Laxalús, notkun lyfja og umhverfisáhrif
Á síðasta ári voru heimildir um notkun laxalúsalyfja við aflúsun á eldisfiski afgreiddar því sem næst á færibandi hjá fisksjúkdómanefnd. Við afgreiðslu undanþága nefndarinnar kemur ekkert fram hvort áður hafi verið gripið til umhverfisvænna mótvægisaðferða eða takmarkanir séu á notkun lyfjanna vegna mögulegra neikvæðra umhverfisáhrifa. Notkun laxalúsalyfja er tiltölulega ódýr, hagkvæm og afkastamikil aðferð við aflúsun í samanburði við margar umhverfisvænar aflúsunaraðferðir. Ókosturinn við notkun laxalúsalyfja er að þau geta haft neikvæð umhverfisáhrif, skaðað ímynd og takmarkað sölumöguleika. Laxalúsalyf ætti því eingöngu að nota sem neyðarúrræði þegar allar aðrar mótvægisaðgerðir bresta.
Varnaðarorð sérfræðinga
Á árinu 2019 birtu sérfræðingar á Hafrannsóknastofnun skýrsluna ,,Lyf gegn laxalús: virkni, áhrif og notkun“. Þar kemur m.a. fram að lyfjagjöf gegn laxalús í fiskeldi er sá þáttur sem valdið getur hvað mestum skaða á lífverum í nærumhverfinu. Mikilvægt er að fara varlega í notkun lúsalyfja, ekki síst þar sem sjálfbærir nytjastofnar eru fyrir á svæðum þar sem fiskeldi er eða fyrirhugað að stunda það. Í ljósi rannsókna og reynslu annarra þjóða ásamt skorti á rannsóknum á Íslandi væri skynsamlegt að sporna gegn notkun lúsalyfja, a.m.k. inni á fjörðum nálægt rækjustofnum vegna mikillar áhættu um neikvæð áhrif á stofnana. Í skýrslu sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar kemur fram að önnur úrræði ættu ávallt að vera fyrsti kostur.
Notkun laxalúsalyfja
Laxalúsalyf hafa verið notuð hér á landi til aflúsunar á eldisfiski vegna laxalúsar og fiskilúsar í nokkur ár (mynd 1). Framan af var notkunin mest bundin við aflúsun fisklúsar en á seinni árum aðallega vegna laxalúsar. Mest hefur verið notað af Slice (emamectin) en virka efnið er innan sviga. Slice hefur verið gefið í formi fóðurs. Við böðun á eldisfiski hefur verið notað Salmosan (azamethiphos) og AlphaMax vet. (deltametrin). Notkun laxalúsalyfja jókst verulega á árunum 2023 og 2024 en á þessum árum var mesti lífmassi af eldisfiski á Vestfjörðum aðeins um 25.000 tonn á haustin þegar mest var af fiski. Fjöldi aflúsana með lyfjafóðri er undir einni á hver 1.000 tonna lífmassa af fiski.
Áhættumat
Laxalúsalyf geta mögulega haft neikvæð áhrif á lífríkið og þá einkum á krabbadýr í sjónum. Norska Hafrannsóknastofnunin hefur lagt mat á áhættuna á notkun laxalúsalyfja sem er mjög mismunandi eftir hvaða efni eru notuð við aflúsun (tafla 1 og 2). Slice með virka efnið emamectin er almennt talið hafa lítil umhverfisáhrif en bent hefur verið á að þekking er takmörkuð og margar meðhöndlanir auka óvissuna og þar með áhættuna. Það er einnig talið að umhverfisáhrifin með notkun salmosan séu lítil. Aftur á móti getur AlphaMax vet. með virka efnið deltametrin haft veruleg neikvæð umhverfisáhrif, sérstaklega á sumrin.


Mat á umhverfisáhrifum
Aðstæður geta verið mjög mismunandi og í Noregi er áhætta tengd alvarlegum áhrifum á krabbadýr byggt á einstaklingsbundu mati á laxalúsalyfi, fjölda meðferða, árstíma meðhöndlunar, staðsetningu og óvissu vegna þekkingarskorts. Gefnar hafa verið út leiðbeiningar í tengslum við áhættumatið og hvaða þátta ber helst að taka tillit til. Það felur m.a. í sér að lagt er mat á áhættu út frá straumum á viðkomandi svæði, lagskiptingu sjávar, dýpi við kvíar, fjarlægð við fjörur, útbreiðslusvæði rækju og hrygningarsvæði svo nokkuð sé nefnt. Á Íslandi eru gefin leyfi til notkunar laxalúsalyfja án þess að áhættumat sé framkvæmt.
Þynning
Böðun á eldisfiski með laxalúsalyfjum hér á landi hefur bæði verði framkvæmd í sjókvíum og einnig í brunnbátum. Þegar laxalúsalyfin berast frá sjókvínni eftir að böðun lýkur á sér fljótt stað þynning og þannig minnkar almennt skaðsemin eftir því sem efnið berst lengra frá kvínni. Í tilfelli böðunar í brunnbáti, er baðefnið losað á meðan skipið er á ferð og þannig er útþynning laxalúsalyfja meiri. Jafnframt er hægt að stýra frekar staðsetningu losunar með siglingu á svæði sem talin eru taka betur við og þannig lágmarkað umhverfisáhrifin.
Að lokum
Það er oft mikið gert úr neikvæðum áhrifum notkunar laxalúsalyfja og vissulega geta áhrifin verið neikvæð í sumum tilvikum. Það sem hins vegar er gagnrýnivert er óheft notkun laxalúsalyfja án þess að það liggi fyrir áhættumat á mögulegum staðbundnum og neikvæðum áhrifum lyfjanna á lífríkið.
