Lágmarksverð mjólkur hækkað
Verðlagsnefnd búvara hefur tekið ákvörðun um hækkun lágmarksverðs mjólkur til bænda og heildsöluverðs mjólkur og mjólkurafurða. Breytingarnar hafa þegar tekið gildi.
Lágmarksverð fyrsta flokks mjólkur til bænda hækkar um 1,15 prósent úr 139,53 krónum á lítrann í 141,13 krónur á lítrann. Heildsöluverð mjólkur og mjólkurvara sem nefndin verðleggur hækkar um 1,33 prósent. Hækkun lágmarksverðs mjólkur til bænda er til komin vegna kostnaðarhækkana við framleiðslu mjólkur frá síðustu verðákvörðun sem byggði á verðlagi í mars 2025. Verðlagsgrundvöllur kúabús hækkar um 1,15 prósent frá mars til júní 2025.
Heildsöluverð á mjólk og mjólkurvörum hækkar um sem nemur veginni kostnaðarhækkun vegna hráefniskaupa og hækkun vinnsluog dreifingarkostnaðar. Vinnslu- og dreifingarkostnaður afurðastöðva hækkar um 1,55 prósent. Verðbreytingar byggja á kostnaðarbreytingum frá mars til júní 2025 en á sama tíma hækkaði vísitala neysluverðs um 1,99 prósent. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu á vef atvinnuvegaráðuneytisins.
