Landslið Íslands að tafli í Georgíu
Þegar þessi pistill er skrifaður er Evrópumót landsliða í fullum gangi. Gengi íslensku liðanna hefur verið upp og niður, en við erum með sveitir í bæði opnum flokki og kvennaflokki.
Upp kom stórundarlegt og á sama tíma stórskemmtilegt atvik, í 3. umferð mótsins. Sjálfur átti ég erindi í húsakynni Skáksambandsins og Skákskólans og lauk þar ákveðnum verkefnum með kaffibolla við hönd. En það var freystandi að kveikja á stóra skjánum, og fylgjast aðeins með Evrópumótinu. Þá mætir skólastjóri Skákskólans til leiks, Björn Ívar Karlsson, og við ákveðum að spá aðeins í spilin. Hann spáir ýmsum raunhæfum möguleikum og mögulegri framvindu skákanna, á meðan ég spái því hvernig hlutir geti fræðilega klúðrast. En þá snúast spár mínar að sjálfsögðu um hvernig hlutirnir geti klúðrast okkur Íslendingum í hag!
Upp kom þungt hróksendatafl, eins og svo oft áður, hjá margreyndu landsliðskonunni Hallgerði Helgu. Hún var peði undir og erfið vörn framundan. Þá benti ég á skjáinn og sagði við Björn Ívar: „Mikið væri skondið ef hvíta peðið væri komið á a5 - þá gæti svartur leikið …Ha4 og hótað e5 mát!
Stuttu síðar kom dálítið óp úr munni skólastjórans, sem kom mér dálítið á óvart, enda hafði ég ekki heyrt skólastjórann æpa áður. „Það gerðist” sagði hann! Á stöðunni sem hér sést hafði hvítur nefnilega leikið a-peði sínu frá a5 til a6, og því svaraði Hallgerður um hæl með e5 mát!
Af skákfréttum hér innanlands má nefna að á dögunum vann Magnús Pálmi Örnólfsson Alþjóðlega geðheilbrigðismótið með fullu húsi. Þetta er í nítjánda sinn sem Vinaskákfélagið stendur fyrir mótinu, og síðustu ár í samstarfi við Taflfélag Reykjavíkur.
Einnig varð ljóst að nýr skákmeistari Skákfélags Akureyrar yrði krýndur. Einvígi fór fram um titilinn milli Símons Þórhallssonar og Markúsar Orra Óskarsson, en þeir urðu efstir og jafnir í Haustmóti Skákfélagsins. Símon vann nauman sigur eftir bráðabana, en jafnt var í einvígi þeirra eftir fyrstu tvær skákirnar. Báðir teljast þeir ungir og efnilegir skákmenn, þó Markús sé að vísu tíu árum yngri. Mun Markús vafalaust gera atlögu að Skákfélagstitlinum á næsta ári.

