Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Bjarni Benediktsson tók við embætti matvælaráðherra 17. október sl.
Bjarni Benediktsson tók við embætti matvælaráðherra 17. október sl.
Mynd / Aðsend
Fréttir 24. október 2024

Landbúnaður settur í biðstöðu

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Lítt verður aðhafst í landbúnaðarmálum af hendi stjórnvalda fram yfir kosningar. Hvatt er til að frambjóðendur til alþingiskosninga hugi að brýnum málefnum landbúnaðarins.

Í kjölfar þess að Sjálfstæðisflokkurinn sleit ríkisstjórnarsamstarfinu 13. október sl. er ekki von á aðgerðum í landbúnaðarmálum út þetta ár, hvorki frá ráðuneyti matvæla né þinginu.

Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að vissulega gæti óvissu. Starfsstjórn hafi takmarkað vald og því verði í reynd engar stórvægilegar ákvarðanir teknar nú. Þá geti komið áherslubreytingar með nýjum matvælaráðherra og það verði líka að teljast eðlilegt þegar ný stjórn tekur við.

Haldið í horfinu

„Okkar hlutverk í Bændasamtökunum er hins vegar að tryggja að málefni landbúnaðarins fái viðeigandi athygli í kosningunum þannig að þau séu sett ofarlega á dagskrá allra flokka. Verkefnin fram undan eru ærin í landbúnaðinum og þau verða það áfram, þannig að við hlökkum bara til að starfa með nýjum ráðherra, hver svo sem hann verður,“ segir Trausti.

Fyrirspurn til stjórnvalda varðandi hvaða áhrif stjórnarslit, starfsstjórn, nýr matvælaráðherra og fyrirhugaðar kosningar eftir örfáar vikur hafi á landbúnaðartengd málefni var svarað með eftirfarandi hætti:

„Hlutverk starfsstjórnar er að tryggja stjórnskipulega festu og að halda nauðsynlegum verkefnum gangandi. Megináhersla verður lögð á fjárlög, fjáraukalög og fjárlagatengd mál. Matvælaráðherra mun eftir þörfum afgreiða fyrirliggjandi mál og taka afstöðu til breytinga á reglugerðum.“
Í lok september gaf Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þáverandi matvælaráðherra, út aðgerðaáætlun landbúnaðarstefnu til fimm ára. Til grundvallar áætluninni liggur landbúnaðarstefna til 2040 sem samþykkt var á Alþingi undir sumar 2023. Má ætla að aðgerðaáætlunin verði síðasta opinbera aðgerðin beinlínis í þágu landbúnaðarmála á þessu ári.

Kílómetrar og kolefni

Alþingi mun, ef að líkum lætur, samþykkja fjárlagafrumvarp starfsstjórnar. Jafnframt er stefnt að því að afgreiða hækkun kolefnisgjalds á jarðefnaeldsneyti og kílómetragjald vegna notkunar ökutækja, sem komi til framkvæmda um næstu áramót. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að kílómetragjald komi í stað olíu- og bensíngjalda sem gjald fyrir notkun allra ökutækja í vegakerfinu.

Bændasamtökin gerðu athugasemd við þátt landbúnaðarvéla, þ.e. dráttarvéla og eftirvagna til landbúnaðarnota, í umsögn sinni við frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda. Hvöttu samtökin til að allur vafi yrði tekinn af varðandi að landbúnaðartæki verði undanþegin frá gjaldskyldu.

„Ekki þarf að taka fram að ef slík landbúnaðartæki myndu falla undir gjaldskylduna væri það gríðarlegur kostnaðarauki fyrir bændur og landbúnaðinn í heild sinni,“ segir í umsögninni.
Um það að u.þ.b. tvöfalda eigi kolefnisgjald af jarðefnaeldsneyti segja samtökin í umsögn að rafknúnar dráttarvélar séu ekki til staðar í landinu og traktorar sem gangi fyrir metani teljandi á fingrum annarrar handar. Þannig skjóti skökku við varðandi tilgang og markmið kolefnisgjaldsins, þ.e. að hvetja til vistvænnar tækni og orkugjafa, að hækkun gjaldsins bitni á bændum og íslenskum landbúnaði.

Mál gufa upp eða tefjast

Nokkuð ljóst er að allmörg þingmál tengd landbúnaði, beint og óbeint, falla að sinni milli skips og bryggju eða tefjast mögulega vegna stjórnarslitanna og kosninga. Má þar nefna stjórnartillögur um mótun stefnu um dýraheilsu til ársins 2040, stefnu stjórnvalda um uppbyggingu vindorku á Íslandi og einnig verndar- og orkunýtingaráætlun/virkjunarkosti í vindorku.

Önnur mál sem bíða líklega að sinni eru m.a. umhverfismat framkvæmda og áætlana og skipulagslög (S), ættliðaskipti og nýliðun í landbúnaðarrekstri (S), heildarendurskoðun á þjónustu og vaktkerfi dýralækna (F), búvörulög/niðurgreiðsla á raforku til garðyrkjubænda (Flf), erfðafjárskattur/ættliðaskipti bújarða (S), leyfi til veiða á álft, grágæs, heiðagæs og helsingja utan hefðbundins veiðitímabils (F), skráning og bókhald kolefnisbindingar í landi (F), brottfall laga um gæðamat á æðardúni (S), velferð dýra/bann við blóðmerahaldi (Flf), stofnun ríkisfélags um rafeldsneytisframleiðslu (F) og breyting á ýmsum lögum vegna banns við hvalveiðum (P), skv. vef Alþingis. 

Lausn á vísnagátu
Líf&Starf 24. nóvember 2025

Lausn á vísnagátu

Lausnin á vísnagátu Guðbjörns Sigurmundssonar í síðasta Bændablaði er orðið mál.

Skákmánuðurinn janúar
Líf&Starf 3. febrúar 2025

Skákmánuðurinn janúar

Janúarmánuður hefur lengi verið frekar stór skákmánuður á Íslandi. Í þeim mánuði...

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann
Líf&Starf 13. desember 2024

Þörfnumst heilbrigðara sambands við tímann

Carl Honoré, sem gjarnan hefur verið kallaður rödd alþjóðlegu Hæglætishreyfingar...

Sækja áhrif til Suður-Evrópu
Líf&Starf 9. október 2024

Sækja áhrif til Suður-Evrópu

Í síðustu úthlutun Matvælasjóðs fengu bændur í Syðra-Holti í Svarfaðardal rúmleg...

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi
Líf&Starf 14. ágúst 2024

Brautryðjandi í búskap með íslenska hesta í Noregi

Ingebjørg Helkås Vaa fæddist í Noregi 14. júlí 1933, yngst fimm systkina. Hún va...

Stjörnuspá vikunnar
Líf&Starf 2. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn veit vart í hvorn fótinn hann á að stíga þessa dagana. Lífið virðist...

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!
Líf&Starf 10. maí 2022

Heitt poppkorn er hollt sælgæti!

Svo hljóðaði auglýsing er birtist á síðu Morgunblaðsins í júlílok árið 1968 - en...

Lesning fyrir heilabilaða
Líf&Starf 4. maí 2022

Lesning fyrir heilabilaða

Þegar ég setti saman bókina Í húsi afa míns sem kom út fyrir tólf árum, hvarflað...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f