði 2023“ þar sem er að finna greiningu á atburðarás laxalúsafársins. Höfundur hafði áður gefið út skýrsluna ,,Laxalúsafár í Tálknafirði: Aðdragandi, ástæður og afleiðingar“ í lok ársins 2023 þar sem margt er rakið og útskýrt sem ekki er gert í skýrslu Matvælastofnunar og m.a. bent á að skipulagi eldisins í Patreksfirði og Tálknafirði var ekki fylgt eins og lagt var upp með í umhverfismati Arnarlax og Arctic Sea Farm (Dýrfiski). Jafnframt höfðu framleiðsluheimildir verið auknar og fjarlægðarmörk á milli sjókvíaeldisstöðva verið minnkaðar frá því sem lagt var upp með í umhverfismati félaganna.

Matvælaráðuneytið fer ekki eftir tillögum Matvælastofnunar

Í minnisblaði Matvælastofnunar til matvælaráðuneytisins frá 22. júní 2023 undir heitinu ,,Minnisblað um endurskoðun á viðbrögðum við laxalús“ er lagt til að núverandi fyrirkomulag verði fellt úr gildi og stofnunin kom með tillögur að framtíðarsýn. Tillögur Matvælastofnunar fólu m.a. í sér strangari reglur um viðmið um hámarksfjölda kynþroska kvenlúsa á fiski, komið verði á punktakerfi eða refsikerfi, talning á fjölda laxalúsa á eldisfiski aukin, o.fl. Í maí var gefin út breytingareglugerð nr. 367/2024 á reglugerð nr. 540/2020, um fiskeldi en þar er aðeins gerð breyting er varðar talningu á laxalús. Hér er ekki verið að taka á málum þar sem aukin talning breytir litlu sem engu.

Laxalúsalyf og minni kostnaður

Það hefur vakið athygli að stefnubreyting hefur verið gerð á árinu 2024 er varðar heimild til notkunar á laxalúsalyfjum. Nú veitir Fisksjúkdómanefnd undanþágu til notkunar á laxalúsalyfjum til þeirra laxeldisfyrirtækja sem þess óska. Í greinargerðum með undanþágunum er ekki tekið fram hvort og þá hvaða umhverfisvænar mótvægisaðgerðir höfðu áður verið viðhafðar. Laxalúsalyf eru almennt mjög virk við aflúsun og með því að nota þau í staðinn fyrir umhverfisvænar mótvægisaðgerðir má oft draga úr kostnaði. Íslensku laxeldi er að mestu stjórnað af erlendum fjárfestum og þeir vilja hámarka hagnaðinn. Með því að lágmarka umhverfisvænar mótvægisaðgerðir og viðhafa litlar kröfur um hámarksfjölda laxalúsa á eldisfiski hefur verið hægt að halda kostnaði töluvert lægri en hjá norskum móðurfélögum íslensku laxeldisfyrirtækjanna.

Dregið úr upplýsingagjöf

Það var tekið gott jákvætt skref þegar Mælaborð fiskeldis var innleitt hjá Matvælastofnun á árinu 2021. Vakið hefur hins vegar athygli að búið er að taka út upplýsingar um einstök eldissvæði á Mælaborði fiskeldis þar sem m.a. mátti finna upplýsingar um fjölda laxalúsa á eldisfiski. Nú eru aðeins gefnar upplýsingar um hvern fjörð, en þar geta verið margar kvíaþyrpingar með mismunandi laxalúsaálagi og jafnvel með fleirum en einum rekstraraðila. Með þessari breytingu er minna gagnsæi en t.d. í Noregi en þar er hægt að finna upplýsingar um fjölda laxalúsa á eldisfiski fyrir hvert eldissvæði á www.lusdata.no. Arnarlax, Arctic Fish (Arctic Sea Farm) og Kaldvík eru að mestu í eigu Norðmanna og jafnframt er yfirstjórn mest norsk sem lýtur minna gagnsæis hér á landi en þeir þyrftu við stjórnun sambærilegra fyrirtækja í Noregi. Í Færeyjum, sem íslensk stjórnvöld líta oft til, er hægt að sjá fjölda kynþroska kvenlúsa á eldisfiski einstakra eldissvæða á vef Heilsufrøðiliga starvsstovan.

Áreiðanleiki gagna á Mælaborði fiskeldis

Áreiðanleika gagna á Mælaborði fiskeldis virðist einnig vera ábótavant og í því sambandi má nefna Dýrafjörð þar sem Arctic Sea Farm er með laxeldi í sjókvíum. Engin laxalús er gefin upp fyrir árið 2024 en þrátt fyrir það þarf að aflúsa fiskinn skv. gögnum frá fisksjúkdómanefnd. Það vekur einnig athygli að talning á laxalús á eldisfiski er gerð af starfsmönnum eldisfyrirtækjanna og að því er virðist ekkert eða lítið opinbert eftirlit. Í Færeyjum er t.d. óháður fagaðili sem sér um talningu á laxalús hjá öllum sjókvíaeldisfyrirtækjum þar í landi.

Að lokum

Fyrirtæki sem vilja standa sig vel í umhverfismálum eiga í örðugleikum með það á meðan stöðugur straumur af laxalúsalirfum berst frá sjókvíaeldi Arnarlax og Arctic Fish. Það skal þó tekið fram að átt hefur sér stað jákvæð framþróun á árinu 2024 en þrátt fyrir það er fjöldi laxalúsa á eldisfiski töluvert meiri hér á landi en hjá móðurfyrirtækjunum í Noregi.

Skylt efni: laxalús

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f